148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

húsnæðissamvinnufélög.

346. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, sem er mál nr. 346. Það mál snertir fyrst og fremst húsnæðissamvinnufélög, félagsmenn þeirra og búseturéttarhafa.

Eins og áður hefur komið fram var málið lagt fram á 146. löggjafarþingi 2016–2017. Það hlaut afgreiðslu úr velferðarnefnd en var ekki samþykkt. Síðan þá hafa verið gerðar örlitlar orðalagsbreytingar með það fyrir augum að auka skýrleika. Frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu og var þar haft samráð við fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið, auk fulltrúa húsnæðissamvinnufélaganna Búseta, Búfesta og Búmanna.

Eins og fram kemur í inngangnum er markmið frumvarpsins að stuðla enn frekar að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga með því að tryggja að félögin geti valið þá fjármögnun sem þau álíta hagstæðasta og henta best á hverjum tíma með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi og að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni.

Í greinargerð frumvarpsins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Lagt er til að orðalagi d-liðar 1. mgr. 5. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög verði breytt þannig að húsnæðissamvinnufélögum verði heimilt að taka lán á almennum markaði, m.a. hjá fjármálafyrirtækjum sem og Íbúðalánasjóði, ásamt því að taka við styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum, auk þess að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa. Þannig geta húsnæðissamvinnufélög kosið þá fjármögnun sem er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi og að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni og með því móti er stuðlað enn frekar að sjálfbærum rekstri slíkra félaga.“

Mál þetta var sent til velferðarnefndar 8. mars síðastliðinn. Við afgreiðslu þess fékk nefndin á sinn fund Jón Þór Þorvaldsson og Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur frá velferðarráðuneytinu og bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Búseta, Íbúðalánasjóði og Landssambandi eldri borgara.

Þær breytingar sem lagðar eru til í d-lið 1. mgr. 5. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2023, með síðari breytingum, gera húsnæðissamvinnufélögum áfram kleift að taka lán hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum og að taka við styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum. Jafnframt er þeim heimilt að taka lán á almennum markaði og fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa.

Með samþykkt frumvarpsins munu húsnæðissamvinnufélög fá aukið svigrúm til að velja hagstæðustu fjármögnun þannig að auknar líkur eru á því að rekstur húsnæðissamvinnufélaga verði sjálfbær. Eykur það húsnæðisöryggi búseturéttarhafa.

Í nefndaráliti er öll nefndin á málinu. Hún leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, Halldóra Mogensen, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason.