132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[17:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Því miður hafði ég öðrum hnöppum að hneppa meðan hæstv. ráðherra hélt framsöguræðu sína um málið þannig að ég heyrði ekki ræðu hennar og satt að segja lítið af þeirri umræðu sem hefur farið fram. En engu að síður leyfi ég mér að ganga út frá því að hæstv. ráðherra hafi fullyrt það hér í ræðustól að Rafmagnsveitur ríkisins hf. yrðu ekki seldar í náinni framtíð. Ég sé að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður hv. iðnaðarnefndar, nikkar svo að ég geri ráð fyrir að mér sé óhætt að vitna til orða hæstv. ráðherra eins og þau komu fyrir í Morgunblaðsgrein fimmtudaginn 1. desember sl. En þar segir með leyfi forseta:

„Nú kunna margir að velta því fyrir sér hver sé tilgangurinn með frumvarpinu sem hér er um rætt og hvort ekki sé hér aðeins um skref að ræða í átt til einkavæðingar fyrirtækisins. Þessu er fljótsvarað. Ekki stendur til af hálfu núverandi ríkisstjórnar að selja Rafmagnsveitur ríkisins.“

Frú forseti. Þetta er áreiðanlega boðskapur hæstv. ráðherra í dag. Hún undirstrikar í grein sinni í Morgunblaðinu að það sé ekki ætlunarverk núverandi ríkisstjórnar að selja Rafmagnsveitur ríkisins. En eðli málsins samkvæmt getur þessi hæstv. ráðherra ekki fullyrt nokkurn skapaðan hlut um ætlunarverk komandi ríkisstjórnar. Nú skyldi maður ætla að það gæti liðið svona rúmt ár þar til að mögulega kæmi hér ný ríkisstjórn. Þá er sú ríkisstjórn algerlega óbundin af þeim yfirlýsingum sem þessi hæstv. ráðherra hefur gefið, bæði hér á Alþingi sem og annars staðar.

Það þarf ekki flókna breytingu á þessum lögum, verði þau að lögum, til að heimila sölu Rafmagnsveitna ríkisins hf. Það þarf bara ákveðna innréttingu í þá ríkisstjórn sem tæki þá ákvörðun. Ég sé fyrir mér að það sé afar stutt í að þjóðin fái yfir sig ríkisstjórn sem verði þannig innréttuð að Rafmagnsveitur ríkisins hf. verði seldar. Og hv. þm. Kjartan Ólafsson nikkar þessum orðum mínum til staðfestingar og segir þar með: Það er gott. Þetta staðfestir auðvitað það sem við vitum hér og það þarf ekki að tala með neinni tæpitungu um það: Það er vilji Sjálfstæðisflokksins að selja sem mest af ríkiseignum. Eftir þeirri stefnu hefur sú ríkisstjórn sem nú situr keyrt. Og eflaust hefur hún ekki fengið að selja allt sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði gjarnan viljað. Það kann að vera að einhver slitin ístöð séu til staðar sem Framsóknarflokkurinn hefur einhvern tímann reynt að spyrna fótum í. En þau eru orðin svo slitin og máð og lúin að í mínum huga eru þau um það bil að gefa sig.

Mér segir svo hugur, frú forseti, að þess sé ekki langt að bíða að Framsóknarflokkurinn éti ofan í sig öll þau orð sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt um þessi mál, (Gripið fram í: Þess vegna á morgun.) þess vegna á morgun, og samþykki að selja allt heila klabbið.

Nú vil ég fá að rifja upp, frú forseti, umræður um þessi mál. Hæstv. ráðherra getur ekki talað eins og hér hafi aldrei verið fjallað um þá möguleika sem fælust í samkeppninni sem ætti að ríkja á orkumarkaði eftir að nýju raforkulögin tóku gildi. Eða hvernig hljómuðu bjartsýnislegar ræður hv. stjórnarliða á sínum tíma þegar menn voru að breyta hér raforkulögum og innleiða samkeppnismarkað á orkusviði? Þá voru menn að gera sér í hugarlund að hægt væri að búa til tvo stóra aðila á markaði, samkeppnisaðila, sem mundu sjá um að afla og selja raforku til landsmanna. Annars vegar átti að vera stórt og stöndugt fyrirtæki sem átti að samanstanda af Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Hins vegar átti að standa stórt og stöndugt fyrirtæki sem átti að setja saman úr Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins. Það var ekkert verið að fara í neina launkofa með þessar fyrirætlanir. Ekki heldur þegar hæstv. fjármálaráðherra gaf yfirlýsingar um að hann sæi fyrir sér að Landsvirkjun yrði innan fárra ára háeffuð og seld. Og auðvitað býr þetta allt hér undir, frú forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki forðað sér undan þeirri umræðu. Það er alveg sama hversu oft hún segir, í blaðaviðtölum, blaðagreinum, eða ræðum hér úr ræðustól, að það standi ekki til að selja Rafmagnsveitur ríkisins hf. þá verður alltaf að hafa í huga að það gildir bara um núverandi ríkisstjórn, hverrar lífdagar eru kannski bráðum taldir.

