139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[10:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við framsóknarmenn tökum undir þessa tillögu. Það er algerlega óásættanlegt að skuldug heimili þurfi að greiða sérstakan skatt vegna þeirra vandræða sem þau eiga í. Ég vil benda á að ef heimili ætla að skuldbreyta sínum lánum og flytja sig á milli fjármálastofnana með það að markmiði að fá hagstæðari kjör og endurfjármagna sig — það eru þúsundir heimila sem standa í þeim sporum í dag — er slík aðgerð skattlögð sérstaklega af hálfu ríkisins. Það er gersamlega óviðunandi og í raun og veru samkeppnishamlandi því að ríkið tekur skatt af fólki ef það vill skipta um fjármálastofnun, viðskiptaaðila. Það er eitthvað sem gengur einfaldlega ekki upp og ég hvet hv. nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd til að fara vel yfir málið eftir áramót vegna þess að við þurfum að ganga enn lengra í þessum efnum. Þetta er algerlega óviðunandi og það er mjög sérstakt að sjá að hin norræna velferðarstjórn skuli fella þessa tillögu.