133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:10]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það eru á margan hátt forréttindi að fá að koma hér í ræðustól með ótakmarkaðan ræðutíma á eftir hæstv. menntamálaráðherra sem kom mjög víða við í ræðu sinni og fjallaði um ýmsa þætti þessa máls. Það er hins vegar ekki hægt að segja að hæstv. ráðherra hafi uppfyllt þau skilyrði sem hæstv. ráðherra gerði til annarra, þ.e. að hér eigi menn helst ekki tala nema nefna eitthvað nýtt sem ekki hefur áður komið fram. Það getur út af fyrir sig verið skiljanlegt að hæstv. ráðherra hafi ekki gert það því að umræðan hefur verið býsna löng og verið á ýmislegt minnst þó svo að það sé þannig með marga þætti að hægt sé að tala örlítið meira um þá. Og vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra er nú mjög upptekin af viðræðum við hv. þm. Framsóknarflokksins, Guðjón Ólaf Jónsson, þá er það t.d. alveg ljóst að um framgöngu Framsóknarflokksins í þessu máli öllu er hægt að fjalla töluvert meira en gert hefur verið fram að þessu. (Gripið fram í.)

Ég get t.d. sagt það að þegar ég lauk fyrri ræðu minni í þessari umræðu, en af sérstakri tillitssemi við virðulegan forseta taldi ég allt í lagi að ljúka þá máli mínu þannig að þingheimur gæti notið nætursvefns, þá átti ég t.d. eftir að fjalla algjörlega um þátt Framsóknarflokksins í þessu máli. Ég get hins vegar glatt þingheim með því að ég get stytt töluvert þann þátt eftir fróðlega og innihaldsríka ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í gær. Þar fór Kristinn yfir það sem gerst hefur í Framsóknarflokknum af mun meiri þekkingu en ég hef nokkra möguleika á að gera en eins og virðulegur forseti veit þá er Kristinn H. Gunnarsson hluti af þingflokki Framsóknarflokksins og gegn flokksmaður í þeim flokki og hefur auðvitað fylgst með þessu máli innan dyra. Hann upplýsti í gær að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði í raun og veru tekið vinkilbeygju í málinu árið 2005 og farið á skjön við flokkssamþykktir en vildi ekki, af tillitssemi og vegna trúnaðar sem hann hefur auðvitað í þingflokki sínum, upplýsa hvað það var nákvæmlega árið 2005 sem orsakaði slíka u-beygju Framsóknarflokksins í málinu. En flestir sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum muna árið 2005 og hvaða breyting þá varð hjá Framsóknarflokknum sem er þá hugsanleg skýring á þessu, án þess að við getum um það fullyrt. En sú saga öll, saga Framsóknarflokksins, er auðvitað mjög merkileg saga og hugsanlega mun ég eitthvað á það minnast í ræðu minni þrátt fyrir að, eins og ég sagði, Kristinn H. Gunnarsson hafi farið býsna vel yfir þá hluti og skýrt ýmislegt sem hann er miklum mun færari um en ég. (Gripið fram í.)

Nú heyri ég að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson er að lifna við og er vonandi eitthvað að losna úr því að vera bundinn viðræðum við hæstv. menntamálaráðherra og ég vona að ég fái að njóta þess að hv. þingmaður geri jafnt og þétt athugasemdir við mál mitt og ég mun auðvitað reyna að bregðast við því eins og kostur er. (Gripið fram í.) En ég vona að hv. þingmaður verði ekki svo órólegur að ég fái ekki að halda þeirri röð á hlutunum sem ég hafði hugsað mér.

Ég held að það sé rétt að byrja á því sem hæstv. menntamálaráðherra kom með til umræðunnar. Ein fullyrðing sem kom í upphafi er auðvitað rétt að ýmsu leyti, að í öllu ferli þessa máls hefur á stundum verið komið til móts við stjórnarandstöðuna. Við höfum bent á margvíslega galla í þeim frumvörpum sem fram hafa komið og sem betur fer er nú meiri hlutinn ekki svo skyni skroppinn að hann hafi ekki áttað sig á því að ýmislegt var þannig að það mátti bæta og breyta og auðvitað hefur það verið gert. Ég var að vonast til þess og ég held að það sé alveg óhætt að skilja hæstv. ráðherra þannig að hæstv. ráðherra hafi í raun verið að þakka stjórnarandstöðunni fyrir að hafa lagað frumvarpið þó það sem búið er. Enda held ég að það sé óhætt að segja að megnið af því sem gert hefur verið til bóta á frumvarpinu er fyrir tilstuðlan stjórnarandstöðunnar og að því leytinu til er þetta rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég met það samt svo að við eigum kannski ekki alveg allt í þessum breytingum, ég hugsa að við höfum haft töluverða aðstoð frá ESA þar sem upplýsingastreymi hefur verið á milli og t.d. vil ég ekki eigna okkur algjörlega þjónustusamninginn, ég hugsa að ESA hafi komið töluvert þar við sögu og eigi kannski helstan heiðurinn af því þó að við höfum að vísu áður verið búin að minnast á nauðsyn slíks samnings og að eðlilegt væri að hann fylgdi lagatextanum.

Við getum auðvitað leikið okkur með tölur eins og hæstv. ráðherra gerði í dágóða stund og borið okkur saman við alls konar mál og velt því upp hvort við séum alltaf að tala um sama málið frá upphafi eða hvort málið verði nýtt með þeim breytingum sem hafa orðið á milli þess sem málið hefur verið lagt fram. En ég get ekki séð að það skipti í raun og veru mjög miklu máli varðandi innihald málsins hversu lengi hefur verið talað um það eða hvort það er tekið í heild sinni eða í bútum. Þessi samanburður hæstv. ráðherra sem talnaglöggt fólk, væntanlega í störfum hjá hæstv. ráðherra, hefur tekið saman var hins vegar á margan hátt upplýsandi og það getur verið gaman að leika sér með slíkar tölur. En ég held að hæstv. ráðherra hljóti líka að geta sett þetta talnasafn sitt í annað samhengi, t.d. að það gæti skipt máli um hvað málið er og hversu stór hluti stjórnarandstöðunnar hefur sett sig í ákveðnar stellingar gegn því og hefur metið málið svo að það beri alla þessa umræðu.

Ég vil t.d. vekja athygli hæstv. ráðherra á því að það mál sem hæstv. ráðherra m.a. nefndi, þ.e. Kárahnjúkamálið, var auðvitað allt annars eðlis. Þá var það aðeins lítill hluti, í raun verulega lítill hluti stjórnarandstöðunnar sem lagðist gegn því. Það var auðvitað skýringin á því að það eru ekki sambærilegar tölur. Það segir það auðvitað að þetta mál er að því leytinu til miklum mun stærra og þar af leiðandi eðlilegt að í það fari lengri tími til umræðu. (Gripið fram í.) Andstaðan er miklum mun stærri, hæstv. ráðherra, ég vona að hæstv. ráðherra sé nú ekki búin að gleyma því því að ég man ekki betur en hæstv. ráðherra hafi verið … (Menntmrh. : Er meiri andstaða við RÚV en við Kárahnjúka?)

(Forseti (JóhS): Ekkert tveggja manna tal hér.)

Ég man ekki betur en hæstv. ráðherra hafi verið töluvert hér í þingsölum í þá tíð þegar þau mál voru rædd. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra muni það að það var miklum mun minni hluti af stjórnarandstöðunni sem lagðist í hreina og klára andstöðu í því máli en í þessu máli. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sem ég er að segja og ég er ekki í nokkrum vafa og hef aldrei verið í vafa, eins og hæstv. ráðherra man vonandi, um afstöðu mína í því máli (Gripið fram í: Ég er farin að efast.) og ég leyfi mér nú ekki einu sinni að láta mér detta það í hug að hæstv. ráðherra láti sér detta einhvern efa í hug þegar það mál er rætt. Auðvitað er ekki hægt að banna hæstv. ráðherra að láta ýmsar hugsanir fara í gegnum höfuðið en ég vona að það sé nú fyrst og fremst sagt í gríni sem hér var sagt.

Hæstv. ráðherra var síðan að leika sér með tölur og tengdi þær við ýmis mál og fór svo að velta lýðræðinu fyrir sér. Það var afar sérkennilegur kafli í ræðu hæstv. ráðherra varðandi lýðræðið og þar velti hún því upp hvort það væri andstætt lýðræðinu að ekki væru greidd atkvæði — ja, ég áttaði mig eiginlega ekki á því á hvaða stundu vegna þess að ýmist var hæstv. ráðherra að finna að því að umræðan væri löng en kom svo skömmu síðar og taldi það ekki til fyrirstöðu að hér ættu helst allir hv. þingmenn að tjá sig sem allra, allra mest. Enda er það í samhengi við það sem síðar kom fram í ræðu hæstv. ráðherra varðandi atkvæðagreiðslu að einhverjir óttuðust atkvæðagreiðslur og var að reyna að tengja þetta mál við það að stjórnarandstaðan óttaðist atkvæðagreiðslu um málið og væri þess vegna að ræða það svo mjög.

Ef við setjum þetta nú í samhengi við annað og veltum lýðræðinu áfram fyrir okkur þá er hæstv. ráðherra væntanlega á því að það sé mjög í anda lýðræðisins að meiri hlutinn hleypi ekki hér til atkvæðagreiðslu fjölda mála sem hv. þingmenn leggja fram. Það er alkunna að fjöldi þeirra mála er þess eðlis að stór hluti af hv. þingmönnum í stjórnarliðinu treystir sér hreinlega ekki til þess að greiða atkvæði um þau og það er auðvitað meginskýringin á því að þau koma ekki hér til atkvæðagreiðslu. Það á því við þetta eins og svo margt annað að margur heldur mig sig og mér sýnist það vera augljóslega tengt þessari umræðu hæstv. ráðherra. Að sjálfsögðu er það ekki þannig að stjórnarandstaðan geti komið í veg fyrir að mál komi til atkvæða. Hins vegar er það þannig að meiri hlutinn getur og hefur margoft komið í veg fyrir það, ýmist með því að mál komast ekki á dagskrá og eru aldrei rædd hér eða eru send til nefnda og aldrei afgreidd úr nefndum og koma þar af leiðandi aldrei til atkvæða. Það er eina dæmið um að komið sé í veg fyrir að greidd séu atkvæði um mál.

Það er hins vegar mjög mikilvægur réttur minni hluta að geta rætt mál í þaula og réttur minni hluta er líka þannig að í stórum og mikilvægum málum sem mikilvægt er t.d. að ná samstöðu um er eðlilegt að minni hlutinn geri ítrekaðar tilraunir til þess að bæta mál eins og kostur er og ef minni hlutinn metur svo að það sé slíkt slys að mál fari í gegn þá sé rétturinn nýttur eins og eðlilegt getur talist við það að reyna að koma þeim skilningi inn hjá meiri hlutanum.

Þessi umræða öll sem hæstv. ráðherra hóf um lýðræðið og hinar mörgu hliðar þess tengist því sem örlítið hefur verið rætt undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta, þ.e. ummæli virðulegs forseta í gær um breytingu á þingsköpum. Það er mjög eðlilegt að farið sé yfir þingsköpin með reglubundnum hætti þannig að það sé reynt að bæta þau eins og kostur er. Það er afar mikilvægt og raunverulega nauðsynlegt, t.d. þegar virðulegur forseti fer í fjölmiðla að ræða slík mál að þau séu rædd í samhengi þannig að einstaka þættir séu ekki teknir úr samhengi og gerðir að eina eða aðalatriði máls. Það er t.d. afar mikilvægt þegar slíkar breytingar eru gerðar að réttur minni hlutans sé ekki fyrir borð borinn þannig að meiri hlutinn átti sig á því að það þarf að taka tillit til minni hlutans og á sama hátt er nauðsynlegt að minni hluti taki tillit til meiri hluta.

Mér þótti, frú forseti, hæstv. menntamálaráðherra tala heldur gáleysislegan um þetta mál og ég tala nú ekki um þegar hæstv. ráðherra fór að ræða um mikilvægi samstöðunnar eða hina víðtæku sátt um Ríkisútvarpið, um þetta mál, vegna þess að það er auðvitað þannig og við höfum býsna margir hv. þingmenn einmitt talað um nauðsyn þess að í því máli sé reynt að ná sem víðtækastri sátt vegna þess hvers eðlis Ríkisútvarpið er. Frú forseti. Ég held að í gegnum tíðina hafi menn einmitt lagt gífurlega áherslu á samstöðu um þessa miklu menningarstofnun sem hefur gegnt gífurlega mikilvægu hlutverki í þjóðlífinu og mér heyrðist á hæstv. ráðherra miðað við þau mörgu stóru orð sem hæstv. ráðherra lét falla um hlutverk Ríkisútvarpsins að það séu ekki enn þá nein vandkvæði á því að mynda mikla samstöðu um þau markmið. Ég tel fullvíst að hægt væri að ná sátt um þau markmið sem hæstv. ráðherra nefndi og síðan að setjast niður og fara yfir það hvaða leiðir væru vænlegastar til þess að ná þeim markmiðum.

