152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sammála athugasemdum sem komu fram í ræðu hennar og líka öðrum athugasemdum. Það er gríðarlega mikilvægt í svona skipulagsheild að skýrleiki sé á ábyrgð hvað varðar ákvarðanatöku. Það er raunverulega lykilatriði varðandi strúktúrinn eða skipulagið á stofnuninni. Við erum að tala um þjóðarsjúkrahús landsins. Við erum eitt ríkasta samfélag heims og við höfum verið að baksa við að reka þetta þjóðarsjúkrahús undanfarin ár eða áratugi. Endalausar fréttir af rekstrarvanda og núna á að reyna að fara að taka á þessum vanda með því að breyta stjórnuninni. Ég óttast að með þessum lögum óbreyttum þurfi að baksa við ekki bara að reka spítalann heldur líka að stjórna honum. Það munu verða alls konar vandamál og flækjustig varðandi það hvernig stjórnun spítalans eigi að vera háttað. Það geta komið stjórnarmenn, menn hafa sínar skoðanir í stjórn, minni hluti og meiri hluti. Það getur orðið rekstrarvandi og alltaf þegar kominn er rekstrarvandi þá geta komið leiðindi líka.

Ég tel að þetta frumvarp sé ekki nægilega vel unnið. Ég tel að það sé ekki nægilega skýrt og ég tel því að það sé mikill akkur fyrir okkur hér á Alþingi að senda þau skilaboð til samfélagsins, með löggjöf um stjórn spítalans, að það sé skýr ábyrgð. Það byggir á því að við fáum hæfustu stjórnendur sem völ er á til að stýra spítalanum varðandi forstjóra og líka varðandi stjórn spítalans. Ég tel jafnvel að við ættum að leita út fyrir landsteinana til að fá þá stjórnarmenn. Á heimsvísu eða í evrópsku samhengi er þjóðarsjúkrahúsið okkar ekki stórt. Við erum bara 360.000 manns. Mannauðurinn til að stjórna svona spítala er alls ekkert ótakmarkaður. Ég veit að allir sem koma að rekstri fyrirtækja — leiðtogahæfileikar við rekstur spítalanna skipta gríðarlega miklu máli.(Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann að lokum hvort hún telji að hægt sé að gera veigamiklar breytingar á þessu frumvarpi, að það dugi, án þess að það verði bara lagt aftur fram.(Forseti hringir.) Ég tel líka að greinargerðin sé ekki fullnægjandi, ég tek það fram.