145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:38]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála, þetta er mjög víðtækur, flókinn og erfiður málaflokkur. Það virðist allt vera í einum hrærigraut. Eins og ég kom inn á áðan er engin tölfræði til um eitt eða neitt í þessum málum. Það hefur til dæmis ekkert verið kannað hvernig þeim sem notið hafa þjónustu NPA finnst hún virka fyrir þá og hvort menn eru óánægðir eða ánægðir með þetta. Auðvitað skarast það.

Það er alltaf þessi ótrúlega mýta hjá mörgum að ef bætur verða svo og svo háar þá hópist fólk þar inn. Hver vill það? Það er auðvitað til einn og einn sem vill komast á bætur og það virðist henta einhverjum sem eru þannig en ég held að þeir séu ekki margir. Ég held að það séu ekki margir sem sækjast eftir því að hanga heima hjá sér á bótum alla daga. Fólk vill miklu frekar komast út á vinnumarkaðinn. Við höfum séð fréttir af því á þessu ári þar sem var verið að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Það er náttúrlega lykilatriði. Fatlað fólk og öryrkjar eiga að vera þar undir líka. Margt af þessu fólki getur unnið fullan vinnudag og lagt sinn skerf til samfélagsins og það vill gera það. Við eigum ekki að standa í vegi fyrir því.

Auðvitað er alltaf spurning hvort bætur eigi að vera svona háar eða á hinn veginn. Mér finnst bara lægstu laun í landinu allt of lág og hafa alltaf verið. Við þurfum líka að horfa til viðmiða sem velferðarráðuneytið hefur lagt fram. Hvað þarf til að geta lifað mannsæmandi lífi? Lægstu laun ná því ekki, það er langt í frá, allra síst örorkubætur og ellilífeyrir sem er náttúrlega til háborinnar skammar eins og staðan er í dag.

Ég vona að stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin sjái að sér og ákvarði þessu fólki afturvirka hækkun á bótum og launum, fyrst við erum að tala um það, svo að hér geti allir hugsað glaðir til jólanna og vitað (Forseti hringir.) að það er ekki öllum sama um þá.