133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

nefndafundur um málefni Byrgisins.

[10:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að lýsa yfir vonbrigðum með það að einmitt hv. fjárlaganefnd og félagsmálanefnd skuli ekki hafa gefist tími til að funda almennilega um þau mál sem voru á dagskrá í morgun, þ.e. málefni Byrgisins. Ég sat á þessum fundi sem fulltrúi í félagsmálanefnd og ég lagði þar eindregið til að honum yrði fram haldið, að upphafi þingfundar í dag yrði frestað til kl. hálftvö þannig að þingnefndirnar fengju að rækja skyldu sína, kynna sér þessi mál almennilega, tala við fulltrúa frá Ríkisendurskoðun, spyrja þeirra spurninga sem þarf að spyrja. Það eru ótal spurningar sem hafa vaknað. Við viljum líka fá tækifæri til að tala við fulltrúa frá félagsmálaráðuneytinu þannig að þingmenn kæmu út af þessum fundi nokkuð vel upplýstir, a.m.k. um ákveðna þætti þessa máls sem mér sýnist að sé grafalvarlegt. Ég vildi með þessu ráða stjórnarmeirihlutanum heilt því að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt fyrir ásýnd þingsins, þ.e. að þingnefndir fái tækifæri til að sinna hlutverki sínu, m.a. aðhaldshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég veit að hæstv. forseti tekur hlutverk sitt og embætti mjög alvarlega og ég veit að hæstv. forseta þingsins er mjög annt um ásýnd þingsins. Ég held að það hefði verið miklu vænlegra fyrir okkur öll ef við hefðum getað lokið þessum fundi í nefndunum því að þetta er, eins og komið hefur fram hér, mjög alvarlegt mál.

Hv. þm. Jón Bjarnason benti á skýrslu frá því í janúar 2002. Það kom fram á þessum fundi að varaformaður fjárlaganefndar hefði ekki séð skýrsluna og þó hefur hann tekið átt í umræðum um málefni Byrgisins, á árinu 2003 til að mynda. Honum hafði ekki verið tilkynnt um að þessi skýrsla væri til. Framsóknarflokkurinn virðist hafa legið á henni. Hún var gerð fyrir utanríkisráðuneytið og hún virðist hafa verið til í einhverjum skúffum í félagsmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti, þ.e. hún var undir höndum ráðherra Framsóknarflokksins en þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast ekki hafa vitað af tilvist þessara pappíra. Þetta virðist vera ítarleg skýrsla og hún vekur upp mjög alvarlegar athugasemdir. En þessari skýrslu var sem sagt leynt fyrir þinginu, ég fæ ekki betur séð. Það er býsna alvarlegt mál.

Ég harma það að þingfundur skuli hafa hafist hálfellefu og við skyldum hafa farið aftur í þessar skotgrafir sem við höfum verið í undanfarna daga því að við hefðum svo auðveldlega getað sinnt miklu mikilvægara verkefni sem er að skoða þessi málefni Byrgisins. Þau snúa ekki bara að Byrginu, hér er um að ræða prinsippmál og kannski svo alvarlegt mál að ég hygg að það henti jafnvel ríkisstjórnarflokkunum ágætlega að þingið sé upptekið við að rífast um Ríkisútvarpið þegar það ætti að vera að tala um til að mynda það mál sem ég held á hér.