138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skattamál ríkisstjórnarinnar og eins og staðan er núna, kl. 10 mínútur yfir þrjú, laugardaginn 19. desember, eru menn að tala um tvö virðisaukaskattsstig. Það á að slá heimsmet í skattheimtu, ef þetta nær fram að ganga verður þetta hæsta skattþrep á byggðu bóli þegar kemur að virðisaukaskatti. Í gær á sama tíma var verið að tala um þrjú virðisaukaskattsstig en seint í gærkvöldi kom breytingartillaga, og í sjálfu sér var það til bóta því að það var fyrir löngu búið að benda á að það væri algjörlega arfageggjað að hafa virðisaukaskattsstigin þrjú, og þessu var breytt. En breytingin sem liggur fyrir núna mun ekki fá neina faglega umfjöllun. Virðulegi forseti. Ég endurtek, hún mun ekki fá neina faglega umfjöllun. Ástæðan er einföld, það er enginn tími til þess. Umræðan sem málið fær, virðulegi forseti, er í þingsalnum núna og nú er ég hér, virðulegi forseti, og sá sem situr í salnum er hv. þm. Pétur H. Blöndal. Við náum því væntanlega að spjalla eitthvað saman um þetta, því að stjórnarliðar hafa ekki meiri áhyggjur af þessum málum en svo að þeir afgreiddu þessar breytingar í gærkvöldi. Það verða engir umsagnaraðilar og fagleg umræða verður engin. Og bara svo því sé til haga haldið eru umsagnaraðilar fengnir til í nokkurn veginn öllum málum, nokkurn veginn án undantekninga. Af hverju? Vegna þess að breytingar sem við gerum á lagaumhverfi hafa víðtæk áhrif. Oft sjá betur augu en auga og þess vegna kalla menn til fagaðila, sérfræðinga, að málum, hvort sem þau eru stór eða smá.

Virðulegi forseti. Hér erum við, 19. desember, að fjalla um mál sem er grundvallaratriði í þjóðlífinu. (Gripið fram í.) Hverjir munu koma og vera með umsögn um það, virðulegi forseti? (PHB: Enginn.) Enginn. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin veit ekkert hvað hún er að gera. Ef einhver skyldi segja: Þetta hlýtur bara að vera svona í þessu máli, það getur ekki verið að ríkisstjórnin — munið þið ekki að þetta er faglega ríkisstjórnin, þetta er samráðsríkisstjórnin, þetta er ríkisstjórnin með opna stjórnkerfið? (Gripið fram í: Velferðarstjórnin.) Norræna velferðarstjórnin. Hún vinnur ekki svona í mörgum málum, er það? Þetta er fólkið sem stóð hérna í ræðustól og við minnstu tilefni kallaði: Hér þurfa að vera lýðræðisleg vinnubrögð. Menn þurfa að vinna betur og skipulegar í þinginu. Það þarf að gæta að stöðu þingsins. Er einhver búinn að …? (PHB: Góð verkstjórn.) Og síðan komu menn seinna og sögðu að það þyrfti að vera góð verkstjórn í ríkisstjórninni. Það er annað mál. En muna menn eftir þessum ræðum? Muna menn eftir hæstv. fjármálaráðherra, áður stjórnarandstæðingi, sem hélt þessa ræðu hvað eftir annað, og hv. þm. Ögmundi Jónassyni? Ég man, virðulegi forseti, eftir eldmessum af minnsta tilefni. Farið var fram á að nefndir fengju lengri tíma, mál væru slegin af og sett í margra mánaða salt af minnsta tilefni. Hvað erum við með hér? Grundvallaratriði, hvorki meira né minna en skattkerfið. Hvenær breyttu snillingarnir sem stýra landinu þessu? Í gærkvöldi klukkan hálfníu. Og nú á að klára mælendaskrána og helst að koma öllum í jólafrí.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki undantekning hjá núverandi ríkisstjórn, þetta er regla. Þessi ríkisstjórn tók við, þessir flokkar, 1. febrúar á þessu ári. (Gripið fram í: Vinstri flokkarnir.) Það er nærri heilt ár síðan. Þeir hafa haft allan þann tíma til að fara yfir og taka á þeim verkefnum sem var vitað fyrir rúmlega ári síðan að við mundum vera að fást við núna. En núna, virðulegi forseti, vorum við að gera grundvallarbreytingar í gærkvöldi klukkan hálfníu. Það mun enginn fagaðili fá að fara yfir málið og ríkisstjórnin veit ekkert hvaða afleiðingar þetta hefur. Það getur vel verið að það sé meingallað, það getur vel verið að það séu miklir ágallar á málinu. Virðulegur forseti. Það veit enginn hér inni. Við höfum haft þá reglu að senda mál út til umsagnar vegna þess að oftar en ekki yfirsést mönnum einhver atriði. Þetta heitir, virðulegur forseti, fagleg vinnubrögð.

