149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Jafnt og þétt kemur betur og betur í ljós að þetta er í rauninni tilgangslaus ríkisstjórn, ríkisstjórn sem snýst ekki um annað en að halda sjó og halda stólum. Menn gátu raunar gefið sér það þegar ríkisstjórnin var mynduð og kynnt til sögunnar að þessir ólíku flokkar myndu líklega, fremur en að kynna einhverja framtíðarsýn, einbeita sér fyrst og fremst að því að samstarfsflokkarnir í stjórninni næðu sem minnstu fram. Það er þá stöðugleikinn sem ríkisstjórnin boðaði.

Afleiðing af þessari tegund stöðugleika er að tækifærin eru ekki nýtt og ekki er brugðist við hættum sem steðja að. Ríkisstjórnin hefur gert afskaplega lítið, að því er virðist, til að bregðast við stöðunni á vinnumarkaði eða búa sig undir það að leysa þar úr málum. Hæstv. forsætisráðherra nefndi reyndar að ríkisstjórnin væri búin að setja upp vefsíðu þar sem hægt væri að skoða kjaraþróun. Rétt er að geta þess, forseti, að sú síða er mjög áhugaverð og vel til fundin, ágætisinnlegg hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, en það fylgdi reyndar sögunni þegar síðan var opnuð að hún hefði ekkert með kjaraviðræður að gera. Annað mátti að vísu skilja á hæstv. forsætisráðherra áðan.

Á meðan ríkisstjórnin setur upp vefsíðu sem ýmist er innlegg í þær viðræður eða ekki sýnir hún ekki á nokkurn hátt vilja til að leysa þau stóru mál sem stórir hlutar verkalýðshreyfingarinnar leggja áherslu á og hafa beðið úrlausnar lengi og eru brýn og stór hagsmunamál alls almennings, hluti eins og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Þar birtist heil bók, svokölluð hvítbók, um vangaveltur sérfræðinga úti í bæ um fjármálakerfið — en engin sýn ríkisstjórnarinnar, engin stefna, ekkert innlegg í kjaraviðræður í þessu stærsta hagsmunamáli jafnvel, sem vextir, verðtrygging og það hvernig fjármálakerfið á Íslandi starfar er. Heilu atvinnugreinarnar eru svo að segja í lausu lofti, þar með talin undirstöðuatvinnugrein byggðar í landinu frá upphafi, landbúnaður og matvælaframleiðsla yfir höfuð á Íslandi.

Bændur eru eina stéttin þar sem er yfirlýst stefna stjórnvalda að kjör þeirra muni skerðast ár frá ári. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem framlög til þeirrar greinar, þeirrar stéttar, munu lækka jafnt og þétt á meðan gert er ráð fyrir stighækkandi framlögum til allra annarra stétta og starfsgreina. Engin úrræði birtust við lok fjárlagaumræðunnar um hvernig menn ætluðu að bregðast við neyðarástandi í greininni, ekki einu sinni bráðabirgðaframlag eins og þó tókst að knýja á um síðast. Á sama tíma eru starfsaðstæður greinarinnar stöðugt að verða erfiðari með stórauknum innflutningi á ófrosnu kjöti þar á meðal.

Byggðamál almennt eru reyndar í lausu lofti. Í stað þess að ráðast í þær úrbætur sem þörf er á þar og nýta þau gríðarlegu sóknarfæri sem væru til staðar ef menn hefðu framtíðarsýn í þeim málaflokki er ekkert að frétta af byggðamálum.

Stærsta útflutningsatvinnugrein landsins, ferðaþjónustan, er líka í óvissu, viðvarandi óvissu, svoleiðis að menn leggja ekki í framkvæmdir vegna þess að stjórnvöld veita enga sýn um hvers sé að vænta og fyrir vikið hefur samfélagið og greinin sjálf ekki þær tekjur af greininni sem hægt væri að skapa.

Lífeyrisþegar bíða enn eftir réttlæti á meðan ríkisstjórnin viðheldur stórskaðlegum skerðingum í stað þess að innleiða jákvæða hvata, hvata til að framleiða meiri verðmæti — það er þá til að auka um leið skatta í ríkissjóð — og hvata til að leyfa fólki að starfa lengur án þess að refsa því fyrir að nýta reynslu sína og þekkingu.

Talandi um lífeyrisþega, hlutverk, stöðu og framtíð lífeyrissjóðanna — veit einhver eitthvað um stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum? Hún hefur a.m.k. ekki komið henni á framfæri með hætti sem talist gæti eftirtektarverður.

