148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil að ítreka það sem ég sagði áðan, það er gott að þetta hefur verið rætt í nefndinni og öllum steinum velt við varðandi hvað gæti komið upp á o.s.frv. Það skiptir verulegu máli í þessu efni.

Mig langar að koma aðeins inn á fjárhagslega þáttinn, að við tryggjum fjármagn til þess að þetta geti orðið að veruleika. Ég er alveg sannfærður um að við spörum á öðrum stöðum í leiðinni. Út á það gengur þetta líka, að notandi þjónustunnar sé ánægður og fái sitt út úr henni. Við þekkjum öll að það er lýðheilsumál, og andlega séð er mjög mikilvægt að geta verið í heimahúsi og fengið aðstoðina þangað frekar en að þurfa að vera á stofnun. Það er margt mjög jákvætt í þessu. Ég vona svo sannarlega að við tryggjum fjármagn svo þetta geti orðið að veruleika og að þau göfugu markmið sem ég nefndi áðan verði uppfyllt. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ágæta yfirferð.