Þetta á ekki bara við um þetta grundvallarmál sem snertir alla Íslendinga, virðisaukaskattsstigið, það er ekki bara þetta, þetta er svona í öllum málum. Þegar kemur að ríkisrekstrinum ætla menn að flytja t.d. heilbrigðisþjónustu yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Það væri nú gaman að heyra hv. þm. Ögmund Jónasson tjá sig um það, 20 milljarða frá heilbrigðisþjónustunni yfir í annað óskylt ráðuneyti. Hvað skyldu margir umsagnaraðilar koma að því? Hvað skyldu þeir vera margir, virðulegi forseti? Af því þetta var lagt fram í fjárlagafrumvarpinu var nú nægur tími. Voru þeir kannski 5 eða 10 eða 20, 30, 40? Nei, virðulegi forseti, enginn, núll. Það átti að keyra þetta í gegn án umræðu meira að segja í hv. heilbrigðisnefnd. Minni hlutinn bað um umræðu um það og við fengum í gærmorgun, virðulegi forseti, nokkra aðila sem vissu í fyrsta lagi ekki hvað þeir áttu að ræða um við nefndina og í öðru lagi höfðu þeir ekki hugmynd um að verið væri að færa málaflokk upp á 20 milljarða, sem er meira en tilflutningurinn þegar grunnskólinn fór frá ríki til sveitarfélaga. Þeir höfðu ekki hugmynd um það.

Virðulegi forseti. Menn hefðu átt að sjá svipinn á gestunum þegar þeim var tjáð að verið væri að færa hjúkrunarheimilin frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið. Sérstaklega verður mér minnisstæður svipurinn á forustumönnum eldri borgara. Þeir vissu ekkert af þessu, en allir sögðu það sama: Ekki gera þetta. Það verður að fara miklu betur yfir þetta. Enda hafa engin fagleg rök verið nefnd, engin. Þetta eru pólitísk hrossakaup á milli ráðherra og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra segir: Ég er með þetta. Þó svo að hæstv. félagsmálaráðherra hafi sagt í þingræðu að það væri svo mikið að gera í ráðuneyti hans að hann þyrfti að fá sjálfboðaliða til að hjálpa ætlar hann samt sem áður að taka heilbrigðisþjónustuna yfir án undirbúnings.

Virðulegi forseti. Í dag kom frétt í Morgunblaðinu þar sem fyrirsögnin er „Engar hækkanir til Landspítala vegna gengisáhrifa“. Það er ljóst að ríkisstjórnin er í herför gegn Landspítala, það er ekkert öðruvísi. Tvær opinberar stofnanir verða illa fyrir barðinu á gengisáhrifum, það eru Landhelgisgæslan og Landspítalinn. Landhelgisgæslan getur farið þá leið að leggja skipunum. (PHB: Sigla til Færeyja.) Kannski, virðulegi forseti, geta þau siglt til Færeyja, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar fram í, það má kaupa olíu þar. En Landspítalinn getur ekki flutt starfsemi til Færeyja og Landspítalinn getur ekki hætt að kaupa lyf, þau hækka í verði með gengisbreytingum, eða lækningavörur.

Ég beitti mér fyrir því sem heilbrigðisráðherra — nema hvað — að bæta upp gengisáhrifin. Núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að gera það. Stofnanirnar skulu bara taka gengistapið og skera meira niður. Núverandi ríkisstjórn sendi líka bréf, eða þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, rétt eftir kosningar og sendi aukakröfu, aukasparnaðarkröfu umfram það sem getið er um í fjárlögunum, upp á 151 millj. kr. Af hverju? Vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra þá var að slá sér upp fyrir kosningar og sagði: Hér verða engin komugjöld, það kemur ekki til greina. Hann sagði bara engum frá því að hann ætlaði að láta Landspítalann þjást fyrir þessa pólitísku ákvörðun sína. Það að fara ekki í kragaverkefnið, þrátt fyrir að það skili 1,5 milljörðum í sparnað a.m.k., mun þýða að það verður aukið álag á starfsfólk Landspítalans og það mun koma beint niður á þjónustu við sjúklinga. Þarna er um að ræða, virðulegi forseti, hreina og klára atlögu að Landspítalanum.

Þetta virðisaukaskattsmál er enn ein birtingarmynd þess að við völd er ríkisstjórn sem hefur þann „kost“ að hún er með góða spunameistara á sínum snærum. Það verður alveg að segjast, virðulegi forseti, að oft þegar maður sér hvernig þeir spinna vefinn í fjölmiðlum og spila á alla þræði þar, þá finnst manni, ég vil ekki nota orðið aðdáunarvert en ótrúlegt hvaða mynd þeim tekst að búa til af því sem er að gerast. En öll orkan virðist fara í þennan þátt því að ekkert er innihaldið. Allar yfirlýsingarnar um faglegu vinnubrögðin eru gleymdar, ef það stóð einhvern tímann til að standa við þær.

Það sem ég hef einna mestar áhyggjur af, vegna þess að ég hlustaði á hv. þm. Helga Hjörvar áðan — og það væri ágætt ef hv. þingmaður hlustar á mig að fá kannski viðhorf hans til þess. Það sem veldur mér eiginlega mestum vonbrigðum er að besta hugmyndin sem hér hefur komið fram, sem ég held að allir séu sammála um sem gæta sanngirni, um það hvernig við eigum að vinna okkur út úr þessu í stað þess að leggja ofurskatta á fólkið í landinu og reyna að gera það sem hefur aldrei tekist áður að skattleggja, skattpína fólk í gegnum kreppu sem mun aldrei verða lausn, besta hugmyndin er skattlagning á séreignarlífeyrissparnaðinn sem mundi hjálpa okkur yfir þennan erfiða hjalla, en það er litið svo á að það eigi að sjálfsögðu ekki nota hana núna vegna þess að nú ætli menn að skattleggja af því að þá langar til þess. Þetta er gamall vinstri draumur. Alþýðubandalagsríkisstjórnin er að framkvæma það núna sem gamla Alþýðubandalagið var með á stefnuskrá sinni og fyrirrennarar hennar. Við getum farið í gegnum fyrirrennara Alþýðubandalagsins, það voru Sósíalistaflokkur alþýðu og Kommúnistaflokkurinn. Alþýðubandalagið rann inn í Samfylkinguna og Samfylkingin er þvert á það sem menn halda ekki neinn krataflokkur, þetta er ekki Alþýðuflokkurinn eins og hann var. Alþýðuflokkurinn var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum 1991–1995 og þá fóru menn í að einfalda skattkerfið. Menn geta fundið margar ræður frá gömlu krötunum sem töluðu um að einfalda skattkerfið. (Gripið fram í.) Að einfalda skattkerfið. Það var það sem menn lögðu af stað með. Og af hverju? Það er markmið í sjálfu sér að það sé einfalt. Það er ekkert réttlæti í því að venjulegur launamaður þurfi að hafa gríðarlega mikið fyrir því að skilja skattkerfið. Það er ekkert réttlæti í því. Það er ekkert réttlæti í því að aðili sem fer út í atvinnurekstur, og flestir byrja smátt, þurfi að hafa mikla sérfræðiþekkingu eða kaupa sér mikla sérfræðiþekkingu til að rata í gegnum frumskóg skattareglna. Það er ekkert réttlæti í því. Það er óréttlátt og það er óskynsamlegt. Þess vegna fóru menn í það að einfalda skattareglur. Í þá vegferð fóru með Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma Alþýðuflokkurinn (Gripið fram í.) og sömu viðhorf voru uppi meðal Framsóknarflokksins.

Vinstri flokkarnir komu ekki fyrir kjósendur í síðustu kosningum og sögðu: Þegar við komumst að ætlum við ekki bara að hækka alla skatta sem við getum, heldur ætlum við líka að flækja skattkerfið. Þið skuluð virkilega fá að finna fyrir því að fylla út skattskýrsluna ykkar. Það sem við ætlum að gera er að gera þetta að draumalandi fyrir þá sem kunna til þessara verka. Annaðhvort þurfið þið að vera sérfræðingar í skattareglum og það er mikil vinna eða þið þurfið að greiða háar upphæðir til að fá fólk til að útfylla einfalda hluti eins og skattframtalið. Þeir sögðu aldrei við venjulega launamanninn: Þú skalt bera ábyrgð á þínum tekjuskatti. Ef þú vinnur á tveimur stöðum er eins gott að þú varir þig því að þú getur orðið skattsvikari af minnsta tilefni.