Heilbrigðismálin, stærsti útgjaldaliðurinn og margir myndu segja að mikilvægasta hlutverk stjórnvalda væri að tryggja velferð og heilbrigði eins og kostur er. Þar ríkir ekki bara óvissa, heldur einbeittur vilji ráðherrans til að innleiða marxískt heilbrigðiskerfi á Íslandi með þeim afleiðingum að nú er að verða til tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Á sama tíma er haldið áfram með fráleita framkvæmd við nýbyggingu Landspítala við Hringbraut, þó að jafnt og þétt viku frá viku og nánast dag frá degi komi betur og betur í ljós að allar þær viðvaranir sem við höfum viðhaft um þá framkvæmd hafa reynst réttmætar. Síðast í dag sáum við að mikill meiri hluti lækna er þeirrar skoðunar að byggja ætti nýjan spítala á nýjum stað. Eðlilega, allt skynsamt fólk gerir sér grein fyrir því. En áfram heldur verkefnið með þeim hávaða, jarðskjálftum og þungavinnuvélum og miklu flutningum sem því fylgja og óþægindum fyrir starfsmenn og sjúklinga. Menn eru einfaldlega ekki reiðubúnir að skoða nokkurn skapaðan hlut upp á nýtt og hafa ekki kjark til þess að skipta um skoðun og gera það sem er skynsamlegt.

Samgönguáætlun var hafnað, virðulegur forseti, og þótti miklum tíðindum sæta. Ég hygg að það hafi aldrei gerst áður að samgönguáætlun ráðherrans og þar með ríkisstjórnarinnar sé hent. Það gerði samgöngunefnd. Meðal annars og ekki hvað síst lögðu stjórnarliðar — það verður að viðurkenna það sem vel er gert — sitt af mörkum við að ráðast í endurskoðun eða réttara sagt skrif nýrrar samgönguáætlunar. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvað kemur út úr því. Þar hljótum við að ætla að leggja áherslu á að fækka slysum, auka framkvæmdir og nýta meira fjármagn í samgöngubætur en þó án þess að auka heildarálögur á almenning. Nóg er nú samt og skilaði sér ekki nema að litlu eða takmörkuðu leyti í samgöngumálin.

Svo eru enn ókláruð stór mál sem þó höfðu gengið vel framan af, á meðan til staðar var einhver framtíðarsýn og einhver festa í stjórnmálum, mál eins og losun hafta. Sem betur fer eru þau langt komin en það á eftir að klára þau og þar hefur ósköp lítið gerst mánuð eftir mánuð og reyndar núna orðið ár eftir ár nema eftirgjöf, menn bakka sífellt meira og meira frá því plani sem þó hafði reynst svo vel. Nýjasta kaflann sjáum við birtast núna og koma væntanlega inn í þingið fljótlega, þ.e. áform um að aflétta höftum af vogunarsjóðunum sem sitja hér uppi með aflandskrónur og höfðu neitað að taka þátt í heildaraðgerðum stjórnvalda í trausti þess að þeir gætu beygt stjórnvöld. Nú bendir allt til þess að það mat þeirra muni reynast rétt.

Fjölmargt annað mætti rekja hér sem gefst ekki tími fyrir í tíu mínútna ræðu. Þó vil ég geta þess sérstaklega að ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin í tilraunum sínum til að halda sér á floti og gera ekkert sem gæti styggt hina stjórnarflokkanna sé um leið að vanrækja það sem gat þó talist til helstu kostanna í stefnu þessara flokka. Sjálfstæðisflokkurinn var eitt sinn undir forystu formanns sem studdist við kjörorðið: Gjör rétt, þol ei órétt. Hvernig standa mál sem varða rétt og frelsi einstaklingsins? Hver talar máli slíkra grundvallaratriða í núverandi ríkisstjórn? Ég hef a.m.k. ekki orðið mikið var við það en á sama tíma orðið var við tilburði sumra í stjórnarliðinu til að endurskoða, jafnvel endurrita eða a.m.k. líta fram hjá, grundvallarreglum réttarríkisins.

Virðulegur forseti. Eins og sjá má á þessari stuttu upptalningu, sem gæti verið miklu lengri, bíða mörg stór verkefni úrlausnar. Tækifærin eru auk þess mörg en ef okkur á að auðnast að nýta þau á Alþingi þurfum við að fara að ræða stjórnmál á Alþingi í stað þess að láta vinnuna snúast um eitthvað allt annað.