Ég verð að segja fyrir mig, frú forseti, að sporin hræða. Við þekkjum vel þá vegferð einkavæðingar sem ríkisstjórnin hefur keyrt undanfarin ár. Ég er hér með skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem gerð var að beiðni þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og fjallar hún um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003. Þar kemur fram að umfjöllunin nær til hvorki meira né minna en átta fyrirtækja sem voru að hluta til eða að öllu leyti í eigu ríkissjóðs en hafa verið seld, einkavædd og seld, þegar hér er komið sögu. Og hvað kemur fram í fyrsta kafla þessarar skýrslu Ríkisendurskoðunar annað en að yfirleitt hafi fyrsti áfanginn í söluferlinu falist í að breyta fyrirtækjunum, sem sagt ríkisstofnunum, í hlutafélög. Þess vegna er það eðlilegasti hlutur í heimi að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og mögulega aðrir þingmenn, sem svipað er ástatt um, beri kvíðboga fyrir þessum aðgerðum sem koma í kjölfarið á þeirri háeffun sem hér er til staðar.

Í tengslum við þetta hefur líka verið fjallað um hlutafélög í eigu ríkisins. Það var hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hóf þá umræðu fyrir alvöru en sú umræða hefur nú leitt til þess að komin eru fram ein tvö frumvörp um hlutafélög í eigu hins opinbera. En hv. varaþingmaður Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir, flutti þingsályktunartillögu um að kanna ætti hvort skynsamlegt gæti talist í ljósi allrar þeirrar hlutafélagavæðingar sem hafin væri hjá ríkisstjórninni að skoða hvað Norðurlandaþjóðirnar hefðu gert í þessum efnum og á hvern hátt hlutafélög í eigu hins opinbera lytu annars konar reglum en almenn hlutafélög. Í greinargerð með þingsályktunartillögu Álfheiðar kemur mjög glögglega fram að frændur okkar á Norðurlöndunum hafa ævinlega óttast að þegar ríkisfyrirtækjum er breytt í hlutafélög næðu stjórnsýslulög og upplýsingalög þar með ekki til þeirra. Það virðist manni, af því sem maður kynnir sér, samdóma álit stjórnmálamanna á Norðurlöndunum að slíkt væri til vansa þegar um væri að ræða opinber fyrirtæki. Þar af leiðandi fóru menn í að breyta sínum hlutafélagalögum, eða setja jafnvel ný lög, sjálfstæð lög, sem fjölluðu um hlutafélög í opinberri eigu.

Nú finnst mér, eins og oft áður með hæstv. ráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, að hún byrji á öfugum enda. Hæstv. ráðherra er komin fram með frumvarp hér á Alþingi um hlutafélög í opinberri eigu. En það er ekki verið að tala fyrir því áður en hlutafélagavæðing Rarik á að eiga sér stað heldur er byrjað á hlutafélagavæðingu Rafmagnsveitna ríkisins og svo veit maður ekki hvað framtíðin ber í skauti sér með hlutafélög í opinberri eigu. Mér hefði fundist eðlilegri röð að setja þá einhvers konar skorður við því að hlutafélag af því tagi sem hér er verið að búa til gæti verið lokað inni, því komið í einhvers konar skjól undan upplýsingalögum og stjórnsýslulögum, að ekki sé talað um lög um starfsmenn hins opinbera. Ég hefði haldið að ef gera ætti hlutina í réttri röð hefði verið skynsamlegra að byrja á einhvers konar lagaumgjörð um hlutafélög í opinberri eigu en ekki að fara þá leið sem hæstv. ráðherra leggur hér til.