Ég fullyrði t.d., frú forseti, að það sem hæstv. ráðherra fór með rétt undir lok ræðu sinnar sem byrjaði á því „við viljum“ og síðan kom mikil upptalning á því sem „við viljum“, þá heyrði ég ekki betur en það ætti trúlega við flesta hv. þingmenn sem gætu sagt hið sama: „við viljum“. En það var athyglisvert að ég tók ekki eftir að eitt einasta atriði af upptalningu hæstv. ráðherra kallaði á þá rekstrarformsbreytingu sem hér er gerð tillaga um. Það væri hægt að ná öllum þessum markmiðum án þess að fara í það og án þess að setja Ríkisútvarpið í þann öldusjó sem búið er að gera og verður augljóslega áfram gert.

Hæstv. ráðherra gerði að nokkru umtalsefni þá skoðun okkar samfylkingarmanna að sjálfseignarstofnunarformið væri best fyrir stofnun eins og Ríkisútvarpið. Hún kom síðan með gamalkunn rök um það af hverju ekki væri hægt að nota sjálfseignarstofnunarformið. Það voru eiginlega einu rökin, það var gallinn á löggjöfinni, að hún væri ekki nógu skýr og þess vegna væri ekki hægt að notast við þetta form því þá yrðu lögin um Ríkisútvarpið allt of flókin og það ætti að setja það allt saman þar inn.

Frú forseti. Hefði markmið hæstv. ráðherra verið það strax í upphafi að fá sem allra mesta sátt um þær breytingar sem þarf að gera á Ríkisútvarpinu þá hefði að sjálfsögðu verið hægt að nýta betur allan þann tíma sem farið hefur í þetta mál, en nú er m.a. búið að afgreiða það fimm sinnum út úr menntamálanefnd. Ég er alveg sannfærður um að ef það hefði verið sest niður strax hefði verið hægt að margbreyta löggjöfinni um sjálfseignarstofnanir og bæta hana.

Hæstv. ráðherra nefndi Dani sem dæmi og við höfum áður sótt okkur lærdóm til Dana og það hefði ábyggilega ekki verið erfitt mál að sníða okkar löggjöf í átt að þeirri dönsku. En það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að mismunandi hefðir ríkja í löndum og danska hefðin fyrir sjálfseignarstofnunum er ríkari gagnvart ýmissi þjónustu eða opinberum stofnunum og þess vegna hefðum við auðvitað getað sótt okkur lærdóm þangað. En málið er það, frú forseti, að þetta hefur auðvitað breyst í seinni tíð vegna þess að ákafi hluta Sjálfstæðisflokksins til einkavæðingar á ýmsum sviðum hefur verið slíkur að þeir hafa ekki gefið sér tíma til þess að fara yfir þetta heildstætt og m.a. nálgast nútímann með því að breyta löggjöfinni um sjálfseignarstofnanir og nýta sér það síðan. Það hefur verið einblínt á hlutafélög og það heyrðist mjög greinilega í ræðu hæstv. ráðherra að í huga hennar eru hlutafélög eitthvað sem maður gæti ætlað að nálgaðist trúarbrögð, slík var hrifningin og gleðin við það … (Gripið fram í.)

Frú forseti. Nú heyrði ég ekki frammíkall hv. þingmanns þannig að (Gripið fram í.) já, það mætti ætla, frú forseti, eins og hv. þingmaður bendir á, að hæstv. ráðherra líti svo á að það séu góðar líkur á því að allt sem gott sé sé rekið sem hlutafélag og þá sé jafnvel himnaríki ekki undanskilið. Það sást meira að segja á fari hæstv. ráðherra og gleðinni sem skein út úr andlitinu þegar hlutafélagið var nefnt að það var eins og það væri allsherjarbjargvættur á öllum sviðum. (Gripið fram í.) Já, betra og best trúi ég, miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði.

En m.a. vegna hrifningar hæstv. ráðherra á hlutafélaginu og hinni pólitísku þráhyggju sem við höfum orðið vör við undanfarin ár, þá vitum við að til þess að skapa hið opinbera hlutafélag er fjöldi undantekninga frá almennu lögunum um hlutafélög. Þetta form kallar á margs konar aðra þætti og það er ljóst þó að hæstv. ráðherra segi m.a. um athugasemdir ESA að ESA sé ekki beint að finna að því að verið sé að breyta þessu í hlutafélag, að þá er meginhluti athugasemda ESA tengt því að það er verið að gera það. Það eru viðbrögðin við því og meginhluti vinnunnar í kringum þetta felst í því að reyna að láta þetta passa við það form.

Vissulega eru til ýmsar aðrar leiðir, eins og við höfum bent á þegar við höfum verið að leita sátta í málinu, og að við værum ekki algjörlega bundin í því að það þyrfti að vera absalútt sjálfseignarstofnun. Við höfum opnað á ýmsa aðra möguleika og í síðustu tilraun okkar til að ná sátt um málið buðum við að farið yrði í að skoða þá og það afgreitt á skömmum tíma vegna þess að umræðan hefur verið það mikil að við vitum nokkurn veginn hvað það er sem þarf að gera til að bæta Ríkisútvarpið og vissulega hafa flestir tekið undir að það þurfi. Við buðum það sem sagt í okkar seinustu tilraun til að ná sátt um málið að taka þau mál út fyrir, klára þau hér svo hægt væri að vinda sér í þá vinnu sem hefði raunverulega þurft að vera byrjað á fyrir löngu ef þessi trúarbrögð væru ekki við lýði hjá Sjálfstæðisflokknum í málinu sem hefur síðan smám saman færst yfir á Framsóknarflokkinn. Eins og hv. þingmenn og virðulegur forseta vita hefði verið hægt að breyta þessu fyrir margt löngu. Ekki var hægt að verða við þeirri ósk og við vorum meira að segja tilbúin til að ganga frá samkomulagi um að það yrði með fyrstu verkum á hausti að klára málið að öðru leyti.

Við höfum líka gengið lengra en þetta eins og sagt hefur verið frá bæði hér, ef ég man rétt, í þessum sal og í fjölmiðlum að við höfum meira að segja boðið það, til að leysa þann hnút sem þinghaldið hefur verið í, að breyta einu ákvæði í frumvarpinu, þ.e. gildistökuákvæðinu, sem nú er búið að breyta miðað við tillögu meiri hlutans í 1. apríl næstkomandi. Við höfum sagt að við værum tilbúin til þess í umræðu að fara aðeins yfir ákveðna þætti sem við teldum nauðsynlega sem þyrfti þá ekki að taka mjög langan tíma ef stjórnarliðar væru tilbúnir til að setja gildistökuákvæðið hinum megin við kosningarnar. Eins og virðulegur forseti veit er ekki langt á milli 1. apríl og 12. maí. Þetta er nú ekki stórvægilegt. Allt tal, m.a. hæstv. menntamálaráðherra og fleiri hv. þingmanna, um að stjórnarandstaðan sé á einhvern hátt að koma í veg fyrir að brýn mál séu rædd hér á þingi á ekki við. Ég get tekið heils hugar undir með hæstv. menntamálaráðherra að hér bíða mjög mörg brýn mál sem nauðsynlegt væri að ræða. Þess vegna er það algjörlega með ólíkindum að meiri hlutinn skuli ekki ljá því máls að ganga einmitt í það að tryggja að við getum rætt mörg brýn mál. En það virðist ekki vera því að hin pólitíska þráhyggja er slík og líka það sérkennilega viðhorf sem hefur komið nokkrum sinnum fram hjá hv. þingmönnum í stjórnarliðinu að af því að þeir mynda ríkisstjórn og eru í meiri hluta þá eigi þeir að ráða og minni hlutinn eigi bara að sitja og standa eins og meiri hlutinn vill. Þetta er afar hættulegt viðhorf og eðlilegt að sumir velti fyrir sér hvernig á því standi að þetta sé enn við lýði, því að ýmsir héldu að breyting hefði orðið á við forustubreytingu í Sjálfstæðisflokknum en það er augljóst mál að arfurinn hefur gengið áfram og þetta viðhorf virðist vera afar ríkjandi enn þá gagnvart þessu.

Það er alveg nýtt þegar hæstv. ráðherra gefur í skyn að það sé stjórnarandstaðan sem stjórni þinghaldinu. Það er auðvitað af og frá. Um það hafa nokkrum sinnum orðið umræður í þingsal við virðulegan forseta. Því miður virðist það vera svo, að virðulegur forseti líti of oft á það sem hlutverk sitt að tryggja hraðari málsmeðferð mála sem ríkisstjórnin kemur með en þeirra sem hv. þingmenn koma með, ég tala nú ekki um hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem þurfa að búa við það, oft ár eftir ár, að mál þeirra ýmist komast ekki á dagskrá eða týnast í nefndum. En það er hægt að taka mál framkvæmdarvaldsins og setja þau í sérstakan forgang á tvöföldum eða þreföldum hraða í gegnum þingið allt eftir því hvað hæstv. ráðherrar telja nauðsynlegt. Sú umræða sem verður í þeim hópi sem virðulegur forseti hefur sett af stað til að endurskoða þingsköpin leiðir vonandi til að þessir þætti verði teknir fyrir og farið yfir þá.

Frú forseti. Fyrst hæstv. menntamálaráðherra hefur aftur birst í salnum er rétt að rifja aðeins upp hina sérkennilegu talnameðferð hæstv. ráðherra, ekki varðandi mínúturnar og klukkustundirnar og meðaltölin í umræðulengdinni heldur þann talnaskilning sem embættismaðurinn útvarpsstjórinn hefur farið með á opinberum vettvangi. Það er varðandi hina merku könnun, skoðanakönnun sem hæstv. ráðherra fór svolítið yfir og tilkynnti okkur, sem er auðvitað hið besta mál, að Ríkisútvarpið skuli á tveggja ára fresti kanna reglulega viðhorf þjóðarinnar til stofnunarinnar og þeirrar þjónustu sem þar fer fram. En varðandi þessa einu spurningu sem hæstv. ráðherra og útvarpsstjórinn hafa farið fram með og fullyrt að meiri hluti styðji þessa breytingu á rekstrarforminu, þá er vægt til orða tekið afar frjálslega farið með staðreyndir. Þegar tölurnar eru skoðaðar kemur í ljós að 46,1%, ef við tökum þá sem svara að þeir séu ánægðir með breytinguna og þá sem eru ánægðir og frekar ánægðir, þá fáum við samanlagt 46,1%. Þetta verður að meiri hluta hjá bæði hæstv. menntamálaráðherra og embættismanni hæstv. menntamálaráðherra, útvarpsstjóranum. Ég átta mig ekki alveg á hvar og hvernig þetta ágæta fólk lærði stærðfræði, frú forseti, en ég hef aldrei áður heyrt að 46% geti verið meiri hluti. Þetta er því algjörlega nýr skilningur og á margan hátt athyglisverður. (Gripið fram í: Hvaða form var … könnuninni?) (Gripið fram í.) Ja, það er athyglisvert, frú forseti, að þessi spurning er nefnilega leidd inn með smáinngangi í könnuninni og er svona til viðbótar. Eins og allir þekkja með skoðanakannanir, ég tala ekki um ef þær eru nokkuð langar, þá verða svörin kannski undir lokin ekki alveg jafnmarktæk og hin. En umrædd könnun var þannig að verið var að spyrja, eins og ég sagði áðan, um afstöðu fólks til Ríkisútvarpsins og eins og við vitum er hún almennt mjög jákvæð. En undir lok könnunarinnar er staðhæft að til standi að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins og gera það að hlutafélagi í eigu ríkisins.

Í framhaldinu er spurt, frú forseti, og mikilvægt er að við heyrum spurninguna nákvæmlega þannig að við getum dregið ályktanir af svörunum, en spurningin er svona, með leyfi forseta:

„Ertu almennt ánægð/ánægður eða óánægð/óánægður með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag?“

Með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag. Með þeirri spurningu er í raun verið að gefa til kynna að þetta rekstrarform sé orðin staðreynd og ef fólk hefur ekki fylgst þeim mun betur með gæti það haldið, vegna þess að það er náttúrlega búið að segja almennt að það sé mjög ánægt með þjónustuna, að töluvert ósamræmi væri í því að vera þá ekki ánægður með rekstrarformið ef þjónustan hefur verið svona góð, sem þeir eru búnir að svara áður. Hér þarf því að hafa allan fyrirvara á, til viðbótar við það að 46% geta aldrei orðið meiri hluti, nema (Gripið fram í: Hvað var mikil ánægja?) að vísu geta 46% hugsanlega í einhverju undarlegu samhengi skapað meiri hluta hér á þingi, það er aðeins hugsanlegt eftir því hvernig skipting er, það gæti verið.

