141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal í því sem hann fór hér yfir í ræðu sinni. Tvöfalt siðgæði ræður svolítið ferðinni þegar við fjöllum um rammaáætlun og jafnvægið á milli verndar og nýtingar, þessa fínu línu milli verndar og nýtingar orkuauðlinda okkar. Í raun og veru má segja að miðað við fjöldamargar aðrar þjóðir sé vandamál okkar lúxusvandamál. Miðað við höfðatölu eigum við tækifæri sem finnast ekki víða meðal þeirra landa sem við berum okkur helst saman við. Þess vegna er sorglegt, eins og ég kom inn á í ræðu áðan, að við skulum vera í þeirri stöðu að vera að rífast um svona hluti. Ég held að ef sest væri niður, eins og gert var í faghópunum og í verkefnisstjórninni, með tiltölulega opnum huga þá gætum við náð sátt á milli þessara sjónarmiða.

Ég hef trú á því að ef við frestuðum aðeins þessari umræðu og afgreiðslu þessa máls og settumst yfir þetta, einhver hópur þingmanna, þá væri hægt að vinna að slíkri sátt. Sáttin getur ekki orðið sú að við höfum ekki tækifæri til þess að virkja, halda áfram á þeim vettvangi á næstu árum. Við höfum einfaldlega ekki efni á því. Þetta er það stórt atriði gagnvart endurreisn efnahagslífs okkar að það verður aldrei sátt um það í samfélaginu að við búum til rammaáætlun sem stöðvar framkvæmdir á því sviði til lengri tíma enda er engin ástæða til þess. Það er hægt að diskútera hér eða skiptast á skoðunum um jarðvarmavirkjanir og hversu langt við eigum að ganga með þær og vatnsaflsvirkjanir og slíkt og muninn á þessum virkjunarkostum öllum og það má vel vera að við næðum sátt um að setja eitthvað af Reykjanesi í biðflokk á meðan væri verið að rannsaka þá kosti nánar en það eru engin rök fyrir því af hverju við tökum ekki að minnsta kosti tvo af þremur virkjunarkostum í neðri hluta Þjórsár og förum af stað þar.

Holtavirkjun og Hvammsvirkjun eru rennslisvirkjanir, litlar virkjanir til þess að gera og mjög hæfileg næstu skref. Þær hafa mjög lítil áhrif á umhverfi sitt, lónin eru lítil og fjárfesting í hönnun og undirbúningi öllum hefur átt sér stað. Það er búið að eyða milljörðum í þessi verkefni. Þetta væru mjög hæfileg skref til þess að halda áfram. Þær athugasemdir sem komu fram þegar ráðherrarnir settu þessa rammaáætlun í umsagnarferli samkvæmt lögum voru í sjálfu sér ekkert nýjar. Það er búið að bregðast við athugasemdunum um möguleg áhrif á laxastofninn í Þjórsá, það er búið að rannsaka það í þaula. Okkar helstu sérfræðingar, sem standast samanburð við helstu sérfræðinga í heimi á þessum vettvangi, sögðu við okkur í atvinnuveganefnd að lengra yrði ekki gengið í þeim efnum og að þessi seiðaskilja og laxastigar sem hafa verið gerðir til að bregðast við því að greiða leið gönguseiða og göngulax verða ekkert prófaðir frekar nema með byggingu þeirra. Þessar tvær virkjanir eru mjög heppilegar til að láta reyna á þessar lausnir.

Virðulegi forseti. Þetta mál stenst enga skoðun. Um það (Forseti hringir.) getur aldrei orðið sátt. Það er ömurlegt að við skulum vera í þeirri stöðu að þetta skuli vera orðið að eins miklu átakamáli (Forseti hringir.) í samfélaginu og raun ber vitni.