131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:42]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að tímasetningin sé ágæt núna. Ég held að sé ágætt að lækka skatta við þær aðstæður sem nú eru. Ég get svarað því hreint út.

Mig langar hins vegar, af því að hv. þingmaður kom upp í andsvar, að biðja hann að útskýra fyrir okkur í þingsalnum og öðrum sem kunna að fylgjast með hvernig hann skilgreini þessa pólitík, þ.e. að lækka skatta um tiltekna fjárhæð en taka hærri fjárhæðir inn annars staðar. Með öðrum orðum er verið að lækka skatta, reyndar á þann hátt að færa byrðar frá þeim sem meira hafa en síður létta líf þeirra sem minna hafa. En gott og vel. Á sama tíma og menn lækka þessa skatta auka þeir tekjur ríkissjóðs vel umfram þær fjárhæðir sem skattar eru lækkaðir um.

Ég spyr, og ítreka þá spurningu sem ég hef spurt oftar en einu sinni í þessum umræðum: Hvernig skilgreinir hv. þingmaður þessa pólitík, þ.e. skattalækkun en um leið að auka tekjur ríkissjóðs með öðrum álögum, notendagjöldum og öðru slíku, sem gerir það að verkum að ríkissjóður stækkar og eykur tekjur sínar í þær hæðir sem aldrei hafa sést áður í hlutfalli af landsframleiðslu? Ég óska eftir því, virðulegi forseti, af því ég hef satt best að segja átt í talsverðum erfiðleikum með að átta mig á þeirri pólitík. Ég leyfði mér áðan í ræðu að skilgreina hana sem einhvers konar hægri pólitík með „kommúnísku“ ívafi, þ.e. að lækka skatta en auka ríkisútgjöld langt umfram það sem áður hefur verið. Ég vildi óska, virðulegi forseti, að hv. þingmaður útskýrði fyrir mér hvers konar pólitík hér er á ferðinni.