149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:27]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi veggjöldin skiptir örugglega máli hvaða fyrirtæki maður spyr. Auðvitað skiptir samkeppnishæfni máli heilt yfir. Veggjöld geta haft áhrif á hana og það þarf að taka tillit til þess. Ef maður spyr fyrirtæki sem starfa t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum, ekki að það skipti öllu máli heldur kannski frekar það að ekki virðist vera hægt að komast að niðurstöðu um hvaða vegalagning sé hentugust, held ég að þar myndu mörg fyrirtæki mjög gjarnan vilja borga lágt gjald til þess að hafa betra vegakerfi, til þess að geta flutt þau verðmæti úr landi sem þar eru búin til, að koma þeim á flugvöllinn og senda þau úr landi. Svo eru örugglega önnur fyrirtæki sem myndu segja að veggjöld myndu ekki hjálpa þeim.

Nú erum við að vinna nýsköpunarstefnu sem mun fara inn á svið iðnaðar að einhverju leyti. Við erum með orkustefnu sem hangir algjörlega saman við ýmsar tegundir iðnaðar. Svo þurfum við að endurskoða ívilnanalöggjöfina sem hingað til hefur hangið dálítið saman við orkufrekan iðnað. Þar skiptir líka máli að líta í ríkara mæli til umhverfisþátta, að gerðar séu (Forseti hringir.) ríkari kröfur í þeim efnum þegar um er að ræða viðkvæma starfsemi. Ívilnanalöggjöfin getur þess vegna tekið mið af því. Við erum með þingsályktun um fjárfestingar í nýsköpun eða öðru. Allt hangir það saman. Ég ætla ekki að lofa því að ég muni leggja áherslu á iðnaðarstefnu en hugmyndin er góð.