138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einhver mesta blekking sem þessi ríkisstjórn hefur beitt almenning í landinu er kynningin á þeim skattapakka sem við erum að ræða þegar sagt er að verið sé að hlífa láglaunafólki í landinu alveg sérstaklega. Þessu höfum við margoft svarað og sýnt fram á villuna, reyndar með stuðningi frá launþegasamtökum og eiginlega öllum þeim sem veitt hafa umsagnir inn í þingið sem sýna fram á að óbreytt lög mundu hlífa láglaunastéttunum í landinu meira en þessar illa útfærðu og vanhugsuðu hugmyndir ríkisstjórnarinnar.

Málið er að stækka kökuna. Brauðmolakenningin er teiknuð upp á teikniborði hagfræðinganna en hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að fara (Forseti hringir.) virðisaukaskattsleiðina og vörugjaldahækkunarleiðina verður á engan hátt túlkuð með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hér vegna þess að láglauna- og millitekjufólkið kaupir líka (Forseti hringir.) bensín á bílinn sinn. Það kaupir líka dísilolíu á bílana sína (Forseti hringir.) en um þau mál er verið að fjalla í þessu frumvarpi. Það er verið að hækka slík gjöld og þetta fólk kaupir sér líka (Forseti hringir.) vörur sem bera virðisaukaskatt, eru í virðisaukaskattsþrepinu, og skulda líka lán (Forseti hringir.) sem munu hækka vegna þessara hækkana.