141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og nálgun hans á þessu máli. Hv. þingmaður spyr hvenær pólitíkin kom í raun að þessu, hvenær skilin urðu á milli faglegrar nálgunar í þessu áralanga ferli, sem miðaði að því að sætta ólík sjónarmið, taka mið af báðum áttum og reyna að ná um það breiðri niðurstöðu, og aðkomu pólitíkurinnar.

Þeim sem hafa haldið fram þeirri skoðun að pólitíkin hafi komið að þessu með óeðlilegum hætti hefur bæst liðsauki. Forseti Alþýðusambands Íslands, með stuðningi formannafundar Alþýðusambandsins og þar af leiðandi má áætla að það sé með stuðningi mikils og breiðs hóps félagsmanna innan Alþýðusambands Íslands, sagði einmitt að þetta mál hefði tekið pólitískum breytingum. Margir leiða líkur að því að þarna hafi verið einhvers konar pólitísk hrossakaup í gangi milli stjórnarflokkanna þar sem VG hafi fengið þetta fram gegn einhverjum öðrum þáttum.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann meti það hvenær pólitíkin kom nákvæmlega inn í þetta mál og þá stöðu sem það er komið í, hvort við lendum ekki í því strax að afloknum alþingiskosningum að málið verði skoðað á nýjan leik og þetta sé þar af leiðandi rammaáætlun til sex mánaða. Í ljósi þess að málið er komið í ógöngur, við erum komin frá því þverfaglega ferli sem við ætluðum í, hvenær telur hv. þingmaður að pólitíkin hafi komið að þessu? Hvernig eigum við að snúa okkur út úr þeim vanda sem við erum komin í með þetta gríðarlega mikilvæga mál og ná sáttum milli verndar- og nýtingarsjónarmiða?