133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:31]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (frh.):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að ljúka máli mínu. Ég reyni að vera eins stuttorð og hægt er svo lengi sem hægt er að fá frið fyrir frammíköllum en ég sé að hér er einn öflugur talsmaður frammíkalla svo hver veit. Þar sem ég var komin áðan var að þessum frasa sem stjórnarandstaðan notar oft, víðtæk sátt, að leita víðtækrar sáttar. Það er skoðun mín og einfaldlega reynsla að þegar þessi orð eru notuð er það stjórnarandstaðan sem ætti í raun að byrja að leita sáttar hjá sjálfri sér. Af hverju segi ég það? Jú, eftir alla þessa umræðu, eftir allar þær skoðanir sem birst hafa í ræðum þingmanna hinna ólíku stjórnarandstöðuflokka vil ég sérstaklega geta þess sem Magnús Þór Hafsteinsson, sem er fulltrúi og varaformaður Frjálslynda flokksins, sagði við eina umræðuna. En varaformenn flokkanna hafa tjáð sig með mjög afgerandi hætti í þessari umræðu (Gripið fram í.) og svo virðist sem þeir séu að sjá ljósið því að varaformaður Samfylkingarinnar sagðist vera hlynntur því að breyta RÚV í hlutafélag ef komið væri til móts við upplýsingalöggjöfina, það er búið að gera það, og ritstjórnarlegt sjálfstæði og það er alveg skýrt að passað verður upp á það. Varaformaður Frjálslynda flokksins sagði í umræðu um þetta mál að hann sé reiðubúinn til að fella sig við hlutafélagaformið svo lengi sem nægilegt fjármagn fylgi. Það er nú einmitt þannig að það fylgir nægilegt fjármagn því að í drögum að stofnefnahagsreikningi sem liggur fyrir er ljóst að Ríkisútvarpið mun verða með 12–15% eiginfjárhlutfall þegar það hefur rekstur undir nýju og breyttu rekstrarformi sem er ohf. Það er því ljóst að varaformaður Frjálslynda flokksins mun geta stutt þetta frumvarp eins og varaformaður Samfylkingarinnar.

Næsti stjórnarandstöðuflokkur og sá flokkur heitir Samfylking sagði m.a. eða hv. þm. Mörður Árnason við upphaf umræðunnar á sínum tíma að það væri svo sem hægt að fella sig við hlutafélagaformið ef hinu og þessu yrði breytt. Það er sem sagt hægt að fella sig við hlutafélagaformið. En eins og menn þekkja er stefna Samfylkingarinnar, fyrir utan varaformann Samfylkingarinnar, sú að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun. (Gripið fram í: Eins og Framsóknarflokksins.) Það er hins vegar ekki stefna þriðja stjórnarandstöðuflokksins sem er Vinstri grænir. Það er alveg ljóst að þeir vilja óbreytt rekstrarform. Þeir vilja hafa ríkisstofnun. Afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur allan tímann verið mjög skýr í þessu máli. Þeir hafa talað mjög skýrt, þeir eru einfaldlega á móti breytingunni, þeir vilja hafa ríkisstofnun. Þeim hugnast ekki þær rekstrarformsbreytingar sem við höfum staðið fyrir, hvort heldur það er í þessu máli eða í öðrum ríkisstofnunum. Þeir segjast vera á móti því að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag og hafa sínar röksemdir fyrir því. Þeir eru einfaldlega á móti því og ég ætla ekki að detta í þann frasa að segja að það sé af því að þeir séu alltaf á móti. Þeir á móti því að breyta Ríkisútvarpinu af því að þeir eru hræddir (Gripið fram í.) við þær breytingar sem Ríkisútvarpið þarf að fara í gegnum til þess að það geti staðið undir þeim kröfum sem það þarf að uppfylla.

Það sem ég er að draga fram er að við höfum heyrt þrjár mismunandi skoðanir við umræðuna, eiginlega fjórar, jafnvel fimm. (Gripið fram í: Eða sex.) Afstaða ríkisstjórnarflokkanna er alveg skýr. Hún er nokkurn veginn sú sama og varaformanns Samfylkingarinnar, þ.e. að breyta stofnuninni í opinbert hlutafélag.

Við höfum líka heyrt Frjálslynda segjast geta fellt sig við hlutafélagaformið ef nægilegt fjármagn fylgi og það fylgir nægilegt fjármagn. (Gripið fram í.) Þess vegna segi ég: Byrjið að leita sátta í eigin röðum áður en þið farið að tala um víðtæka sátt í samfélaginu. Það er alveg ljóst hvað mig varðar að ég tel að við séum að taka hér gott skref, farsælt skref í þá átt að Ríkisútvarpið geti tekist á við nýja tíma, kröfuharðari tíma, í þá veru að þeir sinni enn betur innlendri dagskrárgerð og menningarhlutverki sínu en það hafa gert fram til þessa og hefur það þó gert það ágætlega. Við viljum bara enn meira, við gerum enn ríkari kröfur til Ríkisútvarpsins. Þess vegna þarf það að hafa tækifæri til að aðlaga sig að breyttum tíma, líka á samkeppnissviðinu, til að standa undir því sem ætlast er til af því.

