150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Andsvörin dugðu mér ekki þannig að ég neyddist til að skrá mig í ræðu um þetta góða mál og þarfa. Öfugt við hv. þm. Brynjar Níelsson er ég aðdáandi GRECO og tel fulla þörf á því að við fáum utanaðkomandi aðila til að halda okkur eins nálægt beinu brautinni og mögulegt er. Því miður sést það of oft í okkar nútíma að ekki veitir af að við fáum slíka aðstoð. En það er mjög mikilvægt að við höfum varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands og það er mjög mikilvægt að við höfum það ekki bara á blaði heldur líka í verki og það er kannski það sem ég hef smá áhyggjur af varðandi þetta mál. Það er fjölmargt þarna sem er gott. Það er fjölmargt þarna sem mun bæta en mér þykir þó hætta á að við séum að taka með silkihönskum á þeim aðilum sem hvað helst þurfa á aðhaldinu að halda. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af.

Ég ætla aftur í þessari ræðu að koma aðeins inn á það, af því að ég hef meiri tíma hér, og mótmæla því sem hv. þm. Pírata, Björn Leví Gunnarsson, hefur haldið fram, a.m.k. í rituðu máli, að það sé eitthvað óeðlilegt eða ótraustvekjandi við það að þingmenn og handhafar framkvæmdarvaldsins hitti fólk á fundum, eigi við það samskipti. (Gripið fram í.) Ég er algjörlega á því að það sé mjög nauðsynlegt að eiga fundi með þeim sem fást við hin ýmsu verkefni utan þings vegna þess að á nefndarfundum gefst oftar en ekki afskaplega skammur tími til að kafa djúpt ofan í mál. Þá skiptir máli að hafa vettvang utan nefndasviðs til þess að geta fræðst. Það er nú drjúgur hluti af starfi okkar að fræðast um öll þau mál sem við erum að fást við hérna. Ég leyfi mér bara að treysta þingmönnum og treysta dómgreind þeirra þegar hagsmunagæsla er svo grimm að það er verið að fara með tómt fleipur. Maður verður að sýna kjörnum fulltrúum það traust að geta metið það. Hagsmunagæsla af því tagi á sér líka stað í nefndunum. Þá er sú umræða frá en mér fannst mjög mikilvægt að koma því að að kjörnir fulltrúar og handhafar framkvæmdarvalds eiga í samskiptum og verða að eiga í samskiptum við hagsmunaaðila. Það er mjög mikilvægt.

Ég geri athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins þar sem er talað um starfsval að loknum opinberum störfum. Þar er verið að tala um þessa snúningshurð, að þegar æðstu handhafar framkvæmdarvalds og aðstoðarmenn ráðherra láta af störfum fyrir Stjórnarráð sé þeim óheimilt að nota upplýsingar sem þeir höfðu aðgang að í krafti starfs síns fyrir hið opinbera sér eða öðrum til óeðlilegs ávinnings. Svo kemur fram í 2. mgr. sama ákvæðis, með leyfi forseta:

„Æðstu handhöfum framkvæmdarvalds er óheimilt að gerast hagsmunaverðir, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 4. gr., í sex mánuði eftir að störfum þeirra fyrir Stjórnarráð Íslands lýkur.“

Þarna taka höfundar frumvarpsins meðvitaða ákvörðun um að undanskilja aðstoðarmenn ráðherra. Mér þykir þetta mjög óeðlilegt af því að þetta snýst ekki um einkenni starfs þeirra, að þeir séu ekki nógu lengi í störfum sínum, að þeir séu ekki embættismenn eða ekki handhafar framkvæmdarvalds. Þetta snýst um þá vitneskju sem aðstoðarmenn ráðherra hafa. Hvort þeir starfi í viku eða í kjörtímabil eða mörg kjörtímabil breytir engu. Það getur verið um að ræða slíka vitneskju að það sé mjög óeðlilegt — en mjög ákjósanlegt fyrir utanaðkomandi aðila daginn eftir að aðstoðarmaðurinn gengur úr starfi eða jafnvel á meðan hann er enn þá í starfi að reyna að krækja í umræddan aðstoðarmann og fá viðkomandi til starfa hjá öðrum aðilum. Þar verður til freistnivandi, að bjóða hreinlega aðstoðarmanni ráðherra umtalsverða fjármuni til að koma til starfa vegna vitneskju umrædds aðstoðarmanns. Það þarf að vera einhver möguleiki á að girða fyrir þetta. Auðvitað eru þetta bara sex mánuðir. Þess vegna myndi ég halda að það væri ekki slík fórn hjá aðstoðarmanni að hann geti ekki undirgengist þetta. Jú, það verður fjallað um þetta á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og allt það, en ég bara varð að koma hingað upp til að minnast á þetta af því að það eru tilvik þar sem aðstoðarmenn hafa yfir að ráða mjög miklum og safaríkum upplýsingum um ýmsa innviði sem geta gagnast fyrirtækjum eða öðrum þjóðríkjum vel. Það skiptir mjög miklu máli að þetta sé alveg á hreinu og undanskilja ekki þessa aðila. Ég átta mig ekki á tilgangnum. Mér þóttu rök hæstv. forsætisráðherra fyrir því að taka þá ekki með ekki fullnægjandi.