Frú forseti. Ég heyrði að hv. þingmaður var að spyrja um ánægjuna. Þegar spurt var um ánægjuna voru það 12,6%, en svo voru frekar ánægð 33,5%, stór hópur. En næststærsti hópurinn er sá hópur sem segir hvorki/né, hann er alveg upp á 23,7% og skiptir auðvitað miklu máli. Það er orðið nokkurs konar hlutleysi og við vitum, eins og ég sagði áðan, að þegar liðið er nokkuð á til þess að gera langa könnun svara óvart margir — maður þyrfti kannski að skoða könnunina miklu nánar til að geta dregið ályktanir varðandi aðrar spurningar. (Gripið fram í: Hvað voru margir óánægðir?)

Já, varðandi óánægjuna eru 16,4% frekar óánægð og 13,8% eru mjög óánægð. Samanlagt er þetta 30,2%, af því að þetta eru 16,4% og 13,8%. Þetta fer yfir 30%. Við sjáum því að munurinn á þessum hópum er ekki stór og síðan má hafa efasemdirnar. En alla vega, það er algjörlega ljóst að — (Gripið fram í: … mínu máli.) Já, þetta virtust vera, frú forseti, gífurlega mikilvæg rök í málinu og hæstv. ráðherra dró m.a. þá ályktun, væntanlega af þessari könnun, að stjórnarandstaðan væri algjörlega úr takti við þjóðarsálina.

Væri það rétt hjá hæstv. ráðherra væri eðlilegt framhald af því að hæstv. ráðherra hefði tekið því boði um að færa gildistökuna aftur fyrir kosningar vegna þess að ef þjóðarsálin er með stjórnarliðinu í málinu er það væntanlega hið besta mál fyrir ríkisstjórnarflokkana að láta kosningarnar snúast meira og minna um þetta. Því miður er ekki alltaf samhengi í öllu sem sagt er og reynt er að nýta sér ákveðna þætti frekar en aðra og tengja þá á mismunandi hátt.

Frú forseti. Ég kom aðeins inn á það í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra áðan að mér þætti það eiginlega ómaklegt í garð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, að gefa í skyn að hv. þingmaður sem, eins og við höfum margoft sagt, hefur nokkuð lagt sig fram í störfum menntamálanefndar en við höfum skynjað það á ræðum hv. þingmanns að þegar varaformaður hans, hæstv. menntamálaráðherra, gefur út einhverjar fyrirskipanir beri öðrum að hlýða. Þannig virðist valdapýramídinn vera í þeim flokki og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur verið að reyna að setja þennan valdapýramída yfir á aðra flokka en það hefur eiginlega ekki gengið upp í máli hans, en við skiljum að það sé kannski eðlilegt að hv. þingmaður miði við það sem hann þekki og telji að sé eins alls staðar annars staðar og eyddi hann þess vegna gífurlega löngum tíma í ræðu sinni í að ræða um þetta merka embætti, varaformannsembættið.

Ég verð að segja eins og er, frú forseti, og endurtaka að mér þótti þetta ómaklegt þó að hæstv. ráðherra hafi hugsanlega talið að hv. þingmaður ætti eitthvað inni hjá sér eftir allt þetta tal um varaformann sem við ýmsir skildum á þann hátt að gætu verið svona óljós skot á hæstv. menntamálaráðherra, sem ber meginábyrgðina á því að hafa sett hv. þingmann í þau störf sem hv. þingmaður hefur verið að reyna að leggja sig fram um. En það hefur oft og tíðum valdið undrun að hv. þingmaður, sem sannarlega er þeirrar skoðunar að selja beri Ríkisútvarpið, skuli hafa látið hafa sig út í þetta mál ef það er ekki markmiðið eins og hæstv. ráðherra segir. En hægt er að færa töluverð rök fyrir því að með frumvarpinu sé einmitt verið að stíga skref í þá átt.

Aðeins aftur að því sem hæstv. ráðherra bar á hv. formann menntamálanefndar — auðvitað ekki einan — í ræðu sinni, frú forseti, en sagt var að hv. þingmenn í menntamálanefnd, hefðu þeir lesið ákveðin gögn á ákveðinn hátt, hefðu hv. þingmenn átt að gera sér grein fyrir að samskiptum við ESA væri ekki lokið, þ.e. þeir hefðu átt að gera sér grein fyrir að það væru gögn í málinu. Ég get ekki ímyndað mér að hæstv. ráðherra hafi verið að undanskilja formann menntamálanefndar frá því að hafa lesið gögnin vel og áttað sig á því máli á þennan hátt, því þar er auðvitað eins og við vitum styst á milli. Það er styst á milli formanns menntamálanefndar og hæstv. ráðherra þegar svona mál eru í vinnslu, ég tala ekki um svona lengi, og þess vegna er alveg með ólíkindum að þetta skuli aldrei hafa verið rætt í væntanlega fjölmörgum samtölum þeirra í millum. En hæstv. ráðherra taldi eðlilegt að fram kæmi að þetta hefðu menn átt að vita og taldi það að leyna gögnum væri víðs fjarri öllu vegna þess að það hefði aldrei staðið til að láta ekki menntamálanefnd hafa þau gögn sem beðið væri um og færði þau rök að menntamálanefnd hefði þar af leiðandi átt að vita af þessum gögnum allan tímann.

Ég get rifjað upp að áður voru vissulega gerðar tilraunir til að ræða einmitt þennan þátt málsins í menntamálanefnd. Við höfðum í minni hlutanum töluverðan áhuga á því. Meiri hlutinn virðist hafa haft minni áhuga á að ræða málið. Í þinghléinu var sérstaklega farið yfir þessa þætti og komu nokkrir gestir, m.a. á seinustu stigum málsins frá fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti, til að ræða þessa þætti. Áður hafði Ólafur Friðriksson skýrt fyrir okkur þá þætti málsins sem hann hafði kynnt sér sérstaklega í háskólanámi sínu. Við vorum þannig að leita eftir áliti ýmissa sérfræðinga.

Á ákveðnum tímapunkti var ákveðið að hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, kannaði í menntamálaráðuneytinu hvort þaðan væri hugsanlega einhverjar upplýsingar að hafa til að skýra málið betur. Hv. þingmaður kom á næsta fund og tilkynnti að svo væri ekki, að hann hefði fengið þau svör í ráðuneytinu að svo væri ekki. Vera má að hv. þingmaður hafi ekki spurt nákvæmlega um þessi gögn. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig spurt var en við ræddum ýmsar hliðar á samskiptunum við ESA. Með það fór hv. þingmaður með erindi til menntamálaráðuneytisins til að átta sig á hvort þar væri eitthvað frekar að hafa. Í ljós kom að svo virtist ekki vera.

Við tökum hæstv. ráðherra trúanlegan varðandi það að ekki hafi verið ætlunin að leyna einu eða neinu. Þess vegna er óskiljanlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki nota tækifærið til að biðjast afsökunar á því að þetta skuli ekki hafa komið fram. Að sjálfsögðu hefði sú afsökunarbeiðni verið tekin til greina í svona flóknu máli þar sem margir starfsmenn ráðuneytisins koma nálægt mismunandi þáttum sem tengjast ESA, Evrópusambandinu og EFTA. Það geta vel verið skýringar á þessu en mér þykir það býsna langt gengið að gefa til kynna að menntamálanefnd í heild sinni, m.a. háttvirtur formaður, hafi hreinlega átt að vita þetta og hefði átt að spyrja um þetta, um nákvæmlega þessi gögn og engin önnur. Ég verð að reyna að verja formann nefndarinnar þegar svo ómaklega er á hv. þingmann ráðist. Ég vona að mér hafist tekist að reisa við formann minn í menntamálanefnd þrátt fyrir ásakanir hæstv. menntamálaráðherra í hans garð.

Fleira hefur komið til varðandi þátt ESA í málinu. Hæstv. ráðherra fjallaði m.a. um verðlagningu auglýsinga, og hvernig það tengdist þessum málum. Það er athyglisvert að skoða það. Við þurfum ekki að fara í ESA-gögnin til þess. Við getum skoðað niðurstöður Samkeppniseftirlitsins og sett þær í samhengi við það sem samtök auglýsingafólks hafa bent á, en fullyrt var af þeim sem koma nálægt auglýsingamálum að Ríkisútvarpið tryggði ódýrari auglýsingar. Út af fyrir sig er allt gott um það að segja fyrir þá sem þurfa að auglýsa. Þeir geta auglýst sem ódýrast. En þegar það er sett í samhengi við að Ríkisútvarpið nýtur ríkisstyrkja erum við hins vegar komin á grátt svæði.

Samkeppnisaðilar munu væntanlega kæra vegna auglýsingamarkaðarins. Það er erfitt að staðsetja línuna þarna á milli. Hvenær er ríkisstyrkurinn notaður til að halda niður auglýsingaverði? Hvenær er ríkisstyrkurinn notaður til að setja á dagskrá efni sem dregur að meira af auglýsingum en ella? Þær skilgreiningar hljóta alltaf að vera mjög erfiðar. Það hefur komið fram að því meiri hömlur sem settar eru á auglýsingar og kostun því líklegra er að málið standist. Hömlurnar sem komu í 2. umr. frá meiri hlutanum voru vægast sagt afar sérkennilegar og í raun engar hömlur. Þar var eingöngu sagt að kostunarhlutfallið mætti ekki vera meira en það er nú. Það segir ekkert um að það útiloki að hlutur auglýsinga og kostunar í heild sinni verði meiri en hann er nú. Þetta kallar eingöngu á að það sé samhengi þarna á milli, að ef Ríkisútvarpið nær að auka auglýsingatekjur sínar megi hlutfallið halda í við það og kostunin aukast líka í fullu samræmi. Pakkinn sem slíkur getur því vaxið. Ég segi ekki að það verði út í hið óendanlega, en það gæti orðið töluvert.

Við höfum reynt að fá umræður um auglýsingatekjur. Við töldum að t.d. með því að sitja eitthvert þak á þetta og stefna að því að draga úr hlut auglýsinga í tekjunum nálguðust menn það frekar að fá frið um málið, sem við höfum alltaf lagt megináherslu á. Við teljum að Ríkisútvarpið sé þannig stofnun að sem allra mestur friður þurfi að ríkja um hana. Þess vegna er með ólíkindum að keyra málið í slíkan ófrið sem í stefnir. Maður léti það vera ef deilurnar um frumvarpið væri endapunkturinn á ófriðnum um Ríkisútvarpið. Þá væri hugsanlega hægt að sætta sig við það og þá væri það tímabil frá. En við getum ekki fagnað því þar sem verði frumvarpið að lögum mun ófriðurinn magnast upp. Það liggur algjörlega fyrir að samkeppnisaðilar munu kæra ýmsa þætti.

Margt er óljóst. Ég nefndi tenginguna á ríkisstyrknum og auglýsingunum. Samkeppniseftirlitið benti á að samkeppnisleg mismunun ætti sér stað með frumvarpinu yrði það að lögum. Fram kom á fundi nefndarinnar með forsvarsmönnum Samkeppniseftirlitsins að þeir teldu skyldu sína að vekja á þessu athygli. Þeir sögðu um leið að þetta væri pólitísk ákvörðun sem Alþingi gæti tekið. Alþingi hefði löggjafarvaldið en ekki Samkeppniseftirlitið. En þeir töldu algjörlega ljóst að þarna væri keyrt gegn samkeppnislögum og það þyrftu menn að vita. Samkeppniseftirlitið telur jafnframt skyldu sína að fylgjast með stofnuninni til að meta hvort athugasemdir yrðu gerðar við ákveðna hluti.

Jafnframt komu fram tillögur um það hvernig mætti bæta ástandið. Bent var á tvær leiðir. Annars vegar að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði. Segja má að það sé markmið sem menn hljóta að horfa til og þá væri þetta býsna skýrt. Þá væri ríkisstyrknum ætlað að sjá um það almannaútvarp sem þarna er um að ræða og væri ekki hægt að deila um þann þátt. Hin leiðin sem Samkeppniseftirlitið benti á var að setja þetta á sérrás, þ.e. að það væri annars vegar rás sem væri á ríkisstyrknum og hins vegar önnur rás í samkeppni. Ég er á því að sú leið sé mun erfiðari. Þar verður nákvæmlega sama sagan og komið hefur fram í máli ýmissa gesta hjá nefndinni. Hann verður alltaf strembinn þessi aðskilnaður á hinum hreina samkeppnisþætti og síðan almannaútvarpinu sem á að keyra eingöngu á ríkisstyrknum.

