149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[19:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að við deilum að mörgu leyti þeirri grunnhugsun að ná fátækasta fólkinu upp úr fátæktinni svo að það geti búið við sómasamlegar aðstæður og notið lífsins eins og við hin. Ég vil meina að þetta sé tæki sem hjálpi til, það sem ég nefndi hér áðan með þennan gagnagrunn. Ég tek líka undir það með hv. þingmanni að það þarf að ræða miðgildi launa en ekki endilega bara meðaltalslaun, það er skárri nálgun.

Eins og ég sagði áðan tel ég að við séum að styðja við þennan hóp að mörgu leyti, suma en auðvitað ekki alla. Það liggur fyrir að tannlækningar, komugjöld og annað slíkt hjálpar vissulega fátækasta hópnum. Síðan höfum við verið að bæta í barnabætur, vaxtabætur og annað slíkt. Allt telur þetta, allt tikkar.

Ég tek undir með hv. þingmanni að betur má ef duga skal. Ég held að það sé einlægur vilji þessarar ríkisstjórnar að stefna þangað. Um þær breytingar sem verið er að gera og verið er að ná saman um, og lagðar eru til af þeim aðilum sem fengnir hafa verið til verksins, m.a. varðandi tekjuskattsmálin, má segja að á vakt okkar Vinstri grænna verði ekki farið í áttina frá því markmiði að styðja við þá sem verr hafa það frekar en hitt, heldur komum við til með að færast nær því markmiði.