133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:34]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins og þætti vænt um ef þingheimur mundi hlusta á. Fyrir mér erum við a.m.k. komin að ákveðnum vatnaskilum í frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. Útvarpsstjóri hefur blandað sér í umræðuna um þetta frumvarp og hæstv. menntamálaráðherra hefur fagnað því. Það væri kannski í lagi ef útvarpsstjóri væri að fara með rétt mál. Mig langar að vitna í yfirlýsingu, frú forseti, sem kom fram á heimasíðu BSRB og er frá BSRB og BHM varðandi skerðingu á réttindum og kjörum starfsmanna Ríkisútvarpsins sem er að mínu mati megintilgangurinn með þessu frumvarpi. Yfirlýsingin hljómar svo, með leyfi forseta:

„Í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf. hefur ítrekað verið vísað til yfirlýsingar Páls Magnússonar útvarpsstjóra frá því í nóvember sl. þar sem hann lýsti því yfir að öll kjör starfsmanna RÚV muni haldast óbreytt. Eftir að BSRB og BHM höfðu skoðað þessa yfirlýsingu voru samtökin sammála um að hún bætti engu við það sem fram kemur í sjálfu frumvarpinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir samtakanna um breytingar.

Í yfirlýsingunni segir Páll Magnússon orðrétt: „Gert er ráð fyrir að hið nýja félag yfirtaki allar skuldbindingar stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum, — bæði samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum.“ Innihald þessarar yfirlýsingar er í samræmi við aðilaskiptalögin og því væri verið að brjóta þau ef ekki væri farið að þessu.

Þá er ýmsum spurningum ósvarað, þar á meðal er með öllu óljóst hvað gerist þegar kjarasamningar renna út. Mun RÚV ohf. til að mynda vera reiðubúið til að semja á grundvelli fyrirliggjandi kjarasamninga við aðildarfélög innan BSRB og BHM sem hafa samningsrétt fyrir starfsmenn RÚV?

Einnig er óvíst hvernig samið verður við þá sem hefja störf eftir að lögin taka gildi en það er m.a. forsenda þess að nýráðnir geti farið í A-deild LSR að starfsmenn séu aðilar að þessum samtökum.

Þá segir Páll í yfirlýsingu sinni: „Réttindi starfsmanna haldast því óskert …“ Að mati BSRB og BHM stenst þessi fullyrðing ekki þar sem réttindi samkvæmt lögum, eins og t.d. lögum um réttindi og skyldur og stjórnsýslulög, munu ekki gilda gagnvart starfsmönnum RÚV ohf. Áminningarskyldan, andmælaréttur og auglýsingaskylda (Forseti hringir.) munu því t.d. ekki gilda.

Óvissan um rétt starfsmanna er því enn jafn mikil og hún var fyrir yfirlýsingu Páls Magnússonar.“