149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er spurning um öryggi að þið borgið veggjöld. Ég les úr stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, með leyfi forseta:

„Brýn verkefni blasa við í innviðauppbyggingu um land allt. Þar má nefna verkefni í samgöngum, fjarskiptum, veitukerfum og annarri mannvirkjagerð. Svigrúm er á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni og tryggja þannig þá traustu innviði sem eru forsendan fyrir fjölbreyttu og kröftugu atvinnulífi um land allt.“

Ég hef ekki heyrt marga andmæla þessari stefnu. Allir eru sammála um að verkefnin séu mikilvæg og ef síðustu kosningar snerust um eitt mál umfram önnur var það innviðauppbygging. Í stjórnarsáttmálanum er hins vegar boðuð allt önnur stefna en í drögum að nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Að skipta svona um gír, að leggja fram áætlun um veggjöld, aukinn skatt á íbúa stórhöfuðborgarsvæðisins, án þess að bjóða upp á neina valkosti og án þess að gera það með umboði í kosningum, er ekkert annað en kúgun. Okkur er boðið upp á veggjöld eða ekki, samgöngubætur eða ekki. Ef við viljum ekki veggjöld fáum við ekki neitt. Þegar sagt er að þessar samgöngubætur séu lífsnauðsynlegar er það ekkert val lengur, þá er það tilfinningaleg kúgun. Spurningin á ekki að vera um (Forseti hringir.) hvort fara eigi í þessa uppbyggingu heldur hvernig.

Því vil ég spyrja ráðherra: Af hverju fáum við ekki fleiri valkosti? Eða að öðrum kosti: Af hverju fer ríkisstjórnin ekki eftir eigin stjórnarsáttmála?