149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið í umræðum um þennan mikilvæga málaflokk. Fyrst vil ég segja að ég lít ekki svo á að vinnan hafi dregist þar sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur haft húsnæðismálin á sínu borði og sett í gang mikla vinnu. Ég vil nefna þrennt: Húsnæðisstefnu til framtíðar, fyrstu kaup, en þar er starfandi hópur sem ætlað er að koma með tillögur sem lúta að því hvernig þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign verði gert betur kleift að komast inn á þann markað, og síðan hóp um málefni Íbúðalánasjóðs.

Ég vísaði áðan í tillögur átakshóps um húsnæðismál. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, þó að hv. þingmaður telji ákveðna hunsun hafa átt sér stað þekki ég til inntaks tillagna Samfylkingarinnar, að þar verður ákveðinn samhljómur með því sem átakshópur um húsnæðismál mun leggja til.

Stóra málið er auðvitað að við náum árangri. Og það skiptir verulegu máli í því, bara svo að ég segi það hér (Forseti hringir.) þó að tíminn sé útrunninn, að eitt af því sem þessi vinna hefur sýnt okkur er að við þurfum líka auknar upplýsingar um húsnæðismál til að geta mótað stefnuna til framtíðar.