141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með sjöundu ræðu sína um málið, ekki síst í ljósi þess að hann hefur líka gert 44 athugasemdir í andsvörum, að mér telst til.

Ég ætla ekki að mótmæla hv. þingmanni um eitt eða neitt í þessu andsvari heldur segja tvennt. Ég næ ekki að tala um alla þá hluti sem hann talaði um. Þegar hann ber saman þá sex kosti á tveimur svæðum sem breyttust frá drögum að þingsályktunartillögu frá formannahópnum og til þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur frammi eftir umsagnarferlið og síðan þær tvær virkjanir sem hann nefndi sérstaklega, Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun, og bæði formannahópurinn og verkefnisstjórnin að sínu leyti voru ekki með í þeim flokki sem hann vill hafa þær í, er sá mikli munur á því gagnvart ráðherrunum að ráðherrarnir lögðu til í þingsályktunartillögunni að þessir þrisvar sinnum tveir virkjunarkostir yrðu færðir í biðflokk. Það sem hv. þingmaður er að leggja til er að virða hið faglega starf ekki meira en svo að taka þær tvær virkjanir sem þarna eru og dæma þær endanlega í annan hvorn flokkinn, þ.e. orkunýtingarflokk að þessu sinni.

Svo verð ég að segja um Hagavatnsvirkjun að ég man ekki hvort hv. þingmaður var með mér á þeim fundi sem sérstaklega var haldinn um hana. Reyndar voru þeir nokkrir þar sem kom meðal annars Ólafur Arnalds og síðar barst bréf frá nafna hans, Ólafi Erni Haraldssyni. Ég held að hann geti ekki hafa verið þar og lesið þau gögn sem þar komu fram því að þar var vakinn sá vafi sem formannahópurinn tók einmitt til um Hagavatnsvirkjun sem olli því að hún var sett í biðflokk í staðinn fyrir að vera í orkunýtingarflokki. (Forseti hringir.) Hún var þar reyndar aldrei vegna þess vafa sem (Forseti hringir.) þau sjónarmið höfðu sem hv. þingmaður rakti um (Forseti hringir.) svokallaðan umhverfisþátt málsins. En ég vil gjarnan að þingmaðurinn segi okkur frá því (Forseti hringir.) hvort hann var á þessum fundi eða hvort hann hafi kynnt sér rannsóknir Ólafs Arnalds og sjónarmið Ólafs Arnar Haraldssonar um Hagavatnsvirkjun.