Því miður stefnir ýmislegt í það, verði frumvarpið að lögum, að langt sé í að friður skapist um Ríkisútvarpið. Það er auðvitað þess vegna sem margir hafa spurt: Af hverju er lagt af stað í þennan leiðangur? Skyldi megintilgangurinn vera sá að skapa ófrið um Ríkisútvarpið? Við getum látið hugann reika og velt fyrir okkur í hvaða vanda Ríkisútvarpið lendir ef þessi málaferli fara af stað. Ríkisútvarpið mundi hugsanlega tapa einhverju af þessum málum, t.d. ef í ljós kæmi að ríkisstyrkurinn hefði verið notaður til að greiða niður auglýsingar, halda niðri auglýsingaverði. Þá gæti Ríkisútvarpið lent í að þurfa að skila hluta af ríkisstyrknum til baka. Það gæti skapað slíkan vanda í rekstri stofnunarinnar að vandséð væri fyrir hana að vinna sig út úr honum. Ófriðurinn mundi síðan halda áfram.

Við höfum bent á að þetta geti einmitt verið tilgangurinn með þessu öllu, að flýta fyrir því áhugamáli margra að einkavæða Ríkisútvarpið. Mér þótti athyglisvert þegar hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að allt tal um að þetta væri skref til einkavæðingar væri hreinn og klár tilbúningur og enginn stjórnmálaflokkur hefði á stefnuskrá sinni að selja Ríkisútvarpið. Þetta er allt saman rétt. En það er væntanlega ljóst í huga hæstv. ráðherra að hluti af Sjálfstæðisflokknum er á þeirri skoðun að selja eigi Ríkisútvarpið. Að minnsta kosti þrír hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um það. Í þeim hópi er m.a. formaður menntamálanefndar sem miðað við framgöngu sína virðist hafa gífurlega mikla sannfæringu fyrir málinu.

Einn hv. þingmaður, meðflutningsmaður hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, Pétur H. Blöndal, hefur auk þess sagt að hann styðji frumvarpið vegna þess að það auðveldi sölu Ríkisútvarpsins síðar. Þar er komin hluti af skýringunni. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er afar hreinskilinn og talar oft beint frá hjartanu svo ég vitni í orðalag hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hann ræddi töluvert um annan hv. þingmann í ræðu sinni í gær. Það sem hæstv. ráðherra sagði áðan var beint að hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég trúi því að hv. þingmaður hljóti þar af leiðandi að velta fyrir sér hvort hann styðji frumvarpið eða ekki. Eða veit hv. þingmaður kannski betur og tekur ekki fullt mark á orðum hæstv. ráðherra? Hann segir eins og áður að þetta auðveldi sölu Ríkisútvarpsins, enda er það hárrétt hjá hv. þingmanni. Þetta auðveldar söluna. Þetta er ekki salan sjálf en breytingin auðveldar hana.

Hæstv. ráðherra vildi meina að frumvarpið breytti engu í þá veru og alltaf þurfi einfaldan meiri hluta á þingi til að selja. Ég held að allir hv. þingmenn viti að engin ríkisstofnun er seld ef lög hljóða upp á annað. Lögum þarf að breyta ef selja á viðkomandi stofnun. Hæstv. ráðherra fór síðan aðeins í átt að Framsóknarflokknum varðandi setninguna frægu í 1. gr., sem er eiginlega skemmtiefni hjá okkur flestum. Þar var hægt að beygja heilan stjórnmálaflokk með einni setningu, sem margoft hefur komið fram á fundum menntamálanefndar að breytir akkúrat engu. Þar á orðalag hæstv. ráðherra við. Sú setning breytir akkúrat engu vegna þess að það þarf alltaf einfaldan meiri hluta á þingi ef áhugi er fyrir því að selja. Þess vegna skiptir setningin engu máli.

Hér sé ég í gögnum mínum frétt þar sem sérstaklega er staðfest það sem ég hafði talið mig muna rétt um hv. þm. Pétur H. Blöndal. Að vísu er líklega rétt að hafa það eins og segir í Fréttablaðinu þann 25. apríl 2006 því ég notaði víst annað orð og sagði að hv. þingmaður hefði sagt að þetta auðveldaði söluna. Það er auðvitað sama merkingin en það er haft eftir hv. þingmanni í Fréttablaðinu, með leyfi forseta:

,,Pétur H. Blöndal gerði grein fyrir atkvæði sínu og kvaðst greiða atkvæði með frumvarpinu þar sem það væri skref í þá átt að einkavæða Ríkisútvarpið.“

Rétt skal vera rétt. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég var heldur ónákvæmur í orðalagi áðan. En hér er þetta komið algerlega kórrétt. Þess vegna er eðlilegt að ég hafi vakið athygli á því að hæstv. ráðherra hafi verið að reyna að setja ofan í við hv. þingmann með því að segja að frumvarpið breytti engu. Þvert á það sem hv. þingmaður sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu, að ástæðan fyrir því að atkvæði hv. þingmanns féll eins og það gerði væri að þetta væri skref í þá átt að einkavæða Ríkisútvarpið. Hv. þingmaður sem er oft býsna glöggur að greina á hvaða leið hlutir eru sagði þetta.

Þá kem ég að því sem hæstv. ráðherra átti í miklum erfiðleikum með að skilja. (Gripið fram í: ... ESA?) Ég átta mig ekki alveg á frammíkalli hv. þingmanns varðandi ESA vegna þess að ég er hræddur um að hv. þingmaður hafi misst af þeim kafla ræðu minnar þar sem ég fór svolítið yfir þau mál. (Gripið fram í.) Nú skil ég, frú forseti. Hv. þingmaður telur sig vera í liði með ESA (Gripið fram í: Öfugt.) eða ESA í liði með hv. þingmanni. Hv. þingmanni líður greinilega betur með að heyra það í þeirri röð, að ESA sé í liði með hv. þingmanni um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég vona að hv. þingmaður komi í ræðustól og færi rök fyrir því og segi okkur frá því hvernig hann hafi náð ESA í lið með sér í málinu. Það eru stórmerk tíðindi að hv. þingmaður hafi slík áhrif vítt og breitt um heim að það séu ekki minni apparöt en ESA í liði með honum þegar mikið liggur við. Ég veit að hv. þingmaður meinar það svo sannarlega að hann er mikill áhugamaður um að einkavæða Ríkisútvarpið og hefur aldrei falið það. Ég geri ráð fyrir að þeir hv. þingmenn sem með honum eru á því frumvarpi sem ég nefndi áðan séu sömu áhugamenn um það og sama skýring sé á stuðningi þeirra við það frumvarp sem við ræðum, að þeir telji að þetta sé skref í átt að einkavæðingu Ríkisútvarpsins.

Ég ætlaði einmitt að koma að því núna sem hæstv. ráðherra átti erfitt með að skilja og vildi meina að væri eitthvað sem við þyrftum að koma okkur saman um í stjórnarandstöðunni, held ég að hæstv. ráðherra hafi sagt, hvort um sé að ræða ríkisvæðingu eða einkavæðingu. Hvort væri eiginlega á ferðinni? Málið er að mínu mati afskaplega einfalt. Það er hvort tveggja á ferðinni. Ríkisvæðing snýr að ríkisstyrknum, á þeim þætti Ríkisútvarpsins er auðvitað um ríkisvæðingu að ræða. Í gegnum hlutafélagaformið er það sett inn til þess, eins og ég reyndi að segja áðan, að fara skrefið sem hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson telja að verið sé að stíga með þessu, að auðvelda einkavæðinguna. Það er að segja með því að gera þetta á þann hátt sem hér er lagt til mun skapast ófriður um Ríkisútvarpið. Það verður mikið af kærum. Það verða mikil vandræði í ýmsum þáttum sem frumvarpið, ef það verður að lögum, mun orsaka. Það mun veikja, því miður, Ríkisútvarpið. Það mun hugsanlega þegar vandinn er orðinn stór, ef Ríkisútvarpið tapar t.d. einhverju máli fyrir dómstólum, þ.e. þegar dómstólar fara að ákveða starfsumhverfi Ríkisútvarpsins sem er auðvitað verkefni okkar hér en ekki dómstóla. En uppgjöf eða skorturinn á samstöðu í stjórnarliðinu um það hvaða leið þarf að fara til að skapa þetta starfsumhverfi orsakar það að samstaða verður um eitthvert klúður.

Við þekkjum þetta auðvitað úr þingsögunni. Það er meira að segja þannig að stjórnarandstaðan, ég ætla ekki að skorast undan því, hefur á stundum tekið þátt í því að ná samstöðu um einhver mál þannig að allir verða mátulega óánægðir með það. Við sitjum uppi með afar stórt mál sem er þannig, kjördæmaskipunin í landinu. Hún varð til þannig að menn fundu lausn sem enginn var ánægður með en menn gátu sætt sig við það af því það voru allir óánægðir með hana. Þá vann enginn.

Ég hef það örlítið á tilfinningunni, frú forseti, að niðurstaða Sjálfstæðisflokksins, ég ætla ekki að blanda Framsóknarflokknum í niðurstöðuna vegna þess að ég mun fara yfir það sérstaklega á eftir hvernig Framsóknarflokkurinn var tekinn í þessa ferð og vitna enn og aftur til ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í gær um það sem er líklega færastur okkar flestra til að fara yfir þann þátt málsins. En niðurstaða Sjálfstæðisflokksins hefur væntanlega orðið þessi vegna þess að þá eru allir svipað óánægðir. (SKK: ... Það ættir þú að þekkja.) Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson mælir speki nokkra. Að vísu var niðurlagið eitthvað sem ég átta mig ekki alveg á, en ég tel að hv. þingmaður hafi einmitt verið að lýsa nokkuð vel hvernig líðanin hefur líklega verið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þegar verið var að taka þetta í gegn. Það er augljóst mál, að þeir sálufélagar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Birgir Ármannsson hafa auðvitað verið óánægðir með það að ekki var stigið stærra skref í átt að einkavæðingunni. Trúlega hafa margir verið í hópi þeirra en hafa sætt sig við það af því að skrefið er í rétta átt. Þannig hafa þeir sæst á þetta.

Á sama hátt getum við leikið okkur endalaust með alla hina hópana í Sjálfstæðisflokknum varðandi málið sem ég vona að einhver innanbúðarmaður hjá Sjálfstæðisflokknum upplýsi okkur frekar um heldur en ég fari að geta í það. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór yfir það hvernig þingflokkur Framsóknarflokksins tók sínar beygjur og gaf auðvitað ýmislegt í skyn til að skýra þær í gær. En þetta er væntanlega skýringin á því af hverju málið lendir í þessum klúðurslega farvegi, að óánægjan hefur verið svipuð með það. Það er ófyrirgefanlegt að stofnun eins og Ríkisútvarpið þurfi að lenda í slíkum ferli. Þetta er stofnun sem er þeirrar gerðar, hefur það mikið hlutverk í samfélaginu að við getum ekki leyft okkur slíkt. Ég vona því að það sem eftir lifir af umræðunni nái einhverri lendingu svo hægt sé að koma í veg fyrir þetta mikla slys svo við þurfum ekki að fara í eitthvert endurreisnarstarf eftir einhvern tíma vegna þess að hér hafi þetta slys gerst eða missa málið í þann farveg sem ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal vill helst. Ég er ærlegur í því að ég óttast það svolítið að hv. þingmaður sé sannspár í þeim efnum, því miður. Þess vegna þurfum við auðvitað reyna að koma í veg fyrir slíkt.

Ljósi punkturinn er að það er stutt í kosningar. Hugsanlega verður hægt að bjarga einhverju eftir kosningar en það væri miklu þægilegra fyrir alla ef þjóðin vissi það í kosningunum að þetta væri eitt af málunum sem yrði kippt í liðinn og þess vegna væri gildistakan sett aftur fyrir kosningar. En lýðræðisástin er oft sérkennileg. Hún virðist stundum vera takmörkuð og fara í einhvern einn farveg, ekki mjög víðan heldur afar þröngan. Við vitum að það er misjafnt hvað er efst í huga fólks þegar það kýs t.d. í alþingiskosningum. Ég var líklega búinn að skýra það að um leið og ríkisvæðingin ætti sér stað væri einkavæðingin fram undan og harmóneraði býsna vel saman.

