135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:51]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tillögur mínar í sjávarútvegsmálum og fiskveiðistjórn eru þær að fylgja þeirri stefnu stjórnvalda sem núna er verið að fylgja og ég hef stutt og styð. Ég er fylgjandi þeim ráðstöfunum sem voru gerðar fyrir þetta fiskveiðiár sem eru einhverjar þær alvarlegustu en jafnframt teknar af mikilli ábyrgð. Það er sú fiskveiðistefna sem stjórnvöld fylgja. Ég er alveg tilbúinn til að skoða aðrar mögulegar leiðir sem geta leitt okkur inn á betri veg í þessum málum. En ég vil þá fjalla um þær málefnalega og sjá þær tillögur koma fram. En þær tillögur sem koma hér fram eru náttúrlega í almennum orðum.

Hvalveiðar er eitt af því sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar segir til um. Ég er alveg klár á því að það er hægt að draga það inn í umræðuna, vegna þess að ég held að áhrif þess séu hreinlega vanmetin, áhrif hvala á nytjastofna okkar séu hreinlega vanmetin. En ég legg það til að við förum þar að ráðum Hafrannsóknastofnunar eins og í öðrum málum varðandi sjávarútvegsstefnu stjórnvalda.

Á Íslandi gilda íslensk lög. Það er Hæstiréttur sem túlkar stjórnarskrána og hefur komist að því að fiskveiðistjórn eins og hún er stunduð í dag sé í samræmi við ákvæði stjórnarinnar. Álit þessarar nefndar Sameinuðu þjóðanna hefur ekki bindandi lagaáhrif á Íslandi. Það er aðeins einn alþjóðasamningur sem hefur verið lögfestur sérstaklega og það er mannréttindasáttmáli Evrópu, eftir því sem mér er sagt. Verði árekstur á milli íslenskra laga og mannréttindasamtaka ganga íslensk lög framar ákvæðum alþjóðasamninga.

Ég ætla að ítreka það að ég er ekki að fella neinn dóm í þessu máli. Að sjálfsögðu tökum við þetta álit alvarlega. Að sjálfsögðu verður farið yfir það af (Forseti hringir.) lögspekingum okkar og í stjórnsýslunni og við gerum grein fyrir skoðunum okkar og stefnu í þessum málum.