Þá vil ég aðeins að vinda mér í 6. gr. frumvarpsins sem snýr að ráðgjöf og eftirliti. Þar kemur fram að ráðherra sinni almennri ráðgjöf og eftirliti um hagsmunaskráningu og gjafir, hagsmunaverði, aukastörf og starfsval að loknum opinberum störfum. Í 2. mgr. kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur að eigin frumkvæði tekið til skoðunar tilvik þar sem grunur er um brot æðstu handhafa framkvæmdarvalds, annarra en ráðherra, sem og aðstoðarmanna ráðherra …“

Annarra en ráðherra. Þarna er verið að undanskilja ráðherra algerlega frá þessu. Ég átta mig ekki á þessu „sem og“, hvort með setningunni sé átt við æðstu handhafa framkvæmdarvalds sem og aðstoðarmenn eða hvort þetta eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds, aðrir en ráðherrar og aðstoðarmenn. Ég held að það hljóti að vera að það megi kanna aðstoðarmennina varðandi ráðgjöf og eftirlit. En vegna þess að þetta er algerlega út frá stjórnskipun, vegna þess að þetta er ekki fjölskipað stjórnvald og það er enginn ráðherra sem ræður yfir öðrum ráðherra og við erum með lög um ráðherraábyrgð þá er farin sú leið að forsætisráðherra geti ekki haft eftirlit með öðrum ráðherrum. Ég átta mig engan veginn á því hvers vegna við teljum okkur ekki þurfa að hafa sjálfstæða nefnd sem falið er þetta eftirlit líkt og gert er í Noregi. Ég held að við ættum að hafa verulegar áhyggjur af því, ekki síst í ljósi þeirra atvika sem komið hafa upp í stjórnskipan Íslands á undanförnum mánuðum þar sem vafi leikur á hæfi ráðherra. Ríkisstjórn og samráðherrar fylkja að sjálfsögðu liði í kringum umræddan ráðherra, jafnvel einstaklingar sem maður hefði séð bregðast öðruvísi við, væru þeir ekki með viðkomandi ráðherra í ríkisstjórn. Það virðist vera þannig að þegar fólk er komið í þá stöðu að vera saman að reyna að halda saman ríkisstjórn þá blindar það aðrar (Gripið fram í.) skynsamlegar tilfinningar, skynsemi og önnur rök.

Ég held að forsætisráðherra, sem í þessu frumvarpi fer með þetta eftirlit og ráðgjöf, sé mögulega síst til þess bær af ráðherrum í ríkisstjórn til að hafa eftirlit með öðrum ráðherrum vegna þeirrar stöðu að þurfa að halda ríkisstjórninni saman. Þess vegna mun ég leggja það til við þann fulltrúa Samfylkingarinnar sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að vandlega verði farið ofan í það hvort ekki sé rétt að fara þá leið sem Norðmenn hafa valið að fara. Frá árinu 2015 hafa verið í gildi hjá þeim lög og samkvæmt þeim er það sérstök nefnd sem hefur eftirlit með öllu þessu, með skráningu, með nýjum störfum stjórnmálamanna, embættismanna, fulltrúa framkvæmdarvalds o.s.frv. Ég held, ekki síst í fámenninu hér á Íslandi, að í rauninni muni það verkefni sem forsætisráðherra er falið með þessu ekki njóta fullkomins trausts, því miður. Það hefur ekkert með persónu þeirrar manneskju sem situr í stól forsætisráðherra núna að gera, heldur hvernig þetta hefur birst okkur í gegnum tíðina, stjórnmálaflokkarnir og viljinn til að halda ríkisstjórn saman blindi mönnum sýn þegar kemur að þessu.

Svo er það hvað beri að skrá, ekki síst einmitt í ljósi tiltölulega nýrra tíðinda sem hafa borist okkur. Hvenær heldur maður fund og hvenær heldur maður ekki fund? Maður heldur jú ekki fund yfir kjötfarsinu í Melabúðinni. En fari maður og heimsæki kæran vin á skrifstofu viðkomandi á laugardegi til að ræða ýmis mál, er maður þá að halda fund? Þegar maður hringir sem ráðherra í vin sinn til þess að spjalla um vinnu viðkomandi vinar, er maður þá að hringja í embættiserindum eða sem vinur? Getur maður einhvern tímann verið að hringja í annan sem vinur þegar maður er einmitt að fjalla um starf og starfsvettvang vinarins? Er það þá ekki einmitt komið yfir í það að það sé skráningarskylt? Það gegnir kannski öðru máli ef maður er að spyrja út í fjölskylduhagi, hvernig börnum og barnabörnum líður eða hvernig gangi að undirbúa fermingu, svo dæmi sé tekið. Ég held að þegar við erum komin á þann stað að vera handhafi framkvæmdarvalds að spjalla við jafnvel fermingarbróður eða -systur um eitthvað sem lýtur að starfi viðkomandi eða fjárhagslegum skuldbindingum eða ávinningum viðkomandi, sé ávallt um skráningarskylda atburði að ræða. Vegna þess að þetta er á gráu svæði í okkar nútíma þá held ég að það verði hæstv. forsætisráðherra, forsætisráðherra hvaða tíma sem er, harla örðugt að halda skráningu eins og þessa og hafa eftirlit með eins og fjallað er um í umræddu ákvæði.

Ég fagna þessu frumvarpi en tel að það verði að koma til nokkurrar lagfæringar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áður en það verður samþykkt.