133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:00]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í gær stóð fundur í þinginu fram á nótt, til kl. hálftvö, og kvöldfundir hafa verið hér alla vikuna. Nú í kvöld bárust okkur þau boð að nefndir skyldu koma saman klukkan átta í fyrramálið og strax að loknum nefndarfundum hefst þingfundur kl. hálfellefu þar sem fram fer utandagskrárumræða um Byrgið og síðan er ráðgert að halda áfram umræðu um Ríkisútvarpið.

Ég er á þeirri skoðun að við eigum heimtingu á að fá að vita hvaða áform eru uppi um lok á þessum fundi. Hæstv. forseti segir að þetta verði metið um miðnættið. Ég leyfi mér að halda því fram að óljóst og þokukennt mat án þess að menn séu reiðubúnir að gefa einhverjar skuldbindandi yfirlýsingar kunni að hafa áhrif á lengd ræðutíma. Ef menn vita að hverju þeir ganga skipuleggja þeir sig í samræmi við það. Ég minni á að með ágætu samkomulagi við þann hæstv. forseta sem nú stýrir fundi náðist ágæt niðurstaða fyrir tveim kvöldum. Það þurfti ekki annað til en ákveðnar yfirlýsingar af hálfu forseta þingsins, þær voru teknar til greina og höfðu áhrif í þá átt að ræðutíminn styttist, menn voru tilbúnir að svara sanngjörnum viðbrögðum forseta þingsins á þann hátt. Ég hvet til þess að við fáum ákveðna yfirlýsingu frá forseta núna um hvenær þingfundi lýkur og ég hef trú á því að það muni hafa góð áhrif á þennan þingfund.