Hæstv. ráðherra, líkt og ýmsir aðrir hv. þingmenn stjórnarliðsins, hafa stöðugt fullyrt það að réttindi starfsmanna væru tryggð. Á stundum er gengið ansi langt í þeim efnum. Hæstv. ráðherra hélt þeim söng áfram þrátt fyrir að margoft hefur komið fram hjá stéttarfélögunum að svo er ekki. Ég hef nokkrum sinnum í umræðunni farið yfir þessi mál og trúlega óþarfi að endurtaka það allt saman. Við blasir og þarf ekki að deila um það, að auðvitað er verið að skerða réttindi starfsfólks með því sem hér eru lagðar fram tillögur um. Það sem er verst við þetta er að það er alltaf verið að þessu í bútum með mismunandi framsetningu. Það er ekki í fyrsta skipti nú sem lögð er fram tillaga um breytingu á rekstrarformi. Það hefur auðvitað verið gert áður og komið hafa upp margs konar vandamál sem hafa verið leyst á mismunandi hátt. Þess vegna er með ólíkindum af hverju ekki er farið í það í eitt skipti fyrir öll að ná einhverju samkomulagi um málið.

Ég man eftir því þegar fulltrúi úr fjármálaráðuneytinu kom á fund okkar í menntamálanefnd. Þá var rætt um það að það yrði miklu einfaldara og til bóta, það var álit þessa ágæta fulltrúa úr fjármálaráðuneytinu, ef sett yrði rammalöggjöf um breytingarnar. Á tímabili voru viðræður í gangi milli stjórnvalda og stéttarfélaganna um þetta. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það miklu hreinlegri vinnubrögð að fara yfir þessa þætti frá a til ö og afgreiða starfsmannamálin í einum pakka þannig að lögunum verði breytt í þá átt sem samkomulag getur orðið um. Ég hef fulla trú á að hægt sé að ná samstöðu um það. Að öllum líkindum yrði tekist á um ákveðna þætti, en ef þetta er gert og farið yfir það nákvæmlega og tengt kjarasamningum, vegna þess að þetta er einn pakki sem þarf að skoðast í samhengi, þá leysum við mál til framtíðar.

Stigin hafa verið mörg skref til að minnka mismuninn á milli opinberra starfa og annarra starfa, þ.e. að gera vinnumarkaðinn að einum vinnumarkaði. Við erum með getum við sagt tvo vinnumarkaði í dag. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki á allan hátt heppilegt og þess vegna eigi að leggja sig fram um að vinna að breytingum. Þær breytingar gerast auðvitað ekki á einni nóttu. Þær taka mjög langan tíma. Við vitum að stigið var stórt skref í þessu með breytingum á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það tekur hins vegar töluvert langan tíma að klárast og ekki algerlega orðið það sama þrátt fyrir það en þó stigið töluvert skref.

Ég verð, frú forseti, vegna þeirra ummæla hæstv. ráðherra sem eru í raun endurtekning á umræðum og ekki í fyrsta skipti sem það fellur saman, orðalag hæstv. ráðherra og virðulegs embættismanns hæstv. ráðherra, útvarpsstjóra. Útvarpsstjóri hefur gefið út yfirlýsingar um réttindi starfsmanna m.a.. Í umræðum um störf þingsins þar sem ræðutími er takmarkaður og ég er ekki einu sinni viss um að hv. þm. Valdimar L. Friðriksson hafi komist alveg yfir þá yfirlýsingu sem borist hefur frá BHM og BSRB, vegna yfirlýsingar útvarpsstjóra og raunverulega endurtekningar hæstv. menntamálaráðherra. Þó að hv. þingmaður hafði farið yfir yfirlýsinguna held ég að nauðsynlegt sé að fara yfir hana einu sinni enn þannig að það fari ekki á milli mála þrátt fyrir að bæði hæstv. ráðherra og ýmsir hv. þingmenn hafi gefið annað í skyn, að umsagnir BSRB og BHM um frumvarpið standa algjörlega enn þá og eru í fullu gildi.

Í þessari yfirlýsingu, sem er dagsett 17. janúar 2007, segir, með leyfi forseta:

„Í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf. hefur ítrekað verið vísað til yfirlýsingar Páls Magnússonar útvarpsstjóra frá því í nóvember sl. þar sem hann lýsti því yfir að öll kjör starfsmanna RÚV muni haldast óbreytt. Eftir að BSRB og BHM höfðu skoðað þessa yfirlýsingu voru samtökin sammála um að hún bætti engu við það sem fram kemur í sjálfu frumvarpinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir samtakanna um breytingar.

Í yfirlýsingunni segir Páll Magnússon orðrétt: „Gert er ráð fyrir að hið nýja félag yfirtaki allar skuldbindingar stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum, — bæði skv. ráðningarsamningum og kjarasamningum.“ Innihald þessarar yfirlýsingar er í samræmi við aðilaskiptalögin og því væri verið að brjóta þau ef ekki væri farið að þessu.“

Sem sagt, þessi hluti yfirlýsingar útvarpsstjóra er óþörf. Hún liggur fyrir í gildandi lögum. Áfram heldur í yfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Þá er ýmsum spurningum ósvarað, þar á meðal er með öllu óljóst hvað gerist þegar kjarasamningar renna út. Mun RÚV ohf. til að mynda vera reiðubúið til að semja á grundvelli fyrirliggjandi kjarasamninga við aðildarfélög innan BSRB og BHM sem hafa samningsrétt fyrir starfsmenn RÚV?

Einnig er óvíst hvernig samið verður við þá sem hefja störf eftir að lögin taka gildi en það er m.a. forsenda þess að nýráðnir geti farið í A-deild LSR að starfsmenn séu aðilar að þessum samtökum.

Þá segir Páll í yfirlýsingu sinni: „Réttindi starfsmanna haldast því óskert — verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum — þó eru „sólarlagsákvæði“ varðandi biðlaunaréttinn.“ Að mati BSRB og BHM stenst þessi fullyrðing ekki þar sem réttindi skv. lögum, eins og t.d. lögum um réttindi og skyldur og stjórnsýslulög, munu ekki gilda gagnvart starfsmönnum RÚV ohf. Áminningarskyldan, andmælaréttur og auglýsingaskylda munu því t.d. ekki gilda.

Þá er enn óvíst hvort hægt sé að treysta því að hið nýja félag samþykki aðild að LSR. Til að slíkt sé tryggt þarf að kveða skýrt á um það í frumvarpinu.“

Eða þá væntanlegum lögum. Þetta segir í yfirlýsingu frá BHM og BSRB.

Það er næstsíðasta tilvitnunin, þar sem rifjað er upp að ýmsir þættir muni hverfa og ekki gilda við samþykkt frumvarpsins, sem enginn vafi er á að muni ekki gilda. Vissulega geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvort þeir eigi að gilda eða ekki. En að koma ítrekað í ræðustól Alþingis og halda því fram að réttindin verði óskert stangast auðvitað algjörlega á við þetta. Það er miklu hreinlegra, og þannig á að umgangast sannleikann, að segja að breytingar verði, ákveðin skerðing verði á ákvæðum, sem viðkomandi er þá á móti að séu inni, eða segja: Við munum þá á einhvern hátt bæta þau réttindi sem skerðast. En ekki að koma hér og endurtaka í síbylju: Réttindin verða óskert — þegar þau eru alls ekki óskert.

Það getur vel verið og mér finnst það líklegt að hæstv. ráðherra og þeir hv. þingmenn sem þetta hafa gert nokkrum sinnum séu hreinlega á móti þessum réttindum, telji að þau eigi ekki að vera til staðar. Það eru sjónarmið sem viðkomandi eiga þá að rökstyðja. Það er ekkert óeðlilegt við það út af fyrir sig að hafa þá skoðun en það á ekki að halda því fram að réttindin séu óskert þegar þau skerðast, m.a. með þessum hætti og mætti fleira tína til.

Áfram með yfirlýsingu frá BHM og BSRB, með leyfi forseta:

„Ýmsum spurningum er því enn ósvarað um kjör og réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins verði frumvarpið um RÚV ohf. samþykkt óbreytt.

Um lífeyrisréttindi starfsmanna segir í yfirlýsingu Páls Magnússonar: „LSR hefur sömuleiðis staðfest áframhaldandi rétt starfsmanna RÚV til aðildar að A-deild sjóðsins — að fengnu samþykki vinnuveitanda — sem gert er ráð fyrir að hið nýja félag veiti, — verði frumvarpið að lögum.““

Áfram heldur síðan yfirlýsingin frá BHM og BSRB, með leyfi forseta:

„Það hefur alltaf legið fyrir að starfsmenn eigi rétt á aðild að LSR að fengnu samþykki atvinnurekanda en BSRB og BHM hafa viljað fá ákvæði þar um inn í frumvarpið svo rétturinn verði ekki háður samþykki stjórnar RÚV ohf.

Óvissan um rétt starfsmanna er því enn jafnmikil og hún var fyrir yfirlýsingu Páls Magnússonar.

Umsögn BSRB og BHM um frumvarpið er því enn í fullu gildi.“

Þetta segir að allt tal — hvort sem það er hæstv. ráðherra eða hv. þingmanna um að réttindi starfsmanna séu tryggð, þau haldist óskert, og vitnað er í að þessi yfirlýsing Páls Magnússonar hafi breytt þar öllu um og gefið til kynna að umsagnir stéttarfélaganna eigi þar af leiðandi ekki lengur við — er augljóslega rangt. Þess vegna er ekkert skrýtið að hv. þm. Valdimar L. Friðriksson hafi komið hér upp í dag og talið að vatnaskil yrðu í málinu vegna þess að nú væri búið að taka af allan vafa um að þessar yfirlýsingar stæðu þrátt fyrir að ýmsir hefðu haldið öðru fram. En eins og við heyrðum í ræðu hæstv. ráðherra hefur þetta ekki haft nokkur áhrif, engin áhrif. Hæstv. ráðherra heldur því enn fram að réttindin verði óskert og ég geri ráð fyrir að þeir hv. þingmenn sem þessu hafa haldið fram muni áfram halda því fram. Það er auðvitað býsna erfitt að eiga orðastað við slíka aðila, frú forseti, sem segja síðan bara að þeir treysti einhverjum öðrum. Ef einhverjir komast að annarri niðurstöðu en þeir sjálfir þá treysta þeir bara einhverjum öðrum sem hafa komist að sömu niðurstöðu og þeir, en stéttarfélögin hafi ekkert vit á réttindum starfsmanna. Það er býsna merkileg yfirlýsing en ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi.

Enn held ég mig, frú forseti, við ræðu hæstv. ráðherra. Ég þóttist nú vita að töluvert fóður hefði verið í ræðu hæstv. ráðherra en ég gerði mér ekki grein fyrir að hún hefði skapað svo langa ræðu sem ræða mín er orðin og á ég þó eftir það sem ég hafði hugsað mér — áður en hæstv. ráðherra hélt ræðuna — að fjalla um. Það er því ljóst að ég þarf nokkuð að reyna að auka hraðann í ræðu minni svo þetta verði ekki of langt því ég hafði ekki hugsað mér það, frú forseti, að halda mjög langa ræðu, hef ekki lagt það í vana minn að halda mjög langar ræður. En ég tek eftir því að ræða hæstv. ráðherra hefur greinilega haft meiri áhrif á ræðulengd mína en ég hafði ætlað. Ég sé ekki betur en ég sé um það bil hálfnaður að fara yfir það sem ég ætlaði mér að gera athugasemdir við í ræðu hæstv. ráðherra og á þá eftir þó nokkuð af því efni sem ég hafði hugsað mér að ræða um áður en hæstv. ráðherra lét svo lítið, og það er vissulega fagnaðarefni að hæstv. ráðherra kom og tók þátt í umræðunni, kom mér alveg í opna skjöldu þar sem ég hafði verið næstur á mælendaskrá þegar hæstv. ráðherra skaut sér inn á milli. Eins og við vitum er hefð fyrir því á stundum að hæstv. ráðherra geti skotið sér inn í umræðu þar sem áhugi hæstv. ráðherra beinist að, þó að við höfum að vísu kynnst annarri útgáfu af því um daginn þegar hæstv. ráðherra fór bara eins og hver annar hv. þingmaður inn á mælendaskrána og ekkert nema gott um það að segja. Það eru misjafnar hefðir eftir því hvernig mál standa hverju sinni. En við vitum að hæstv. forseti hefur ætíð það vald að ákveða hvernig með þessi mál er farið hverju sinni. Þessi ræða hæstv. ráðherra var sem sagt sérstakt fagnaðarefni, þrátt fyrir að ýmislegt sem hæstv. ráðherra sagði hafi lengt ræðu mína nokkuð.

