146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða aðeins um virðingu þingsins undir þessum lið. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa yfir furðu minni yfir þeirri vanvirðingu sem hér var sýnd af hálfu ráðherra dómsmála gagnvart þinginu og þingmönnum í gær. Tveir þingmenn tóku til máls á þingfundi í gær og minntu á fyrirspurnir sínar til ráðherrans sem eru báðar næstum tveggja mánaða gamlar, en til upprifjunar þá ber ráðherrum að svara fyrirspurnum þingmanna innan 15 daga. Ráðherrann kom upp í pontu og gerði svo lítið úr fundarliðnum hér sem heitir fundarstjórn forseta að hún talaði um uppistand. Uppistand, frú forseti, og að þingmenn þyrftu nú að gjöra svo vel að virða dagskrána.

Frú forseti. Þetta viðhorf gagnvart þinginu hafði dómsmálaráðherra uppi í ræðustól Alþingis sama dag og á forsíðu Fréttablaðsins kemur fram að ráðherra dómsmála hefur ekki í hyggju að virða þingsályktun frá árinu 2012 sem hér var samþykkt samhljóða af öllu þinginu um að fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna, nema eitthvað nýtt konkret komi fram.

Frú forseti. Það þarf með einhverjum hætti að koma fulltrúum framkvæmdarvaldsins í skilning um að þeim beri að virða löggjafarvaldið, virða þjóðþingið. Til upprifjunar fyrir dómsmálaráðherra sem ekki er hér í þingsal en ég treysti að sé að hlusta á og horfa á mig, sýnist hún vera að gera það hér í hliðarsal, þá situr hún í sínu embætti fyrir tilstuðlan þingræðisins. Ég vona að hæstv. ráðherra dómsmála sýni þinginu meiri virðingu en hún gerði í gær, en það er kannski óskhyggja að vonast eftir meiri virðingu frá hæstv. ráðherra dómsmála því hún virðir ekki einu sinni stjórnarsáttmála sinnar eigin ríkisstjórnar.

Það kom fram í dag í fjölmiðlum að hún ætlar ekki að bera virðingu fyrir þeirri klausu sem segir, með leyfi forseta:

„Lögð verður áhersla á framkvæmd aðgerðaáætlunar um bætta verkferla vegna kynferðisbrota (Forseti hringir.) og lagt til við Alþingi að stafrænt kynferðisofbeldi verði skilgreint í hegningarlögum.“

Hæstv. dómsmálaráðherra tjáði sig um þetta (Forseti hringir.) í dag og sagði að engin vinna stæði yfir innan hennar ráðuneytis (Forseti hringir.) til þess að virða þennan hluta stjórnarsáttmálans.