133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:46]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. menntamálaráðherra er óróleg í salnum en eins og hér hefur fram komið var haldinn fundur í morgun með 15 þingmönnum um málefni Byrgisins. Þessir þingmenn eiga sæti í fjárlaganefnd og félagsmálanefnd. Gert var ráð fyrir tveggja klukkutíma fundi með bæði ríkisendurskoðanda og félagsmálaráðuneytinu með þessum 15 þingmönnum um þetta viðamikla málefni. Menn töldu í alvöru að við gætum lokið þessu á þeim tíma. Við sáum auðvitað strax að svo yrði ekki og fórum fram á það að þessum þingfundi yrði frestað til að við gætum farið betur yfir málefni Byrgisins. Við vorum rétt komin af stað með ríkisendurskoðanda þegar fundi var slitið, vorum búin að fara eina umferð í gegnum þingmannahópinn með fyrirspurnir. Þetta er stóralvarlegt mál, þetta Byrgismál sem er ákveðin birtingarmynd á þeirri stjórnsýslu sem verið hefur með ríkisútgjöldin og það slælega eftirlit sem hefur verið með ríkisútgjöldum hér á landi. Það er nokkuð sem við verðum að fara mjög ítarlega í. Þarna kom í ljós að félagsmálaráðuneytið ritar undir tvær yfirlýsingar við Byrgið, reyndar hvora á sinni kennitölunni en á sama árinu, árið eftir að leyniskýrsla sem sýndi að þarna væri mikil óreiða í gangi kom fram. Þetta er nokkuð sem við verðum að fara ofan í.

Virðulegi forseti. Þess vegna hljótum við að spyrja: Hvað er það sem knýr svo á varðandi Ríkisútvarpið að það megi ekki bíða í einn dag meðan þessar nefndir tvær rannsaka þetta stóra mál sem hefur komið hér upp? Við verðum að fara að fá svör við því hvers vegna og hvað það er sem kallar á að (Forseti hringir.) hér séu sett herlög vegna þess að það verði að knýja þetta ríkisútvarpsmál í gegn. Við verðum að fara að fá svör við því vegna þess að Byrgismálið er miklu mikilvægara en Ríkisútvarpið á þessum fimmtudegi sem við stöndum á hér í dag.