138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þetta með manninn, láglaunamanninn, meðaltekjumanninn, hátekjumanninn. Við erum að reyna að hlífa láglaunamanninum og meðaltekjumanninum þannig að hann hafi eins mikið svigrúm og kostur er til að fara í bíó, fara í leikhús, kaupa blöð, taka þátt í neyslunni en skattleggjum hins vegar hina meira sem hafa meira handa á milli. Í Bandaríkjunum var smíðað hagkerfi, skattkerfi á grundvelli þess sem kallað hefur verið „trickle-down economics“ og hefur verið þýtt á íslensku sem brauðmolakenningin. Við ættum að gefa fyrirtækjunum og hinum efnameiri í þjóðfélaginu svigrúm til að baka sín stóru brauð og þá væri líklegt að molarnir hrytu niður á borð annarra í samfélaginu. Þessi formúla hefur einfaldlega ekki gengið upp. Það sem hefur reynst þjóðfélögunum vænlegast, hvort sem þau eru í kreppuástandi eða bara yfirleitt, er jöfnuður. Hann er til þess fallinn að sem flestir þjóðfélagsþegnar taki þátt í almennri neyslu. Hitt er líka staðreynd að neysla efnamesta fólksins er bara að óverulegu leyti innan lands, hún er fólgin í kaupum á munaðarvöru, stórum bílum og ferðalögum út um allan heim, en það er jöfnuðurinn þess vegna sem gildir. Þetta er rauði þráðurinn í skattlagningarstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú fer með völdin á Íslandi. Rauði þráðurinn (Forseti hringir.) er að finna leiðir til að jafna kjörin í landinu.