Menn hafa spurt: Hvers vegna lítum við ekki til BBC? Af hverju skoðum við ekki hvað BBC er að gera? Það hefur m.a. verið rætt í einhverjum af þeim fjölmörgu ræðum sem hér hafa verið fluttar. Það er kannski rétt að nefna eitt atriði sem ekki hefur verið rætt hér og ekki mjög margir vita af og það er að BBC er afar fyrirferðarmikið á samkeppnismarkaði. BBC er gríðarlega sterkt vörumerki á alþjóðlegan mælikvarða og það er sjötta stærsta fjölmiðlafyrirtæki Evrópu. Það rekur fyrirtækið BBC Worldwide Ltd. Það er fyrirtæki í samkeppnisrekstri sem selur m.a. sjónvarpsþætti og kvikmyndir sem BBC hefur framleitt. Það rekur sjónvarpsstöðvar í samkeppni við einkaaðila, það gefur út tímarit, bækur, geisladiska, sölumyndbönd, DVD o.fl. Þetta gerir fyrirtækið ásamt því að selja ýmsan annan varning og hagnaðurinn af BBC Worldwide er síðan notaður til að fjármagna útvarpsþjónustu í almannaþágu og halda um leið afnotagjöldunum í lágmarki. Þess vegna hefur mér komið það dálítið spánskt fyrir sjónir þegar menn segja, og sérstaklega samkeppnisaðilar RÚV á markaðnum, að við skulum líta til BBC. BBC er gríðarlega öflugt á samkeppnismarkaði, það er vert að hafa í huga.

Ég ítreka að fyrir þjónustusamningnum, sem er að mínu mati tímamótasamningur varðandi samskipti Ríkisútvarpsins og stjórnvalda, eru fordæmi hjá öðrum ríkisfjölmiðlum í Evrópu. Danir hafa gert slíkan samning, Frakkar, Írar, Ítalir, Svíar og Belgar. Svona samningar hafa verið gerðir víða. Rétt er að undirstrika það að Danir reka sjálfseignarstofnun og ég ætla þá að fara aðeins yfir það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan af því að í því landi er sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið mjög þekkt. Um það gilda skýr lög í Danmörku. Þetta fyrirkomulag er ekki mikið notað. 95–97% fyrirtækja sem rekin eru á Íslandi eru rekin í hlutafélagaformi. Af hverju? Jú, af því að það er gegnsætt fyrirkomulag, það er mjög formbundið og menn vita að hverju þeir ganga þegar menn nota menn það. Ef við ætluðum að fara sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagsleiðina þýddi það að við þyrftum að hafa mjög ítarlega löggjöf og enn og aftur bendi ég á að það er ekki áhlaupaverk að breyta lögum um Ríkisútvarpið. Það hefur sýnt sig fram til þessa. Ég tel miklu farsælla að hafa ákveðinn ramma fyrir Ríkisútvarpið, ramma sem er öllum aðgengilegur og vel þekktur, fyrirkomulag sem við Íslendingar vitum út á hvað gengur og þekkjum til. Það er mikill misskilningur að hlutafélagaformið sé eingöngu notað í fyrirtækjum í hagnaðarskyni. Það er ekki svo. Því er það ekki að ástæðulausu sem m.a. ríkisvaldið fór út í það að samþykkja lög um opinber hlutafélög til að hægt sé að nýta slíkt fyrirkomulag og það rekstrarhagræði sem fæst í gegnum hlutafélagavæðinguna.

Ég er sannfærð um það, frú forseti, að þetta frumvarp mun verða Ríkisútvarpinu til heilla. Það mun treysta stoðir Ríkisútvarpsins sem einhverrar mestu menningarstofnunar landsins. Það er djúp sannfæring mín að sú leið sem við höfum farið með því að velja þetta fyrirkomulag muni leiða til þess að Ríkisútvarpið geti sinnt enn frekar þeim skyldum og kröfum sem við gerum til þeirrar annars ágætu stofnunar. Um leið vonast ég til að menn geti haldið áfram og þingið veiti þingmönnum, sem greinilega liggur margt og mikið á hjarta tækifæri til að tjá sig. (Gripið fram í: Gott.) Ég er ekki að biðja um að eitt eða neitt verði stytt eða skert en ég bið um ný sjónarmið, ný gögn í málið, ný viðhorf. Við erum búin að heyra allt sem menn hafa sagt hér mörgum sinnum. Það er ekkert nýtt málinu. Ég mundi skilja það ef allt væri á rúi og stúi í samfélaginu. Ef allt væri á rúi og stúi væru mótmæli úti á Austurvelli út af þessu máli — það mátti nú ekki minnast á kaffistofur áðan, þetta væri bara mál málanna og þetta væri það sem landið bryti á o.s.frv. Svo er ekki og þetta mál sannfærir mig um það að stjórnarandstaðan er algerlega úr takti við þjóðarsálina í dag. (Gripið fram í: … einhverjum takti núna.) Við eigum að fá að nota lýðræðislegan rétt okkar eftir svo umfangsmiklar umræður. Ég ítreka að við erum búin að ræða þetta mál meira en EES, gagnagrunn á heilbrigðissviði, Kárahnjúkana og það er hægt að tína mörg önnur mikilvæg mál eins og Ríkisútvarpið.

