146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[15:07]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vissi satt að segja ekki af því að þessi heimild væri til staðar í núgildandi lögum og finnst það dálítið áhugavert. Þó svo að sú leið hafi ekki verið farin að úthýsa verkefninu til annarra landa vakna alltaf spurningar um öryggismál við útgáfu skjala af þessari tegund. Eins og ég rakti áðan eru efnahagslegir hvatar til þess að standa í svartamarkaðsútgáfu á vegabréfum með einum eða öðrum hætti töluvert miklir. Ég er algjörlega sammála að öðru leyti, þetta frumvarp er þá hið besta mál. En við ættum kannski að nýta tækifærið, fyrst þessi umræða er komin upp núna, til að reyna að skerpa á reglum um útgáfu vegabréfa til framtíðar. Það er lítil eftirspurn eftir notuðum vegabréfaútgáfuvélum sem eru orðnar úreltar, þannig að ég skil vel af hverju leigunálgunin er sennilega skynsamlegri fyrir ríkissjóð.