141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það má í sjálfu sér margt segja um alla þessa vinnu, hv. þingmaður orðaði það ágætlega þegar hann talaði um rammagerðarmenn landsins, og auðvitað er ekkert óskeikult í þessu. En ef hægt er, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, að tala um það að færa þessa sex kosti til baka, hvort það mundi þá skapa sáttina á ný — ég veit það ekki. Við höfum séð að ferlið er að sumu leyti gallað, en ef þingmaðurinn er að tala um að skapa sátt hjá aðilum vinnumarkaðarins og fleirum í samfélaginu þá ætti kannski að taka hluta af þeim kostum til baka í það minnsta. Það mundi örugglega gleðja einhverja og sjálfsagt ýta undir að meiri friður og meiri sátt yrði um málið. En ég held að við séum komin í þá stöðu með heildina að skoða þurfi allt málið frá upphafi til enda.

Það kann vel að vera að tækifæri sé til að taka hluta af þessu, setja aftur í nýtingarflokk ef vilji er til þess hjá stjórnarmeirihlutanum en halda eftir hluta af þessum sex kostum. Ég held hins vegar að það sé ekki í boði. Ég held að stjórnarmeirihlutinn sé búinn að koma sér saman um að fara þessa leið. Ég held að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir muni með stuðningi þeirra flokka sem hafa stutt ríkisstjórnina í gegnum þykkt og þunnt, flokka eins og Bjartri framtíð, Hreyfingunni eða Dögun, eða hvað það heitir í dag, verja þetta ferli eins og þeir hafa varið ríkisstjórnina. Þar af leiðandi held ég að engar áhyggjur séu af því að koma þessu í gegnum þingið, sem væri þó held ég skynsamlegra að breyta því til baka, í það minnsta hluta af þessu.