133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

nefndafundur um málefni Byrgisins.

[10:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ítreka og vek athygli forseta á ábyrgð forseta á störfum þingsins, ekki bara í þingsal heldur líka á störfum nefnda og þá líka mikilvægi þess að forseti fylgist mjög náið með hvaða mál brenna heitast á þinginu og þingnefndum á hverjum tíma. Ég sat á fundi í fjárlaganefnd í morgun, sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og félagsmálanefndar með ríkisendurskoðanda þar sem hann fór í gegnum skýrslu sína sem tók til síðustu tveggja ára um starfsemi Byrgisins. Mér varð um þær upplýsingar sem þar komu fram.

Þar kom m.a. fram að skýrslan hefði legið fyrir frá 2002–2003 með veigamiklum athugasemdum um starfsemi Byrgisins, bæði faglegum, fjárhagslegum og síðan stjórnsýslulegum. Ég spyr hæstv. forseta hvort forseti hafi kynnt sér þetta mál, hvort forseti hafi kynnt sér alvarleika málefnis Byrgisins, þess máls sem hér hefur verið fjallað um í fréttum undanfarna daga.

Það var óskað eftir því á fundi fjárlaganefndar að forseti gerði hlé á þingfundum svo að tveimur fullskipuðum þingnefndum gæfist tóm til að fara yfir, þótt ekki væri nema fyrri hluta málsins í samfellu, með ríkisendurskoðanda. Við því var ekki orðið. Nei. Það virðist vera svo að mati forseta að ekkert sé brýnna en að koma áfram þessu einkavæðingarfrumvarpi um Ríkisútvarpið sem er búið að vera á dagskrá í þinginu í þrjú ár og flestir orðnir sammála um að væri best að fresta alveg. Nei. Ég spyr forseta: Er það virkilega mikilvægara að knýja fram umræðu um Ríkisútvarpið um klukkutíma eða svo, um einkavæðingu Ríkisútvarpsins sem felur m.a. í sér skerðingu á kjörum starfsmanna eins og hér kom fram? Er það mikilvægara en að leyfa þingnefndum að starfa, þótt ekki sé nema einn klukkutíma í viðbót til að fjalla um þetta alvarlega mál, mál Byrgisins, sem er grafalvarlegt, faglega gagnvart því fólki og þeim verkefnum sem það hefur tekið að sér, gagnvart opinberum fjármunum sem þar hafa verið og stjórnsýslulegri ábyrgð? Ég spyr: Hefur forseti kynnt sér alvarleika þessa máls og ábyrgð forseta á þessu máli gagnvart þinginu?