133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:52]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Klukkuna vantar núna 7 eða 8 mínútur í 11. Það þýðir að það er rúmur klukkutími þangað til klukkan verður 12. Mér finnst svolítið undarlegt að hæstv. forseti skuli telja að það verði mun auðveldara að meta framhaldið eftir þann klukkutíma sem þá verður liðinn.

Þannig hagar til hjá mér, eins og ég nefndi áðan, að ég er á mælendaskránni. Það eru þrír þingmenn á undan mér ef ekkert hefur breyst frá því að ég skoðaði mælendaskrána. Ég þarf að mæta á fund iðnaðarnefndar kl. hálfníu í fyrramálið. Mín leið fyrir Hvalfjörð er því tvöföld á þessu tímabili, frá því að ég get yfirgefið þennan fund hér.

Ég hef ekki lagt það í vana minn að vera ekki viðstaddur þegar að mér kemur á mælendaskrá og ætla ekki að taka upp þann sið. Þess vegna þykir mér ekki gott ef hæstv. forseti treystir sér ekki til þess fyrr en eftir klukkutíma að skera úr því fyrir mig hvort mér sé óhætt að yfirgefa þetta hús núna. Það styttir verulega þann hvíldartíma sem ég gæti annars átt fram undan.