Ég tel að í þessu máli sé búið að segja mestallt sem segja þarf en ef menn vilja tjá sig meira þá gera þeir það að sjálfsögðu. Það er réttur þeirra. Mér finnst það mikið fagnaðarefni að forsetar þingsins hafa lagt sig í líma við að koma til móts við óskir þingmanna að skapa þeim svigrúm til að ræða málið í þinginu. Ef ekki á að ræða málið hér, hvar á þá að ræða það? Auðvitað á að ræða málið hér og greiða síðan atkvæði um málið, nema það sé eitthvað sem menn þora ekki að gera. En ég segi enn og aftur að stjórnarandstaðan er úr takti við þjóðarsálina í þessu máli. Það er verið að lengja störf þingsins. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að hér er um grímulaust málþóf að ræða. Ég tel það miklu farsælla fyrir þingið að afgreiða þetta mál, að við fáum tækifæri til að segja já og stjórnarandstaðan nei, miðað við það sem hún hefur verið að segja, að við fáum eftir 120 klukkustunda umræðu tækifæri til þess að greiða atkvæði.

En tilgangurinn helgar meðalið. Menn hrista höfuðið og segja að (Gripið fram í.) áfram skuli haldið í þessu máli. Við eigum ekki að fá tækifæri til að ræða málefni Byrgisins eða málefni Vatnajökulsþjóðgarðs, sem er mikilvægt og brýnt mál, sameiningu háskólastofnana eins og Kennaraháskólans og Háskóla Íslands, Náttúruminjasafnið. Mörg brýn mál bíða afgreiðslu í þinginu en stjórnarandstaðan kemur í veg fyrir að við ræðum þau mál. Það sjá allir sem vilja sjá. Þetta er ekki það mál sem brennur á landsmönnum í dag. (Gripið fram í.) Menn verða að fara að viðurkenna það og koma ekki hingað upp í einhverjum felulitum og kalla hlutina öðrum nöfnum, að menn séu ekki í málþófi heldur í einhverju allt öðru. Menn geta verið málefnalegir í málþófi en þetta er málþóf og ekkert annað. Ég hvet hv. þingmenn til að ræða málið þannig að við getum innan tíðar farið að taka afstöðu í málinu. Eða óttast stjórnarandstaðan e.t.v. að það verði klofningur meðal hennar í þessu máli? Það má kannski ætla það miðað við þá afstöðu sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa greint frá í ræðum sínum. Ég minni enn og aftur á að við erum búin að heyra a.m.k. þrjár eða fjórar mismunandi skoðanir af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna. Við verðum að hafa það hugfast, fyrir utan það að Samfylkingin áttar sig ekki á hvort um ríkisvæðingu eða einkavæðingu er að ræða. Það væri ágætt að byrja á því að fókusera aðeins á hvað þeir telja sjálfir að málið snúist um.

Málið snýst um það, frú forseti, að við erum að taka skref inn í framtíðina fyrir Ríkisútvarpið, fyrir almenning í landinu til að geta notið sem bestrar þjónustu, menningarlegrar þjónustu. Við viljum sjá aukna innlenda dagskrárgerð í útvarpinu og sjónvarpinu. Við erum að forgangsraða skattpeningum, fjármagni almennings í þágu almennings. Við höfum sagt, m.a. í gegnum frumvarpið og þjónustusamninginn, að við viljum að fjármununum verði forgangsraðað í þágu innlendrar dagskrárgerðar, að sjálfstæðir framleiðendur komi í auknum mæli að framleiðslu efnis innan Ríkisútvarpsins. Við viljum sjá táknmálstúlkun í ríkari mæli. Það er líka sagt í samningnum. (Gripið fram í.) Allt þetta viljum við. Lykillinn að því er að við fáum tækifæri til að greiða atkvæði um málið þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tjáð sig nægilega mikið um það. Ég tel að jafnskarpir, skýrir og snarpir menn og konur og eru innan stjórnarandstöðunnar eigi að geta séð tækifærið í því að tjá hug sinn á þeim 120 klukkustundum sem búið er að ræða um þetta mál. (Gripið fram í.) Aðalatriðið er að við sjáum bjarta tíma fram undan fyrir Ríkisútvarpið, fyrir dagskrárgerð í landinu og almenning í landinu. Við munum njóta þess að fá enn betri dagskrá í gegnum þær breytingar á Ríkisútvarpinu sem við munum standa fyrir og samþykkja síðan.