144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þá möguleika stofnunarinnar að beita ívilnandi aðgerðum eða reglum gagnvart skólastærðinni, þ.e. þegar um litla skóla er að ræða, þá getur það meðal annars snúið að því að stofnunin geti þegar kemur til dæmis að magninnkaupum, þar sem litlir skólar standa augljóslega frammi fyrir því að gera minni pantanir, létt undir þar. Og það getur snúið að ýmsum öðrum verklagsreglum sem þarf þá að taka tillit til ef um er að ræða fámenna skóla. Þetta segi ég nú svona án þess að hafa kannað það nákvæmlega hvað í þessu felst, en það er mikilvægt að hafa, virðulegi forseti, í reglum og lögunum skýr ákvæði um að slíkri stofnun sé heimilt að gera það. Hvernig það síðan birtist kemur síðar fram. En heimildarákvæði þarf að vera þannig að ekki leiki vafi á því að stofnunin hafi heimild til að gera það.

Hvað varðar, virðulegi forseti, sölu eða sértekjur er rétt að hafa í huga að það ákvæði eða þeir möguleikar eru ekkert ólíkir þeim sem til dæmis Hagstofan hefur. Ég vil vísa til laga nr. 163/2007, um Hagstofuna, þar sem segir í kaflanum Ýmis ákvæði, með leyfi forseta:

„Hagstofunni er heimilt að afla sértekna og taka gjald fyrir sérþjónustu í hagskýrslugerð og þjónustu við rannsóknaraðila og aðra gagnabeiðendur svo og vegna hagnýtingar á upplýsingakerfum hennar og þjónustu í því sambandi.“

Þetta er sambærilegt ákvæði. Í því eru auðvitað ekki fólgin nein stórtíðindi hvað það varðar, en það getur verið eðlilegt að ef einstakar stofnanir vilja kalla eftir einhverri aukinni greiningu á gögnum eða vinnslu á gögnum eða einhverjir aðrir aðilar vegna rannsókna eða annars slíkt, þá séu slíkir möguleikar opnir.