144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar kæruheimildir og annað tel ég að slíkt muni ekki flækja málin. Þvert á móti tel ég að þetta fyrirkomulag muni skýra og verða jafnvel til hægðarauka og auka réttaröryggi borgaranna.

Hvað varðar útgáfu námsgagna og aðkomu ríkisvaldsins annars vegar og hins vegar annarra aðila eftir atvikum er ég þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt mál að skoða það eins og annað. Ég stend nú þar í pólitík að ég er ekki þeirrar skoðunar að ríkið sé ætíð og ávallt besti aðilinn til þess að veita þjónustu. Það skiptir samt sem áður máli hér að það hlýtur að vera svo, eins og kveðið er á um í 4. gr., að sú stofnun sem hefur yfir þessu alla umsjá á að sjá fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum. Og með því að það er orðað svo í 4. gr. er auðvitað lagt upp með að gæði þess námsefnis sem notað er í grunnskólunum séu tryggð. Ég hef margoft lýst því yfir og er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt mál að skoða það eins og annað í þessari starfsemi hvernig við getum best tryggt að börnin okkar fái sem best námsefni og besta þjónustu.

Hvað varðar ákvæði til bráðabirgða, sem ég greindi frá að væri meðal þeirra ákvæða sem ágreiningur væri um, vil ég taka það fram að þarna hafa verið nokkrar deilur eða nokkur umræða um þá aðferð sem lögð er til grundvallar. En hún á sér stoð sem hvílir í því að lög um réttarstöðu starfsmanna við aðildarskipti að fyrirtækjum ná ekki yfir breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalda eða tilfærslu á verkefnum milli stjórnvalda. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga.

Aðalatriðið er, og það skiptir mestu fyrir starfsmennina, að tryggt er með þessu ákvæði að allir þeir starfsmenn sem nú hafa starf í þeim stofnunum sem verið er að sameina, fái störf. Ekki er lagt upp með að þessi störf séu auglýst en sagt að starfsmenn kunni þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipulag og starfslýsingu. Ég tel því að komið sé mjög til móts við starfsmennina hvað varðar starfsöryggi þeirra.