141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að vera einhvers konar pólitískur fingrafarasérfræðingur en ég skal reyna samt að leggja eitthvað í púkkið. Ég tók eftir því að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan að hún teldi að upphafið að þessu hefði verið eftir að verkefnisstjórnin skilaði af sér sínu verkefni og síðan var farið að flokka þetta og þá ekki endilega eftir þeim ströngu viðmiðum sem menn höfðu lagt upp með.

Við sjáum hins vegar klárlega hvar vandræðagangurinn byrjar. Hann byrjar eftir að drögin að þingsályktunartillögunni voru lögð fram þar sem þó voru inni allir þeir sex helstu virkjunarkostir sem deilan hefur í raun og veru snúist um að svo miklu leyti. Við hv. þingmaður sátum fund á laugardaginn var með forseta Alþýðusambands Íslands, hagfræðingi Alþýðusambands Íslands og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Hvað sögðu þeir? Í hvað ráku þeir hornin? Hvað var það sem þeir höfðu áhyggjur af? Hverju vildu þeir breyta? Jú, þeir töldu að það væri svo mikilvægt að færa umrædda sex virkjunarkosti, Skrokköldu, Hágöngumiðlun 1 og 2 og virkjanirnar í neðri hluta Þjórsá, upp í nýtingarflokk vegna þess að til þess höfðu öll efni staðið.

Við getum farið aðeins aftar í ferlinu og velt fyrir okkur hvað gerðist áður en drögin að þingsályktunartillögunni voru lögð fram. Ég held hins vegar að það þjóni ekki miklum tilgangi vegna þess að í umræðunni hefur komið mjög skýrt fram að það mundi verða mjög mikilvægur þáttur í að sætta sjónarmiðin ef þessir sex virkjunarkostir væru settir í nýtingarflokk þar sem þeir eiga heima. Það er ljóst samkvæmt öllu mati sem hefur farið fram, samkvæmt flokkuninni sem hefur farið fram á grundvelli þess að þeir eru mest rannsakaðir og eru líka hagkvæmastir, eins og til að mynda virkjunarkostirnir í neðri hluta Þjórsár. Þeir hafa ekki þau umhverfislegu áhrif sem ýmsir aðrir virkjunarkostir sannarlega hafa. Þarna erum við að ræða um virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár (Forseti hringir.) eins og Holta- og Hvammsvirkjun sem hafa fyrst og fremst þau áhrif að fara yfir manngert land.