141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hafa í huga að þó að kostir séu settir í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að þeir verði virkjaðir. Það er fyrst og fremst verið að tryggja að rannsóknir sem fela meðal annars í sér umhverfismat og arðsemisútreikninga séu kláraðar áður en menn taka slíka ákvörðun. Þegar við höfum fjallað um þetta mætti halda að við værum að setja virkjanir af stað með því að setja hluti í nýtingarflokk. Svo er auðvitað ekki.

Þess vegna finnst mér enn sérkennilegra að þessi svokölluðu almennu varúðarsjónarmið eigi að gilda um þessar tvær efri virkjanir í Þjórsá sem og reyndar Skrokköldu- og Hágönguvirkjanir vegna áhrifasvæðis, „buffer zone“.

Við hv. þingmenn höfum aðeins rætt hérna um Hverahlíðarvirkjun og kostina þar. Það hefur komist til tals að lengi vel stóð til, á upphafsárum þessarar ríkisstjórnar, að vegna eigin erfiðleika Orkuveitunnar við fjármögnun til þess að uppfylla skilyrði um orkusölu til Norðuráls, held ég að það hafi verið, kæmi til greina að setja slíkt í verkefnafjármögnun ef menn gætu síðan leyst aðra þætti líka. Því spyr ég hv. þingmann út í verkefnafjármögnun. Ég lagði ásamt nokkrum þingmönnum í fyrravor og aftur í haust fram þingsályktunartillögu um fjögur atriði. Einn þátturinn var sá að menn könnuðu vel og rækilega öll áhrif þess að setja virkjunarkosti í slíka verkefnafjármögnun, þar á meðal að tryggja með lögum fyrir fram að við værum ekki að ana af stað út í eitthvað, að ef illa færi í þessari verkefnafjármögnun og hugmyndin yrði gjaldþrota með einhverjum hætti færi auðlindin sem slík ekki úr eigu þjóðarinnar eða sveitarfélaganna, sem sagt almennings, (Forseti hringir.) sem við ætti.

Mig langar að heyra álit þingmannsins á því hvort hann telji ekki mikilvægt að við förum í gegnum slík vinnubrögð áður en við höldum til að mynda áfram á þessari braut. Þó að þetta tengist ekki rammaáætlun beint er þetta engu að síður hluti af því sem síðar gæti gerst.