152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:51]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég kem frá svæði sem hefur búið við það í mörg undangengin ár að það vantar hreinlega heilbrigðisþjónustu, ekki bara fyrir eldra fólk heldur fyrir alla. Við vitum af þúsundum íbúa á Suðurnesjum sem þurfa að leita eftir þjónustu inn á höfuðborgarsvæðið af því að þjónustan er bara ekki til staðar. Við erum með eina heilsugæslu og það búa 30.000 manns á svæðinu og það eru að meðaltali í kringum 11.000 manns á hverja heilsugæslu. Það er bara veruleg vöntun á þjónustu. Fyrir utan það að við höfum lengi verið að bíða eftir því að byggja nýtt hjúkrunarheimili. Það var undirritaður samningur í febrúar 2019, held ég, um byggingu þess heimilis. Það er ekki farið af stað. Einhverra hluta vegna virðast stofnanir ríkisins geta haldið hlutunum í gíslingu og sett þá í gang þegar þeim hentar. Við í heimabyggð höfum ekki getað beitt okkur sem skyldi í því að koma þessu í gang þrátt fyrir að sveitarfélögin leggi fram framlag til byggingar hjúkrunarheimila í upphafi.

Það sem við þurfum alltaf að vera að skoða er samþætting þjónustu og hverjir veita þjónustuna. Það eru mörg grá svæði á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi félagslegu heimaþjónustuna og heimahjúkrunina sem þarf að skoða og vinna með þannig að fólk sé ekki að lenda á milli skips og bryggju þegar kemur að því að veita því þjónustu. Því miður gerist það allt of oft í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að verið er að þrátta um það hver á að gera hvað.