152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[16:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og yfirferð á þessu máli. Hann kemur einmitt að ákveðnum atriðum sem ég tók eftir við frumvarpið og það er kannski heildarsýnin sem liggur að baki því að setja þessa stjórn af stað. Ég er að reyna að fá þetta til að koma heim og saman. Það kemur fram í greinargerð frumvarpsins, strax í 1. kafla, að markmið frumvarpsins sé að styrkja stjórn stærstu heilbrigðisstofnunar landsins með því að — ég er að ruglast, ég er sem sagt að vísa í stjórnarsáttmálann, í 2. kafla, að þetta frumvarp sé liður í innleiðingu þeirra áherslumála sem fram komu í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, en það er komið fram að staða og hlutverk Landspítalans sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verði styrkt og sérstök áhersla lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu- og bráðadeildar og stjórn Landspítalans er ætlað að gegna stefnumarkandi hlutverki í þeirri þróun.

Nú er ég búin að renna í gegnum þessa greinargerð tvisvar og hef ekki fundið neitt sem útskýrir nákvæmlega hvernig þessari stjórn er ætlað að uppfylla þetta verkefni, þ.e. að gegna stefnumarkandi hlutverki í því að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu- og bráðadeildar. Þetta er í raun eini staðurinn í greinargerðinni þar sem talað er um það. Það er talað um ýmislegt tengt vísindastarfi og uppbyggingu og eitthvað sem mætti alveg tengja við það. En mér finnst ekki sýnt fram á hvernig stjórn Landspítalans er ætlað að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu- og bráðadeildar, þetta er bara ekkert rætt frekar í greinargerðinni. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnist um það að yfirlýst markmið frumvarpsins er síðan ekkert rætt neitt meira í greinargerðinni.