Ég var að ljúka því að fara yfir þann kafla sem kom að réttindum starfsmanna. Þegar ég fjallaði um ESA-þáttinn og auglýsingaþáttinn kom ég einmitt inn á það sem hæstv. ráðherra ræddi um og ég held ég geti þá sleppt því að þessu sinni. En það var afar athyglisvert það viðhorf hæstv. ráðherra að með frumvarpinu væri verið að klippa á pólitísk tengsl við Ríkisútvarpið og hæstv. ráðherra virtist vera mjög undrandi yfir því að við í stjórnarandstöðunni gerðum við þetta athugasemdir.

Meiri hlutinn hefur aldrei léð máls á breytingum á því fyrirkomulagi sem er í frumvarpinu, þ.e. að árlega muni Alþingi kjósa stjórnina sem ráðherra síðan í valdi síns hlutabréfs í raun tilkynnir á aðalfundi. Þetta segir að meiri hluti Alþingis hverju sinni kýs meiri hluta stjórnar, það er nú ekkert flóknara en svo. Ef þetta er að klippa á pólitísk tengsl þá veit ég ekki hvað pólitísk tengsl eru, ef það eru ekki bein pólitísk tengsl að meiri hluti Alþingis kýs meiri hluta stjórnar Ríkisútvarpsins. Það má ekki einu sinni hafa neina áhættu í því, það skal gert árlega og vitnað í að halda beri aðalfund í hlutafélögum árlega, allt gott með það. En Alþingi gæti t.d. kosið stjórnina til lengri tíma þrátt fyrir að hún yrði endurkosin síðan á hverjum aðalfundi, það veldur engum vandræðum.

Það sem við höfum bent á til að reyna að nálgast í þessu er, þó að við teljum ýmsa möguleika vera uppi, að hægt væri að hafa þetta tímabil annað en venjubundið kjörtímabil, t.d. þrjú ár eða fimm ár. Fimm ár eru nú reyndar oft notuð og eru notuð í svipuðum stofnunum í öðrum löndum. Það væri því alls ekki óeðlilegt að nota fimm ár og ég kem betur að því á eftir af hverju það gæti hentað. Í fyrsta lagi vegna þess að þá er þetta ekki bundið kjörtímabilinu og þá væri það þannig að einn meiri hluti veit að næsti meiri hluti getur líka myndað meiri hluta þannig að það er miklu líklegra að um slíkt fyrirkomulag náist samstaða og það er eitthvað sem stofnun eins og Ríkisútvarpið þarf á að halda. Ef stjórn Ríkisútvarpsins væri kosin til lengri tíma, t.d. til fimm ára, væri tryggt að við gætum talað um að klippt hefði verið á pólitísk tengsl, þá gætum við talað um það.

En hæstv. ráðherra og ýmsir hv. þingmenn úr stjórnarliðinu hafa einmitt sagt að klipping á pólitísk tengsl séu ekki út af þessum beinu tengslum og ekki sé óeðlilegt að Ríkisútvarp sem sé í eigu þjóðarinnar, að stjórn þess sé kosin á Alþingi og það má að sjálfsögðu taka undir það, (Gripið fram í.) það er ekkert óeðlilegt við það.

Frú forseti. Ég missti aðeins af frammíkalli hv. þingmanns, en það hefur greinilega ekki skipt miklu máli, við látum það þá bara eins og vind um eyru þjóta.

En það er fleira sem segir okkur að pólitísku tengslin séu enn til staðar vegna þess að sú stjórn sem kosin er á þennan hátt ræður og rekur útvarpsstjórann, sem síðan hefur gífurlegt vald, þó ég noti nú ekki orð eins og sumir hv. þingmenn hafa sagt „allsherjarvald“ yfir stofnuninni. Ljóst er að þetta skapar að minnsta kosti, svo ég sé nú hógvær í orðavali, hættur á pólitískum tengslum sem væri hægt að koma í veg fyrir m.a. með því sem ég sagði áðan. Til viðbótar er önnur einföld leið sem við höfum bent á að ef t.d. fulltrúar starfsmanna héldu sætum sínum í stjórninni væri einnig tryggt að það væri ekki alltaf ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni.

Annað atriði sem margir hafa bent á og við höfum gert líka er að ráðning útvarpsstjóra verður með öðrum hætti, þ.e. að stjórn geti með einfaldri ákvörðun rekið og ráðið. Það væri eðlilegt að maður í slíku embætti væri ráðinn til ákveðins tíma eins og algengt er með forstöðumenn ríkisstofnana. Þá kem ég aftur að þessum fimm árum en það er einmitt hefðin hjá ríkisstofnunum að forstöðumenn eru ráðnir til fimm ára í senn. Það er erfitt að átta sig á af hverju slíkt getur ekki átt við hjá Ríkisútvarpinu. En það er af einhverjum ástæðum sem ég þekki ekki nægjanlega vel hverjar eru. Ef áhugi hæstv. ráðherra og hv. þingmanna sem hafa lagt mikið upp úr því að búið sé að klippa á hin pólitísku tengsl er eins mikill og af er látið á því að gera slíkt væri auðvitað búið að stíga einhver skref í þá átt sem ég nefndi. Ég verð því miður að efast um að það sé mikill áhugi á að rjúfa þessi pólitísku tengsl. Ég þykist hins vegar vita að Sjálfstæðisflokkurinn verður tilbúinn til þess þegar af einkavæðingunni verður. Þá verður það ekkert vandamál. Vegna þess að þeir telja auðvitað að þeir eigi að hafa völd sem víðast og nær alls staðar. Það sé bara eitthvert náttúrulögmál. (Gripið fram í.) Nei, það er svolítið langt frá því, hv. þingmaður, að svo sé með fólk sem stendur utan þeirra vébanda. Við teljum, frú forseti, að þetta sé afar varhugavert og sé þróun sem er því miður búin að vera of lengi og það sé hluti af vandamálum Ríkisútvarpsins hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með pólitísk völd sín þar innan veggja. Það er hluti af vandamálinu. Ef sannkallaður áhugi væri á því að klippa á hin pólitísku tengsl hefði mátt sýna það í verki stöku sinnum. En því miður segir sagan okkur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur líklega hvað minnstan áhuga á slíku.

Frú forseti. Enn kem ég að afar merkilegum þætti í ræðu hæstv. ráðherra. Það var hin mikla framsögn um frelsi embættismanna. Það þótti mér afar merkilegur kafli. Hæstv. ráðherra sagði að skoðun sín væri að embættismenn ættu að hafa fullt málfrelsi og ekki hvað síst um sínar stofnanir og tók útvarpsstjóra sem dæmi um það. Þar réði samviskan för. Það væri sérkennilegt sem sumir hefðu sagt, sem gerðu athugasemdir við það m.a. að útvarpsstjóri hefði ekki farið alveg rétt með. Ég tók eitt mál þar fyrir áðan sem ég reyndar tengdi hæstv. ráðherra af því að hæstv. ráðherra endurtók ekki bara eitt atriði heldur nokkur fleiri sem útvarpsstjóri hefði sagt.

Mér þótti þetta býsna merkilegt og ég vona að þetta sé eitthvað sem hefur breyst hjá hæstv. ráðherra vegna þess að við sem sitjum í fjárlaganefnd þekkjum bréfaskriftir hæstv. ráðherra til embættismanna sinna og um hvað? Ekki um tjáningarfrelsið, ekki um hvatningu til að tjá sig um málefni stofnunarinnar: Nei, ekki aldeilis, það er alveg þveröfugt. Ár eftir ár hafa verið send úr menntamálaráðuneytinu, og auðvitað ýmsum öðrum ráðuneytum, bréf á haustdögum til forstöðumanna stofnana um að þeir hafi ekki heimild til að tjá sig um stofnanir sínar eða óska eftir viðtölum við fjárlaganefnd um þær. Slíkt skuli allt fara í gegnum ráðuneytið.

Nú geri ég ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra muni í haust senda út allt öðruvísi bréf og muni að sjálfsögðu berjast fyrir því á ríkisstjórnarfundi að þessum bréfaskriftum linni og nú skuli textinn vera á þá leið að forstöðumenn ríkisstofnana, vegna bréfa fyrri ára, séu hvattir sérstaklega til þess að tjá sig sem allra, allra mest um málefni stofnana sinna. Fara vel yfir fjárhagsstöðuna og leggja fram rökstuddar tillögur um það hvernig henni verður sem best fyrir komið og tjái sig sem víðast og helst við fjárlaganefnd beint og milliliðalaust.

Það væri í anda þess sem hæstv. ráðherra boðaði áðan þegar ráðherra vildi meina að það væri heldur betur til bóta að forstöðumenn tjáðu sig sem allra mest um stofnanir sínar að ég tali ekki um hagsmuni stofnananna. Væntanlega hlýtur það, ef við tökum eitthvert ákveðið atriði út úr sem er nú árlegt, að tengjast verulega hagsmunum hverrar stofnunar hvernig með mál þeirra er farið í fjárlögum. Ætli það sé ekki grundvöllurinn undir starfsemi þeirra margra hvernig það er gert?

Það verður því fróðlegt að fylgjast með því á haustdögum hvernig hið merka bréf hljóðar þá. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra sé samkvæm sjálfri sér í málflutningi sínum. Ekki er við neinu öðru að búast. Það eina sem áhyggjur beinast að er að það verði kannski miklu meiri vinna hjá fjárlaganefnd að taka við forstöðumönnum ríkisstofnana þegar þeir koma í löngum röðum að tjá sig um fjármál sinna stofnana vegna þess að ráðherrar hafi hvatt þá til þess.

Ég trúi því að forstöðumenn, sem eru embættismenn, hlýði ráðherra sínum enda er það embættisskylda þeirra. Þannig hefur það verið þegar bréfin hafa farið út og embættismönnum verið bannað að hafa samband við fjárlaganefnd að allir hafa hlýtt því, að sjálfsögðu. Það er embættisskylda þeirra. Þetta veldur væntanlega gífurlegum breytingum á störfum fjárlaganefndar og verður vonandi til þess að nauðsynlegar upplýsingar berist til nefndarinnar og skilar vonandi miklu betri fjárlögum.

Frú forseti. Nú varð mér auðvitað á að gleyma afar mikilvægu atriði sem eru kosningar 12. maí. Það er afar ólíklegt að hæstv. ráðherra hafi tækifæri til að senda þetta bréf, sem ég í óskhyggju minni um breytta stjórnunarhætti vonaði að gæti farið út, því að núverandi ríkisstjórn mun auðvitað ekki sitja á haustdögum. (Gripið fram í.) Því er eiginlega spurning, frú forseti, eins og bent er á hér í salnum, til að missa ekki þetta tækifæri, hvort ekki sé rétt að hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að taka það upp á næsta ríkisstjórnarfundi að nú séu breyttir tímar og þetta bréf verði sent út strax til að forstöðumenn hafi nægjanlegt svigrúm til undirbúnings. Vegna þess að nú er víða verið að byrja á að teikna upp fjárlagatillögur fyrir árið 2008. Það væri vel við hæfi að þetta bréf færi út sem allra fyrst þannig að forstöðumenn gætu verið vel undir þetta búnir.

Hér er um slíka stefnubreytingu að ræða að eðlilegt er að hún sé kynnt allra fyrst. Ég trúi því að ný ríkisstjórn sem tekur við verði sömu skoðunar að það sé eðlilegt að forstöðumenn tjái sig um fjárhagslega stöðu sinna stofnana. Síðan væri hægt að koma einhverju kerfi á þetta þannig að ekki kæmu alltaf allir forstöðumennirnir á hverju ári heldur mætti skipuleggja það með einhverjum hætti. Til dæmis að taka ákveðið ráðuneyti fyrir á hverju ári eða kannski fleiri en eitt. En það eru auðvitað líkur á því að á haustdögum verði búið að fækka ráðuneytum, þannig að kannski verður hægt að fara yfir öll ráðuneytin á færri árum.

Ég held að þetta sé í raun og veru ágætt viðhorf hjá hæstv. ráðherra að forstöðumenn stofnana, sem hafa væntanlega mesta og besta þekkingu á sinni stofnun, geti tjáð sig milliliðalaust þegar þeir telja ástæðu til, t.d. við fjárlaganefnd. Þetta viðhorf var mjög til bóta.

Frú forseti. Hæstv. ráðherra ræddi um þjónustusamninginn eins og þetta væri mesti tímamótasamningur sem nokkurn tíma hefði verið gerður. Ég treysti mér ekki til að taka svo sterkt til orða en ég held að það fari ekkert á milli mála að þjónustusamningurinn sem gerður var hafi verið til mikilla bóta. Hann hafi verið eitt af því jákvæða sem náðst hefur til bóta á þessu frumvarpi frá upphafi. Eins og við sögðum töldum við eðlilegt að þjónustusamningurinn yrði gerður áður en lögin væru samþykkt. Bæði hæstv. ráðherra og ýmsir hv. þingmenn töldu ekki mikla þörf á því hér áður en koma nú og lýsa yfir gífurlegri ánægju með þennan þjónustusamning. Ég get að hluta til tekið undir það að þjónustusamningurinn var mikilvægur.

