138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir andsvarið. Hv. þingmaður kom þarna inn á mál sem er ekki aukaafleiða heldur grundvallaratriði. Ef við förum aðeins í vinnu þessarar ríkisstjórnar sem lagði upp með að vera svo fagleg, þá fór hún ekki að ráðum stjórnarandstöðunnar og vann þetta ekki með henni. Við lögðum til strax í vor að farið yrði í að vinna að því sem við köllum skuldavanda heimilanna. Það var fellt, enda kom fyrir nokkrum vikum útspil frá hæstv. félagsmálaráðherra. Fólk hefur lagt mikið á sig við að koma í veg fyrir að verða skellt inn í þá lausn, einfaldlega vegna þess að það er lenging og miðað við allar forsendur mun það hækka til langs tíma greiðslur fólks. Það hins vegar lækkaði núna örlítið greiðslur lána en það verður allt tekið aftur með þessum skattbreytingum eins og hv. þingmaður benti á, bæði varðandi hækkun vísitölunnar og sömuleiðis að þessar skattahækkanir munu koma niður á öllum þannig að menn hafa minna á milli handanna til að greiða afborganir af lánunum sínum.

Ég er því hjartanlega sammála hv. þm. Eygló Harðardóttur um að efnahags- og skattanefnd hefði auðvitað átt að fara yfir þetta. Þetta er ekki smámál. Þetta er grundvallarmál og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því hér.