Virðulegi forseti. Þetta voru ekki kosningaloforð vinstri flokkanna en þetta eru efndir vinstri flokkanna. Það er þetta sem menn eru að gera.

Virðulegi forseti. Þegar kemur að hugmynd eins og að skattleggja séreignarlífeyrissparnaðinn, og það er mjög gott að við eigum það inni því að menn hefðu alveg getað farið þá leið að taka skattinn á undan þegar viðbótarlífeyrissparnaðinum var komið á, svipað og gert er í öðrum löndum. (Gripið fram í.) Sérstaða Íslands felst í því að sparnaður er nær eingöngu lífeyrissparnaður hjá almenningi. Í öðrum löndum er miklu minni lífeyrissparnaður en miklu meiri svokallaður frjáls sparnaður. Það eru málefnaleg rök fyrir því að skattleggja ekki fyrir fram grunnlífeyrissparnaðinn einfaldlega vegna þess að það er lógískt að þegar menn fá lífeyrisgreiðslurnar greiddar út komi tekjuskattsgreiðslur vegna þess að við tökum þetta út þegar við erum orðin eldri, þá er mikill kostnaður við heilbrigðiskerfið o.s.frv. Með viðbótarlífeyrissparnaðinn gegnir allt öðru máli einfaldlega vegna þess að hann á miklu meira sameiginlegt með frjálsum sparnaði eins og hann er í öðrum löndum en í rauninni með grunnlífeyrissparnaði. Það er því rökrétt og einfalt að fara þessa leið og mundi koma í veg fyrir að við þyrftum að skattpína almenning núna og flækja skattstigið, það gæti hjálpað okkur á næstu tveimur árum og á þeim tíma, ef við höldum rétt á spilunum, ættu hjól atvinnulífsins að vera komin á hraðari snúning en þau eru núna.

Ég hlustaði á hv. þm. Helga Hjörvar og ég heyrði að hv. þingmaður sá fyrir sér að þarna væri bara enn þá meira af skattpeningum sem hægt væri að ná í. Nú skulum við fara í drauminn að hækka skattana upp úr öllu valdi, skattpína almenning og fyrirtækin, flækja skattstigið, svo tökum við hitt seinna. Út á það gengur ekki hugmynd okkar sjálfstæðismanna. Hún gengur ekki út á að þetta sé viðbót við skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar. En ég heyrði það á hv. þm. Helga Hjörvar að það er næsta skref. Ég þekki vinstri menn alveg ágætlega þegar þeir tala með þessum hætti, ég tala nú ekki um af því að ég og hv. þm. Helgi Hjörvar höfum átt gott samstarf í langa tíð, bæði hér og hinum megin Vonarstrætisins, þannig að maður sér hvað er í vændum og ekkert er verra. Það er gott að eiga þessar skattgreiðslur í handraðanum. Við vorum lánsöm að fara þessa leið og hefðum getað nýtt það núna og það gæti gert það að verkum að við komumst út úr kreppunni hraðar en allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við. En það er augljóst að það á ekki að fara þessa leið, það á að dýpka hana með skattpíningum. Það á að gera fólki virkilega erfitt fyrir með því að auka á flækjustigið. Það á að fara frá þeirri leið að hafa einfalt skattkerfi. Það er bannorð. Einhver spunameistarinn taldi að það væri merki um norrænt velferðarsamfélag að enginn gæti skilið skattareglur. Og guð veit, virðulegi forseti, hvaðan þeir fengu þá hugmynd.

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um grundvallarbreytingar á íslensku skattkerfi og menn voru að kynna það í gærkvöldi. Það munu engir fagaðilar fá að fjalla um það. Það verða engir umsagnaraðilar. Þetta er orðið almenna reglan hjá hæstv. ríkisstjórn. Svona á að vinna. Allt sem sagt var meðan menn voru í stjórnarandstöðu og fyrir kosningar eru hrein og klár ósannindi. Það á ekki að vinna faglega hjá núverandi ríkisstjórn, hvorki í skattamálum né í öðrum málum. Það eru aðrar reglur sem gilda.