Ég sagði áðan að við í stjórnarandstöðunni ætluðum ekki að eigna okkur algjörlega þá hugmynd að gera þjónustusamning. Það er ekki svo. Það hefur víða komið fram. Ég held að aðstoð ESA í þeim efnum hafi verið töluvert mikilvæg eins og ýmsir aðrir þættir sem breytt hefur verið í þessu máli.

Það er hins vegar tvennt sem ég tel rétt að nefna vegna þessara ummæla og hinnar miklu hrifningar hæstv. ráðherra á þjónustusamningnum. Það er kannski allt í lagi að fara þá í þann þátt sem kom upp í þeim merku bréfaskriftum sem hafa verið nokkuð umræddar hér við 3. umr. um frumvarpið um RÚV, og ég vakti sérstaklega athygli á áðan, að hæstv. ráðherra skensaði okkur nokkuð öll í menntamálanefnd fyrir slælegan lestur eða hugmyndaflug. Ég veit ekki alveg hvernig átti að taka það. En ég eyddi nokkrum tíma ræðu minnar áðan til að rétta við formann minn í nefndinni, sem ég taldi fulla ástæðu til og tel skyldu mína, því að ég var fyrsti ræðumaður á eftir þessum ummælum hæstv. ráðherra í garð menntamálanefndar og þá auðvitað fyrst og fremst í garð formannsins. Ég held að mér hafi tekist að reisa formanninn fyllilega við í þeim efnum og tel það bara skyldu mína að gera slíkt því mér fannst þetta nokkuð ómaklegt. Mér fannst það ómaklegt af hæstv. ráðherra í garð formanns sem er búinn að sinna störfum fyrir ráðherrann í ómældan tíma til nokkurra ára. (Gripið fram í.)

Hárrétt, frú forseti, og það var þess vegna sem ég tók upp hanskann fyrir hv. þingmann, formann menntamálanefndar, að auðvitað er formaðurinn okkar maður í þeim skilningi að við sem menntamálanefnd erum ákveðin heild. Þrátt fyrir það, og ég nefndi það áðan — af því að ég tek eftir því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur misst af þeim þætti ræðu minnar … (Gripið fram í: Nei, nei.) Ljómandi, frú forseti, ég þarf þá ekki að endurtaka þetta fyrir hv. þingmann. En ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi verið miklum mun sáttari við mín orð en orð hæstv. ráðherra í þessum efnum, þó að því miður á stundum, hafi okkur þótt hv. þingmaður, formaður vor í menntamálanefnd, ég endurtek á stundum, alls ekki alltaf, verið of leiðitamur gagnvart ráðherranum. En skýringin á því er auðvitað valdauppbyggingin í Sjálfstæðisflokknum, staða varaformannsins í Sjálfstæðisflokknum er slík að við skiljum það mjög vel að hv. þingmaður þurfi stundum að beygja sig vegna þess valds sem varaformanni er gefið. (Gripið fram í: Er varaformaður Samfylkingarinnar …?)

Það er svo skemmtilegt, frú forseti, að samanburður á því gífurlega valdi varaformanns Sjálfstæðisflokksins er varaformanni okkar býsna óhagstætt. Eins og ágætur formaður þingflokks míns, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sagði um það þá er t.d. formaður þingflokksins þjónn allra þingmanna flokksins en býr ekki við það að varaformaður flokksins hafi ægivald yfir þingflokksformanni. Þingflokksformaður er þjónn allra þingmanna og gerir ekki neinn greinarmun á þeim í því sambandi. (Gripið fram í: Er varaformaðurinn sammála þessu?)

Það er nú svo, frú forseti, að ég get ekki alveg áttað mig á hugsunum allra flokkssystkina minna, það yrði nú býsna flókið. En ég hef ekki trú á að minn ágæti varaformaður hafi ímyndað sér að völd varaformanns Samfylkingarinnar yrðu í einhverri líkingu við augljós völd varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Ég verð t.d. að segja fyrir mig, og ég geri ráð fyrir að það eigi jafnt við um alla eða a.m.k. flesta hv. þingmenn Samfylkingarinnar, að ég gerði mér ekki grein fyrir þessu ægivaldi varaformanns Sjálfstæðisflokksins fyrr en hv. þingmaður fór yfir það með okkur hérna í því samhengi sem hann ákvað að gera. Ég hef ekki trú á að nokkur hafi haft ímyndunarafl í þá átt.

Ég var kominn að þeim þjónustusamningi sem hæstv. ráðherra fagnaði mjög, og eins og ég sagði get ég að hluta til tekið undir það. En það er a.m.k. tvennt sem ég vil ræða í því samhengi í viðbót við það sem ég hef sagt áður um að sá samningur kemur til á seinni stigum og ESA hefur aðstoðað okkur verulega í þeim efnum. En það sem kemur fram í hinum síðari bréfaskiptum ESA og ráðuneytisins — sá þáttur var aldrei kynntur eða ræddur sérstaklega í nefndinni eins og við vitum, en varðar þjónustusamninginn, þ.e. þær reglur um mat sem fara þarf fram áður en Ríkisútvarpið tekur upp nýja þjónustu á almannaútvarpssviði. Það kemur sem sagt fram að í raun hefur samningurinn verið kynntur, ja, við skulum bara orða það varlega, á örlítið öðrum grunni en hann er í raun og veru.

En fyrst þetta: Þær reglur sem þarf að setja um að Ríkisútvarpið taki upp nýja þjónustu á almannaútvarpssviði liggja ekki endanlega fyrir. Þær hafa ekki verið ræddar í nefndinni, sem hefði verið eðlilegt að kæmu a.m.k. fram í greinargerð og meira að segja spurning, að minnsta kosti spurning, svo ég orði þetta varlega, frú forseti, hvort ekki hefði verið eðlilegt, ef þarf að setja það í reglugerð sem mér sýnast allar líkur á, að þess hefði verið getið í frumvarpstextanum. Ég held að hv. þingmaður, formaður menntamálanefndar, geti nú ekki komist fjær því en að taka undir það að ekki hefði verið óeðlilegt að ræða það að minnsta kosti, hvort það væri eðlilegt.

Hvernig var þetta þá, hvað átti ég við þegar ég sagði að kynningin hefði verið röng? Jú, vegna þess að hingað til hefur þjónustusamningurinn verið kynntur sem sáttmáli um lágmark þeirrar almannaþjónustu sem Ríkisútvarpinu er skylt að veita. Nú kemur í ljós þegar þetta er skoðað og sett allt í samhengi að í raun og veru er þjónustusamningurinn hámark þeirrar almannaþjónustu sem veita skal, hámark í staðinn fyrir lágmark. Því hefði verið eðlilegt, þegar þetta kom í ljós, að fara aftur yfir 3. gr. frumvarpsins og setja þetta allt í samhengi og reyna að átta sig betur á þessum hlutum. Það var ekki gert. Hæstv. menntamálaráðherra kom hingað áðan og kvartaði sáran yfir því að ekkert nýtt kæmi fram í umræðunni, en á þetta var minnst í ágætu framhaldsnefndaráliti og gerð býsna vel grein fyrir því af hv. þm. Merði Árnasyni þegar hann gerði grein fyrir framhaldsnefndaráliti okkar í minni hluta menntamálanefndar, en hæstv. ráðherra minntist ekki á þetta einu orði, það hefði því verið hægt að velta fyrir sér hlutunum örlítið og kannski skýra eitthvað.

Það er fleira varðandi þjónustusamninginn sem rétt er að fara örlítið yfir og það er kostnaðurinn við hann. Um helmingur kostnaðarins á að nást með hagræðingu. Ég ætla ekki að fara að rekja tölur fram og til baka, það er út af fyrir sig óþarfi, en það vekur sérstaka athygli þetta með hagræðinguna vegna þess að við höfum fengið bréf frá títtnefndum útvarpsstjóra sem fullyrðir að í raun sé ekki hægt að hagræða meira hjá stofnuninni öðruvísi en að skera niður þjónustu. Það getur vel verið að einhver þjónusta sé sem við, utanhússfólk, sjáum ekki, sem má skera niður. En gengið var ítrekað eftir því á fundum menntamálanefndar hvernig ætti að ná þeirri hagræðingu fram. Við því komu engin svör. Við erum því engu nær um það hvernig á að ná þessum peningum fram. Augljóslega þó með því, eins og fram kemur, að skerða þjónustu. Við trúum því náttúrlega að það sem útvarpsstjóri sendir okkur sé rétt því að hann þekkir betur innviði stofnunarinnar en við sem utan erum. Þess vegna er afar sérkennilegt þegar slíkir hlutir eru settir inn að einhverjar hugmyndir skuli ekki fylgja.

Gerð er fjárhagsáætlun sem byggir væntanlega á þekkingu á rekstri stofnunarinnar. Nefnd var látin fara yfir það og ágætir reikningsmenn frá Ríkisendurskoðun staðfestu að allt væri rétt reiknað og rétt upp sett og allt í góðu með það. En það hefur eiginlega verið staðfest í öllu þessu ferli að hagræðingartalan var bara talan sem stóð út fyrir. Til að láta enda ná saman var þetta kallað hagræðing og þannig átti að ná endum saman, með hagræðingunni án þess að skilgreint væri á nokkurn hátt hvernig því markmiði skyldi náð. Því er augljóst, því miður, að ekki hefur verið staðið að þessu verki þannig eins og vera bar, nema skilja eigi orð hæstv. ráðherra á þann veg, sem talaði um að reka ætti þetta eins og hvert annað fyrirtæki og það væri rekstrarhagræði að forminu, þ.e. hlutafélagsforminu. Það auðveldar virkilega að ná hagræðingu á þessu sviði ef það á að gerast, t.d. með uppsögnum, þá er það auðvitað einfaldara, það fer ekki á milli mála. En það sem er svo ótrúlegt í þessu öllu saman er: Af hverju er það þá ekki sagt að ná eigi því þannig? Það er meira að segja reynt að fela það að þjónustusamningurinn sé að stórum hluta til fjármagnaður með hagræðingunni.

Síðan væri hægt að vitna í tölur frá Skjá einum um hversu rausnarleg þessi innlenda framleiðsla á að vera miðað við þjónustusamninginn en ég held ég láti það eiga sig. Þeir vilja meina, því ég hef náttúrlega ekki getað sannreynt þær tölur, en þeir fullyrða að sú stöð eyði meiru í innlenda framleiðslu en gert sé ráð fyrir í þjónustusamningnum. Því er í ýmsu samhengi þessi fagnaðarhluti ræðu hæstv. ráðherra um þjónustusamninginn afar sérkennilegur, sem ég þó endurtek að er virkilega mikið skref í átt að því að bæta hlutina og var bráðnauðsynlegt fylgigagn með frumvarpinu.

Eitthvað á ég eftir enn af athugasemdum við hina miklu ræðu hæstv. menntamálaráðherra, sem kom svona óvænt inn í þessa umræðu og hefur vissulega lengt ræðu mína meira en ég gerði ráð fyrir og kannski meira en góðu hófi gegnir, ég gerist ekki dómari í því máli. En eitt ræddi ráðherrann sem var nokkuð skondið, það var þegar hæstv. ráðherra talaði um hina víðtæku sátt og taldi það brýnast í málinu að stjórnarandstaðan næði víðtækri sátt áður en hún færi að tala um nauðsyn víðtækrar sáttar. Þetta er afar sérkennileg nálgun vegna þess að það hefur verið þannig í málinu núna um langt skeið að stjórnarandstaðan hefur staðið algjörlega saman. Sameiginleg nefndarálit hafa komið hvert af öðru. Það er ekki hægt að kvarta yfir því. En hægt væri að velta fyrir sér hinni víðtæku sátt í stjórnarliðinu sem er búin að taka sífelldum breytingum þó að við horfum ekki nema bara á skammstafanirnar á eftir nafninu, sf., hf., ohf. Þessar þrjár hafa verið í þeim seinustu frumvörpum sem við höfum séð og spurning hvernig sú sátt hefur náðst í stjórnarflokkunum.

Ég sagði, frú forseti, að ég gæti sleppt stórum hluta af kafla ræðu minnar um Framsóknarflokkinn af þeirri einföldu ástæðu að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór nokkuð vel yfir það mál í gærkvöldi og sparaði mér töluvert í þeim efnum. En ekki er hægt að láta Framsóknarflokkinn algjörlega sigla fram hjá, því að hann er hluti af stjórnarsamstarfinu þó að hann sé að verða stöðugt minni hluti stjórnarsamstarfsins og ég veit svo sem ekki hvað hann skiptir miklu máli í því út af fyrir sig.