Við höfum tekist á um orkumálin frá ýmsum sjónarhornum. Eitt af því sem tekist var á um á sínum tíma, þegar raforkutilskipun Evrópusambandsins var innleidd, var hvort Íslendingar byggju í sjálfu sér við þær aðstæður að það væri yfir höfuð hægt að skapa samkeppnisumhverfi á raforkumarkaði. Um það voru mjög miklar deilur. Um þær deilur má lesa í ýmsum ritum, m.a. í riti sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gaf út í febrúar árið 2000, sem fjallaði um framtíðarskipulag raforkuflutnings á Íslandi. En í því riti, sem og í ýmsum öðrum skýrslum, hafa verið tíundaðar þær efasemdir sem fjöldi þingmanna hafði um að Íslendingar þyrftu yfir höfuð að innleiða þessa tilskipun eða gætu ekki með einföldum hætti sótt um undanþágu frá henni.

Þeim mun betur sem ég kynni mér þessi mál því sannfærðari verð ég um að hún var arfavitlaus sú ákvörðun að fara út í þennan leiðangur, að búa til þennan ímyndaða samkeppnismarkað á þessari 103 þús. ferkílómetra eyju, Íslandi, þar sem eðli málsins samkvæmt verður aldrei um neina samkeppni að ræða nema mögulega milli tveggja fyrirtækja. Það vita allir sem vilja vita að ef einungis tvö fyrirtæki eru á markaði þá er það fákeppni, ekki samkeppni. Menn eru hér í vonlausu landslagi að búa til ímyndaðan samkeppnismarkað í raforkumálum. Hver eru nú fyrstu skrefin í þeim efnum? Ég er hér með útprentaða frétt úr Ríkisútvarpinu frá 13. janúar sl. þar sem iðnfyrirtæki kvarta sáran undan hækkun raforkuverðs. Því er haldið fram í fréttinni að frá því að breytingar á raforkulögum tóku gildi fyrir örfáum mánuðum síðan, var það ekki um áramótin sem lögin gengu endanlega í gildi, hafi raforkan í sumum tilvikum hækkað um allt að 50%. Um helming. Þvert ofan í allar yfirlýsingar hæstv. ráðherra og hv. þingmanna stjórnarflokkanna þegar við vorum að fjalla hér um hin nýju raforkulög. Þá stóð nú bunan upp úr fólki að þetta ætti nú ekki að þurfa að kosta verulegar raforkuhækkanir. Kannski yrði einhver umsýslukostnaður, einhvers konar byrjunarkostnaður, en síðar mundi það allt jafna sig út. (BJJ: Gæti lækkað.) Mögulega hefur raforkuverðið lækkað einhvers staðar, en fréttin sem ég er með hér fyrir framan mig er svo ljót og ber þessum tilburðum ríkisstjórnarinnar svo slæmt vitni að ég get ekki annað en ítrekað það sem ég sagði áðan að menn eru hér að klöngrast áfram í vonlausu landslagi.

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í frétt Ríkisútvarpsins frá 13/1, með leyfi forseta:

„Samkeppnin virkar bara ekki hér. Þau fyrirtæki sem eru að leita sér tilboða frá öðrum rafveitum eru ekki að fá nein tilboð í raun og veru og jafnvel tilboð sem eru yfir almennum töxtum. Ástæðan er sú að það er ekkert umframrafmagn í kerfinu og rafveiturnar vilja í raun og veru ekki nýja viðskiptamenn. Þar sem menn vilja ekki nýja viðskiptamenn, þar er auðvitað engin samkeppni.“ (KÓ: Það þarf þá bara að virkja meira.)

Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Sveinn Hannesson. Hv. þm. Kjartan Ólafsson kallar fram í: Það þarf þá bara að virkja meira. Þau orð sendi ég aftur yfir til hv. þingmanns. Við ræðum það betur síðar. (JBjarn: Gríptu þau glóðvolg.) Hins vegar hef ég verulegar áhyggjur af því að stærri iðnfyrirtækin sem fréttin sem ég fjallaði um lýtur að höfðu áður sérstaka samninga um orku á næturnar og um ótrygga orku. Þau fyrirtæki koma afskaplega illa út úr þeim breytingum sem eru að verða við hina ímynduðu innleiðingu samkeppnismarkaðar.

