138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans sem var ágæt. Þingmaðurinn spurði í upphafi: Til hvers erum við að fara út í allar þessar skattbreytingar? og svaraði því til að auka þyrfti tekjur ríkissjóðs. Ég tek alveg undir þau sjónarmið, það vantar peninga í kassann og það eru til ýmsar leiðir til að gera þetta.

Ég fagna því að hv. þingmaður skaut ekki út af borðinu leið okkar sjálfstæðismanna um séreignarlífeyrissparnaðinn. Mér þótti samt, ég ætla ekki að nota orðið ankannalegt en ég tók eftir því að hann hafði áhyggjur af framtíðinni í því samhengi en studdi svo það að ríkisstjórnin leyfir einstaklingum að taka lífeyrissparnað sinn út. Ég hef áhyggjur af framtíð þess fólks ef það er farið að saxa á framtíðartekjur sínar. Ég hafði reyndar ekki gert mér grein fyrir því að fólk væri að taka þetta út til að fara í framkvæmdir, ég hélt að fólk væri að nota þetta í allra ýtrustu neyð. En það sem ég er hrædd við hér er þessi lagasetning. Hún er óvönduð. Við sáum það bara í gær að það er verið að hrökkva til baka með einhverjar tillögur sem var búið að setja fram. Þær hafa fengið mikla gagnrýni og ég held að þetta sé ekki úthugsað. Því vil ég spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég rak augun í frétt í Morgunblaðinu í morgun þar sem yfirskriftin er „Skattabreytingar óþarfar“ og af því að þetta snýst um það að afla tekna í ríkissjóð: Hefði ekki verið gáfulegra í ljósi þess að þetta kemur allt fram svo seint og þetta er allt unnið á svo miklum hraða, við náum ekki einu sinni að fara almennilega í umræðuna, hefði ekki verið rétt í ljósi þess sem sagt er í þessari frétt að það væri, með leyfi forseta, „býsna einfalt að ná fram þeim tekjujöfnunaráhrifum sem skattbreytingum er ætlað að kalla fram í núverandi kerfi. Eingöngu hefði þurft að hækka tekjuskattsprósentuna upp í 43% og hækka persónuafsláttinn upp í 65 þúsund krónur“ — án þess að fara í allt flækjustigið sem kallar á svo mikið vesen út um allt?