Það er þó eitt sem ég á eftir áður en ég sný mér að Framsóknarflokknum og varðar hæstv. menntamálaráðherra. Það var umræðan um BBC sem hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um en sleppti því algjörlega að nefna að stóri munurinn á BBC og Ríkisútvarpinu er m.a. auglýsingarnar. Ég hélt þegar hæstv. ráðherra nefndi BBC að ég ætti von á að hæstv. ráðherra mundi boða að vel kæmi til greina að setja einhverjar takmarkanir á auglýsingar í Ríkisútvarpinu og fyrirmyndin ætti að vera BBC. Svo reyndist ekki vera heldur var farið yfir hið mikla veldi BBC og hvað það gæti verið fyrirmynd á ýmsum sviðum. Það olli mér nokkrum vonbrigðum, frú forseti.

Ég held ég láti þá staðar numið í þeim hluta ræðu minnar sem snýr að ræðu hæstv. menntamálaráðherra þó vissulega mætti nefna fleiri atriði en ég held ég láti þetta duga. Það getur verið að á eftir tengist það að einhverju leyti því sem ég hafði hugsað mér að ræða um ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í gær, formanns menntamálanefndar, en við sjáum til með það vegna þess að nú hef ég hugsað mér að snúa mér að Framsóknarflokknum.

Það er merk saga sem Framsóknarflokkurinn á í þessu máli. Ég er svo heppinn að hafa fengið gögn sem sýna örlítið söguna hjá Framsóknarflokknum og hafði hugsað mér að fara yfir þetta frá ári til árs til að við gætum haft það algjörlega skráð í þingtíðindum hvernig þetta hefur gerst. En hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson leysti mig eiginlega frá því. Þar kom fram að þingflokkur Framsóknarflokksins, við einhverjar aðstæður sem sköpuðust árið 2005, ákvað að taka vinkilbeygju í málinu. Við getum leitt getum að því hvað breyttist árið 2005 hjá Framsóknarflokknum til að skýra það á einhvern hátt af hverju þessu u-beygja var tekin. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór vel yfir það að þetta er algjörlega á skjön við flokkssamþykktir, því var til mikils að vinna. Eftir það hefur Framsóknarflokkurinn — fyrir utan einstaka flokksfélaga sem hafa haldið merkinu á lofti og rifjað þetta allt saman upp á stundum. Nokkrum sinnum hefur verið minnst á ummæli Björns Inga Hrafnssonar, borgarfulltrúa þeirra, sem í hugum sumra er vonarstjarna til forustu í þeim flokki einhvern tíma á næstunni og hefur greinilega metið það svo að það mundi líklega styrkja sig frekar en hitt að vekja athygli á þessu. Eins og Björn Ingi sagði væri það að hans mati meiri hluti flokksmanna sem væri á móti hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og spurði þessarar lykilspurningar: Hvers vegna að hlutafélagavæða ef ekki á að selja? Og svaraði sér sjálfur: Það er augljóst mál að þeir sem vilja hlutafélagavæða, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, vilja auðvitað selja, þess vegna er verið að þessu. Það er skýringin á öllum þessum látum.

Ég var búinn að minnast líka áður á það og mun þess vegna reyna að stytta eins og kostur er umfjöllunina um hlut Framsóknarflokksins í málinu en hin fræga setning hefur verið aðhlátursefni nokkuð lengi og óþarfi að endurtaka mikið þá setningu sem segir að það standi ekki til að selja. Hún breytir auðvitað engu vegna þess að það þarf auðvitað samþykkt í þinginu til þess að breyta því eða selja, ef áhugi er fyrir því. Þeir sem áhuga hafa á því vinna að því, eins og ég hef áður komið að.

Frú forseti. Ég mun þess vegna stytta mjög umfjöllun mína um Framsóknarflokkinn. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, hefur látið sjá sig örlítið í þingsölum og mun væntanlega tryggja að það verði a.m.k. af hálfu Framsóknarflokksins gerð einhver tilraun til þess að fara yfir t.d. umfjöllun hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar ef Framsóknarflokkurinn er ekki almennt sammála þeim útskýringum sem þar komu fram. Verði það ekki gert túlkum við það þannig að það sé í samræmi við skoðanir annarra hv. þingmanna Framsóknarflokksins, þær skoðanir og sú útlistun sem fram kom hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni.

Ég mun þess vegna stikla mjög á stóru og ætla aðeins að rifja upp til að sýna að það eru ekki allir búnir að yfirgefa stefnu Framsóknarflokksins eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vill meina. (Gripið fram í.) Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að flokkurinn er ekki gleymdur, en það mátti að vísu draga þá ályktun af merkum ræðubút hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í gær og hæstv. menntamálaráðherra í dag, að Framsóknarflokkurinn væri gleymdur því að í þeirra merku ræðum um varaformenn var af einhverjum ástæðum aldrei minnst á varaformann Framsóknarflokksins, hæstv. landbúnaðaráðherra. Ég veit ekki hvers hann á að gjalda. Hvernig stendur á því að þegar hér er farið vítt um svið, varaformenn teknir til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar, að hæstv. landbúnaðaráðherra er látinn liggja hjá garði? Ég átta mig ekki alveg á því hvernig á þessu stendur en ég er alveg sannfærður um að hæstv. landbúnaðarráðherra á það ekki skilið að ekki sé um hann fjallað. (Gripið fram í.)

Ég tel nefnilega, frú forseti, að það sé nákvæmlega þannig, að hæstv. landbúnaðarráðherra sé kannski sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni í hjarta sínu og ef hjartað fengi að tala, svo að vitnað sé í ágæt ummæli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um annan varaformann, þá hef ég trú á því að hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, sé a.m.k. ekki mikill háeff-maður. Upphafið um esseffið hefur trúlega verið svolítið í anda hæstv. landbúnaðarráðherra en ég held að stefna Framsóknarflokksins um sjálfseignarstofnun sé eitthvað sem hæstv. landbúnaðarráðherra mundi fella sig mjög vel við. Ég ætla því að láta tvær ályktanir sem tengjast Framsóknarflokknum duga vegna þess — ég sé að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er kominn í salinn — að ég fór ágætlega yfir þau mál í gær.

Sú fyrri er frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna og var gerð 28. nóvember 2006. Hér segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna leggst gegn því að frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. verði samþykkt, og RÚV þannig gert að hlutafélagi. SUF telur að hagsmunum RÚV og almennings sé ekki best borgið með breytingu af þessu tagi, og telur vænlegra að skoða kosti þess að gera RÚV að sjálfseignarstofnun. Bendir SUF á að þekktasta almenningsútvarp heims, BBC í Bretlandi, er rekið sem sjálfseignarstofnun og er sem slíkt leiðandi í framleiðslu á bæði menningar- og afþreyingarefni.

Þá telur SUF að málið sé ekki nægjanlega undirbúið og telur það fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi án þess að afstaða hafi verið tekin til stórra spurninga, svo sem aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði sem og stöðu RÚV á samkeppnismarkaði almennt. Stíga þarf mjög varlega til jarðar svo að ekki myndist fákeppni á þeim markaði með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir neytendur.

SUF leggur áherslu á nauðsyn þess að hér á landi starfi öflugt ríkisútvarp, sem nái til allra landsmanna og hafi ákveðnum skyldum að gegna við framleiðslu á innlendu dagskrárefni. Það að breyta RÚV í hlutafélag telur SUF hins vegar aðeins vatn á myllu andstæðinga RÚV og þeirra sem vilja einkavæða starfsemi þess.

SUF hvetur því þingmenn til þess að samþykkja ekki fyrirliggjandi frumvarp, en þess í stað leggja fyrir menntamálaráðherra að hefja undirbúning að því að breyta RÚV í sjálfseignarstofnun sem hafi að fyrirmynd breska ríkisútvarpið BBC.“

Frú forseti. Þessa ályktun tileinka ég hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformanni Framsóknarflokksins, sem hefur ekki fengið verðuga umfjöllun í allri þeirri umfjöllun sem hæstv. menntamálaráðherra og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafa verið í um varaformenn í flokkum. (Gripið fram í.) Hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, var látinn liggja hjá garði í allri þeirri umfjöllun um varaformenn sem fram hefur farið. Því er nauðsynlegt að reyna að halda upp merki hæstv. landbúnaðarráðherra þannig að hann liggi ekki alveg óbættur hjá garði í umfjöllun um varaformenn í flokkum. (Gripið fram í.) Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur væntanlega ekki getað verið með okkur í umræðunni vegna þess, eins og hv. þingmaður bendir á, að hann stendur í mikilli baráttu, (Gripið fram í: Hart að honum sótt.) hart er að honum sótt af meira að segja formanni þingflokks Framsóknarflokksins. Það eru auðvitað tíðindi að (Gripið fram í.) slíkt skuli gerast en varaformaður Framsóknarflokksins, hæstv. landbúnaðarráðherra, er væntanlega, eins og ýmsir aðrir framsóknarmenn, þeirrar skoðunar að sjálfseignarstofnun henti Ríkisútvarpinu best. Sú ályktun var í anda hæstv. landbúnaðarráðherra en það er náttúrlega spurning hvort hann tali frá eigin hjarta alla tíð eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir þegar hann fjallar um varaformenn á stundum.

Frú forseti. Síðasta ályktunin sem ég les er frá Félagi ungra framsóknarmanna í Reykjavík sem ber hið virðulega nafn Alfreð. Það er afar viðeigandi að Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík beri slíkt nafn sem er væntanlega kennt við fyrrum leiðtoga þeirra í borginni.

Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Stjórn Alfreðs, félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður, skorar á forustumenn Framsóknarflokksins að fresta afgreiðslu frumvarps um Ríkisútvarpið um óákveðinn tíma eða á meðan málið er rætt betur innan flokksins. Ríkisútvarpið er í hópi þeirra stofnana sem þjóðin er ánægðust með og engin knýjandi nauðsyn er á fyrirhugaðri formbreytingu eða jafnvel einkavæðingu stofnunarinnar, eins og sumir sjálfstæðismenn vilja. Málefni Ríkisútvarpsins þarfnast vandaðrar umræðu og minnir stjórn Alfreðs á ályktun miðstjórnar Framsóknarflokksins og málefnastefnuskrá frá 2003 þar sem fram komu þau fyrirheit að RÚV verði breytt í sjálfseignarstofnun sem gerir þjónustusamning við ríkið.“

Svo mörg voru þau orð. Eins og heyra má eru þessar tvær ályktanir algjörlega í takt og ramma vel inn ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um breytta afstöðu Framsóknarflokksins sem hefur einhverja skýringu sem væntanlega verður síðar skýrð, en árið 2005 virðist koma þar mjög við sögu. Áhugafólk um stjórnmál getur því rifjað upp hvað gerðist árið 2005 í sögu Framsóknarflokksins og getur væntanlega lagt saman tvo og tvo og fengið út rétta niðurstöðu.

Frú forseti. Ég hef farið nokkuð yfir málið sem er á dagskrá, gert nokkrar athugasemdir við ræðu hæstv. menntamálaráðherra sem var merkt innlegg í umræðuna og full ástæða til að að vekja athygli á ýmsum ummælum sem hæstv. ráðherra viðhafði um málið. Það tók auðvitað lengri tíma en ég ætlaði að fara yfir þær örfáu athugasemdir. Það verður til þess að ég mun eftirláta einhverjum öðrum ágætum hv. þingmönnum og samherjum mínum að fara yfir þá þætti því að hér er um seinni ræðu mína að ræða í umræðunni. Ég mun því ekki hafa tækifæri til þess að fara ítarlega yfir þá þætti sem ég á eftir en mun að sjálfsögðu fylgjast áfram með umræðunni og nýta mér m.a. andsvör sem skapa auðvitað möguleika á því að koma viðhorfum á framfæri.

Frú forseti. Ég vænti þess að við nýtum vel þann tíma sem eftir er af umræðunni til þess að „bjarga Ríkisútvarpinu“ frá því ferli sem sölumenn Ríkisútvarpsins hafa reynt að koma því í. Sölumenn Ríkisútvarpsins hafa því miður ráðið of miklu í þessari för. Ég minni í lokin á ummæli hv. þm. Péturs H. Blöndals sem er leiðtogi sölumanna Ríkisútvarpsins hér innan veggja, að stuðningur sölumannanna við frumvarpið er vegna þess að það er stigið skref í átt að einkavæðingu Ríkisútvarpsins, óheillaskref sem okkar hlutverk er að reyna að koma í veg fyrir, okkar sem teljum að Ríkisútvarpið hafi mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi.