131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi.

211. mál
[02:33]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins í örfáum setningum gera grein fyrir því hvers vegna nafn mitt er ekki að finna á nefndarálitinu. Ég er í sjálfu sér ekki andvígur því sem hér er að gerast og hef áður sagt frá því að mér finnist eðlilegt að samræma þær reglur sem gilda í viðskiptum á hinu Evrópska efnahagssvæði eftir því sem kostur er og við höfum yfirleitt stutt slíkar reglur. En ég hef verið andvígur að flytja inn svokallaða upprunalandsreglu sem eimir nokkuð af í frumvarpinu. Hér er kveðið á um hvað skuli gerast við slit á stofnunum og hvaða reglur skuli vera við lýði. Almenna reglan sem hér er lögfest er sú að lögin og reglurnar sem gilda í upprunalandinu eigi að gilda. Hins vegar er kveðið á um alls kyns fyrirvara í frumvarpinu, reyndar svo mikla að sumir líta svo á að það sé orðin hin almenna regla.

Þegar höfð er hliðsjón af því að hið Evrópska efnahagssvæði er að stækka, í Evrópusambandið eru að koma lönd með lakari reglur og reglugerðarsmíð en er annars staðar, er ákveðin hætta fyrir hendi að allt reglugerðarvíravirkið veikist þegar sú grunnregla er innleidd að upprunalandsreglan skuli gilda.

Þetta er ástæðan fyrir því að nafn mitt var ekki að finna á nefndarálitinu en þegar á heildina er litið er ég fyllilega sammála því sem hér er að finna.