141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að þessi umræða hefur tekið tíma. Hún hefur verið góð og auðvitað kemur þetta niður á tíma sem við höfum til að ræða önnur mál, það gefur augaleið. Hv. þingmaður fór vel yfir það að hér lá mikið á. Hæstv. atvinnuvegaráðherra sem starfandi iðnaðarráðherra ætti nú að sitja hér og taka þátt í umræðunni, en hann kom hingað með heimsendaspána um að opinberir starfsmenn fengju ekki borgað um áramótin vegna þess að 2. umr. fjárlaga hafði tekið nokkra daga. En það er önnur saga.

Spurning mín til hv. þingmanns, sem er viðriðinn samninga á milli þingflokkanna, er: Af hverju er sú þráhyggja að klára þetta mál núna en ekki í janúar? Hv. þingmaður fór yfir það að tilboð hefði verið á borðinu sem fólst í því að taka rammaáætlunina fram í janúar og hleypa þannig öðrum málum hér í gegn.

Ástæða þess að ég vil ekki að rammaáætlun verði samþykkt er sú að ég hef áhyggjur af ferlinu. Ég trúi því að ef við gefum þessu meiri tíma væri von til þess að við gætum náð sátt um það vegna þess að ég tel ferlið svo mikilvægt. Þess vegna vil ég beita mér fyrir því að við gefum okkur meiri tíma í þeirri viðleitni að nálgast stjórnarmeirihlutann um að breyta þessu þannig að við getum náð meiri sátt. Er sátt ekki í boði, hv. þingmaður? Það er kannski spurningin. Telur þingmaðurinn að (Forseti hringir.) ekki sé vilji hjá stjórnarflokkunum til að ná sátt um málið heldur eigi að keyra það óbreytt í gegn og þess vegna megi ekki orða (Forseti hringir.) það að færa þetta fram í janúar?