152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Þegar maður skoðar þetta plagg kemur fram í byrjun, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að aldrað fólk á Íslandi skuli búa við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt.“

Þetta eru háleit markmið að horfa til en maður spyr: Á Íslandi 2022, af hverju er ekki aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu tryggt? Maður veltir fyrir sér: Hvað hafa menn verið að gera allan þennan tíma, að fólk þurfi að glíma við það að hafa ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu? Eitthvað mun það kosta að tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, ekki bara aldraðra heldur alls almennings á Íslandi. Það sitja ekki allir við sama borð hvað það varðar þar sem við erum ekki með heilbrigðisþjónustu út um allt land. Svo kemur fram í 5. lið í greinargerð:

„Ekki er búist við að tillagan ein og sér leiði til aukins kostnaðar en gera má ráð fyrir að einstaka aðgerðir í áætlunum geti leitt tímabundið til aukins kostnaðar.“

Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Hvernig getum við haft svona háleit markmið um að tryggja aðgengi allra á sama tíma og það má ekki kosta neitt? Ég næ þessu ekki, en þetta eru falleg orð á blaði sem við sjáum hér. Það er margt sem er spennandi að horfa til og ef við sæjum þetta verða að veruleika er það auðvitað af hinu góða. En við sjáum, bara síðast í dag, hlutum kippt út af borðinu sem áttu að leiða til samþættingar á þjónustu. Það stendur í þessu frumvarpi að þjónusta verði persónumiðuð og samþætt fyrir aldrað fólk. Í dag sjáum við að búið er að kippa út af borðinu frumvarpi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna þar sem þjónustan við börn átti að vera samþætt. Á sama tíma, á sama degi erum við að ræða að samþætta þjónustu við aldraða. Maður veltir fyrir sér: Hvenær er sagður sannleikur og hvenær ekki í þessu? Eða eru þetta bara endalaust falleg orð á blaði, orðagjálfur sem ekki er hægt að taka mark á? Því miður hefur það oft verið þannig að hlutirnir fara þannig.

Þarna stendur m.a. að viðmið verði sett um fjölda hjúkrunarrýma á hverju svæði. Þá spyr ég alla vega: Hvaða viðmið eiga að vera? Hversu stór eiga þessi svæði að vera? Er t.d. ásættanlegt fyrir eldri íbúa á Vík í Mýrdal að fara á hjúkrunarheimili á Selfossi? Skiptir ekki máli hver skilgreining á svæði er eða á bara að miða við heilbrigðisumdæmin? Það er svo margt sem mér finnst vera skrýtið í þessu.

Það hefur verið rætt um það mikið og oft að Ísland fari bara á hausinn ef við byggjum hjúkrunarheimili til að sinna gamla fólkinu okkar. En ég spyr: Má ekki líka spara niður á við? Ekki það að við ætlum að fara að hjúkra öllum heima í rúmunum heima hjá fólki, erum við ekki líka á sama tíma að koma fólki út af dýrasta úrræðinu, sem er Landspítalinn, inn á hjúkrunarheimilin og lækka þar með kostnað við hjúkrun þeirra sem í raun og veru eiga ekki að vera á Landspítala en eiga svo sannarlega heima í sólarhringsumönnun sem væri þá hjúkrunarheimili? Við myndum spara fullt af peningum ef menn hefðu nýtt það úrræði sem búið var til, sem var Framkvæmdasjóður aldraðra, og átti að sjá um þennan málaflokk og byggja úrræði fyrir eldra fólk en var svo bara tekið í ríkissjóð og nýtt í annað. Þannig að jú, mér finnst margt vera spennandi og ég væri svo sannarlega til í að sjá þetta verða að veruleika en því miður segir reynslan mér allt aðra hluti.