133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:19]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við höfum eytt þó nokkrum tíma í að ræða fundarstjórn forseta, enda fáum við þau loðnu svör að hæstv. forseti muni fara yfir það um miðnætti hversu lengi eigi að halda áfram eða hvort það eigi að halda áfram inn í nóttina. Ég trúi því að hv. þm. Valdimar L. Friðriksson sem er næstur á mælendaskrá mundi mjög gjarnan vilja vita núna hversu lengi eigi að halda áfram í nótt. Sá hv. þingmaður talaði nefnilega ítarlega um málið í fyrri ræðu sinni og ég trúi því að ræða hans gæti vel lengst mjög ef svona loðin svör eru gefin. Þess vegna ítreka ég þá ósk mína, herra forseti, að við fáum að vita hvort við eigum von á því og getum þá gert ráðstafanir ef hér á að skella á næturfundi eða hvort það eigi að hætta um miðnætti sem ég mundi fallast á að væri ásættanlegt, þ.e. að hér yrði gert hlé á þingfundi klukkan 12 eða enn þá betra væri það reyndar 15 mínútum fyrir 12. Að vísu er maður búinn að missa af síðasta strætó kl. hálftólf en það verður bara að hafa það.

Herra forseti. Ég óska eindregið eftir því að við fáum skýrari svör en þau að málin verði athuguð kl. 12.