141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það væri umhugsunarvert fyrir hæstv. umhverfisráðherra að velta fyrir sér stórum orðum formanns Vinstri grænna, hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, þegar þáverandi hæstv. ráðherra gat ekki komið í andsvar, sem er auðvitað ekki hægt að hafa eftir í þessum ræðustól núna þegar hæstv. umhverfisráðherra hunsar það alfarið að koma hingað og svara þeim spurningum sem lagðar eru fram. Eins mætti hv. þm. Oddný G. Harðardóttir taka það líka til sín, sem vann að þessu máli og þingsályktunartillögunni með því að leggja hana fram, og svara þeim spurningum sem blasa við.

Hér er ég að tala um það ósamræmi sem virðist vera á milli þess að færa annars vegar vatnsaflsvirkjanirnar úr nýtingarflokki í biðflokk og hins vegar að skilja eftir eða hafa áfram þær virkjanir sem eru á háhitasvæðunum í nýtingarflokki. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður veltir þessu fyrir sér er hvort gengið hafi verið þannig frá málum á milli stjórnarflokkanna eða forustumanna þeirra að við þeirri þingsályktunartillögu sem mælt væri fyrir yrði ekki hróflað í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Það er auðvitað mjög sérkennilegt ef svo er og ég á mjög erfitt með að trúa því. Það er samt eina svarið sem maður fær sem snýr að því sem margoft er búið að fara hér yfir, að þær vatnsaflsvirkjanir skyldu vera teknar úr nýtingarflokki, sérstaklega þessar tvær efri í neðri hluta Þjórsár, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, að þær skyldu vera settar í biðflokk miðað við þau gögn sem liggja fyrir, mest rannsökuðu svæðin og það sem mest er vitað um sett í bið vegna varúðarsjónarmiða sem snúa að laxastofninum. Ekki skal ég gera lítið úr laxastofninum, þ.e. þeim sem veiddur er í net, en það koma fram mótvægisaðgerðir í umsögn Orkustofnunar þar sem á að bregðast við þeim ábendingum sem snúa að þessum áhættuþætti. Það eru verulegar mótvægisaðgerðir í öllum þeim skýrslum sem byggðar eru á rannsóknum sem hafa farið þarna fram í 40 ár og Veiðimálastofnun hefur komið að. Svo sést að virkjanir á háhitasvæðunum eru áfram í nýtingarflokki og þegar ég les álit meiri hlutans í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þá finnst mér mun fleiri athugasemdir og ábendingar, væntanlega réttilega, ég efast ekki um það, um það hvað þurfi að varast gagnvart virkjunum á háhitasvæðum. Þetta er mjög furðulegt þegar horft er yfir landakortið með öllum þessum borholum á Reykjanesskaganum. Maður verður auðvitað hugsi.

Þessu til viðbótar er mjög sérstakt, svo að ég nefni eina virkjun, að Hverahlíðarvirkjun skuli vera áfram í nýtingarflokki miðað við það sem upp hefur komið og snýr að Hellisheiðarvirkjun. Í áliti meiri hlutans stendur að bæði sé hætta á mengun grunnvatns og brennisteinsmengun út í loftið og síðan sé jarðskjálftaáhætta af því sem snýr að niðurdælingu vatns og svo mætti lengi telja.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að eftir að hafa farið yfir þetta er það mér algjörlega óskiljanlegt og ég hef ekki fengið nein svör frá hæstv. umhverfisráðherra enn af hverju þetta er gert. Ég get ekki betur séð en hv. umhverfis- og samgöngunefnd eða meiri hluti hennar hafi mun meiri athugasemdir og varnaðarorð gagnvart því sem snýr að virkjunum á háhitasvæðum en vatnsaflsvirkjunum vegna óvissunnar sem fylgir þeim. Það er miklu meira vitað um áhrifin af vatnsaflsvirkjunum en virkjunum á háhitasvæðum. Þetta er mér alveg óskiljanlegt og því mjög sérkennilegt að hæstv. umhverfisráðherra sjái sér ekki fært að koma og svara þessum spurningum, hvað þá heldur hv. þm. Oddný G. Harðardóttir. Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að þetta er lagt svona fram?