Orkuverð iðnfyrirtækja á Íslandi er með því alhæsta í Norður-Evrópu. Þetta fullyrðir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Ég spyr, virðulegi forseti: Hverju sætir það, að þjóð sem á jafnmikið af orkulindum og raun ber vitni, þjóð sem hefur ríkisstjórn sem gortar sig af orkulindunum í tíma og ótíma og gerir allt sem í hennar valdi stendur til þess að reka á eftir orkufyrirtækjunum til að rannsaka og virkja alla virkjunarkosti, helst á morgun ef ekki í gær, hvernig stendur á því að stjórnendur iðnfyrirtækjanna í landinu þurfa að kvarta á þeim nótum sem fjölmiðlaumfjöllun ber vott um þegar við ættum að geta boðið lægsta raforkuverð í Norður-Evrópu en ekki hæsta? Skýtur ekki eitthvað skökku við hér? Hvernig væri að þjóðin sæi fyrir sér ríkisstjórn sem hefði það að stefnumiði sínu að lækka raforkuverð vegna þess að við eigum svo kröftugar orkulindir? Því er ekki að heilsa. Ríkisstjórnin sem hér situr hugsar ekki um almenna neytendur í landinu, hvorki fjölskyldur, heimilin né iðnfyrirtækin sem þurfa á þessari orku að halda. Nei. Núverandi ríkisstjórn ber fyrir brjósti risastóra alþjóðlega auðhringa sem þurfa síst á því að halda að hafa lágt raforkuverð.

Frú forseti. Mér finnst þessi brýning eða hreinlega dómur sem kemur frá framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins yfir gjörðum hæstv. iðnaðarráðherra verulega alvarlegur. Mér finnst við þurfa að ræða þetta í þessu samhengi þegar ljóst er að stjórnendur í stærri iðnfyrirtækjum á Íslandi kvarta og segja að raforkukostnaðurinn hafi hækkað svo mikið. Fyrirtækið Plastprent er nefnt í frétt Ríkisútvarpsins sem einn stærsti raforkunotandi á Íslandi fyrir utan stóriðju. Maður skyldi ætla að fyrirtæki af því tagi gæti unað hag sínum vel á Íslandi, orkuparadísinni Íslandi, en ónei, annað er upp á teningnum, því að forsvarsmenn Plastprents segja raforkuverð hafa hækkað um 20–30% en fyrirtækið kaupir í stórum skömmtum fyrir um 20–30 millj. á ári. Forsvarsmennirnir kvarta að sjálfsögðu undan því að fyrirtæki á borð við Plastprent, stórfyrirtæki á okkar mælikvarða, skuli ekki fá svipaðar ívilnanir og stóriðjan. Því er ekki að heilsa og Sigurður Bragi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Plastprents, segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„Við getum ekki betur séð, þó að við séum ekki með nákvæmar upplýsingar um hvað stóriðjan er að borga, þá gætum við trúað því að við, sem erum þó þetta stórir, séum að borga milli 40- og 50-falt meira fyrir kílóvattstundina en stóriðjan.“

Fjörutíu- til fimmtíufalt meira en stóriðjan, innlent iðnfyrirtæki. Þetta er stóriðjudekur hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Fréttamaðurinn spyr Sigurð Braga hvort þeir geti ekki gert eitthvað því nú sé samkeppni á markaðnum, hvort þeir geti ekki bara farið til annarra rafveitna. Hverju svarar forsvarsmaður Plastprents, Sigurður Bragi Guðmundsson, því, frú forseti?

Hann svarar, með leyfi forseta:

„Nei. Við höfum reynt að leita eftir tilboðum annars staðar frá. Þetta kerfi virðist ekki vera að virka sem skyldi og við höfum ekki getað bætt stöðu okkar með þeim hætti.“

Ég spyr: Hversu lengi á ástandið að vera eins og Sigurður Bragi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Plastprents, lýsir því? Hversu lengi ætlar hæstv. iðnaðarráðherra að sýna íslenskum iðnfyrirtækjum þá fyrirlitningu sem hún sýnir með gjörðum sínum?

Mér finnst orðið löngu tímabært að Samtök iðnaðarins og iðnfyrirtæki í landinu rísi upp á afturlappirnar og leggist á sveif með okkur sem erum að reyna að leiða þjóðinni það fyrir sjónir að stóriðjuæði ríkisstjórnarinnar sé glapræði og frekar ætti að huga að því að afla hér orku með einföldum og umhverfisvænum hætti til þeirra fyrirtækja sem við erum með í landinu heldur en að vera á þeirri vegferð sem núverandi ríkisstjórn er í. Þegar við bætist sú árátta ríkisstjórnarinnar að háeffa og selja þær eigur sem þjóðin er búin að vera að koma sér upp í gegnum tíðina með ærnum tilkostnaði, með því að leggja á sig ærið ómak og erfiði við að koma sér upp þessum eigum, þá sé ég ekki betur en hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sé að fara hér um eins og fíll í postulínsverslun.