138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

fundarstjórn.

[17:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við vorum í mikilli atkvæðagreiðslu áðan um grundvallarbreytingar á skattkerfinu. Ég bað um orðið til að fá að gera grein fyrir afstöðu Framsóknarflokksins í einni atkvæðagreiðslunni og hæstv. forseti hleypti mér ekki upp til að gera grein fyrir afstöðu þingflokks Framsóknarflokksins. Ég var reyndar örlítið seinn að kveðja mér hljóðs en það er alvanalegt að fulltrúum þingflokka sé hleypt upp til að gera grein fyrir afstöðu einstakra þingflokka og hvað þá í svona grundvallarmáli sem við ræðum hér. Ég held að hæstv. forseti komi einfaldlega ekki eins fram við þingmenn sem eru í minni hluta á Alþingi og þá sem eru í meiri hluta. Ég hef áður gert athugasemd við fundarstjórn forseta að þessu leytinu til. Margsinnis hafa þingmenn fengið að fara upp til að gera grein fyrir atkvæði sínu þótt þeir hafi ekki beðið alveg strax um orðið þannig að ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann sýni jafnræði hér, hann er forseti allra þingmanna og svona vinnubrögð ganga ekki. Það er mjög slæmt að ég hafi ekki getað gert grein fyrir áliti Framsóknarflokksins í þessari umræðu.