152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir einu sem hv. þingmaður ræddi um, þ.e. að geta búið þar sem þú vilt búa. Nú veit ég að hv. þingmaður kemur frá Reykjanesinu og mig langaði að fá að heyra hvað hv. þingmaður hefur heyrt frá eldra fólki þar: Er mikið verið að ýta á að það fái alla þjónustu í Reykjavík eða er verið að bjóða upp á nægilega mikla þjónustu á Reykjanesi fyrir fólk sem vill fá að búa nærri fjölskyldu, nærri heimahögum og slíkt? Og ef ekki, hvað þarf þá að gera? Hvað telur hv. þingmaður að þurfi að gera til að bæta úr því og hvernig geta sveitarfélög og ríkið unnið betur saman í að tækla þau vandamál? Þar sem hv. þingmaður hefur einmitt reynslu líka af sveitarstjórnarsviðinu væri gaman að fá að heyra, ef hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra væru í sama flokki, hvernig myndi hv. þingmaður tækla þetta í samvinnu milli þessara tveggja aðila?