141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar spurningar. Ég tel að það gerist þegar verkefnisstjórnin skilar skýrslu sinni og sérvalinn hópur tekur til við að flokka. Þar byrjar þetta. Það er mitt mat. Þegar málið fór af stað var ekki búið að setja lögin á þinginu. Það er í rauninni ákveðinn galli að við vinnum þetta allt saman á sama tíma og lagaumhverfið er ekki ákveðið. Við sjáum í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar að þar kemur fram að verkefnisstjórnin skuli ljúka störfum og skila skýrslum fyrir iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra með heildarmati og flokkun. Það var gert ráð fyrir því í upphafi að verkefnisstjórnin mundi flokka. Síðan var greinilega breytt út frá þeirri hugmyndafræði þegar lögin voru í vinnslu á þingi. Það er, eins og ég hef sagt í flestum mínum ræðum, helsti gallinn á málinu að lögin eru unnin samhliða því að verkefnisstjórnin er að störfum. Ef einhvern tíma verður ráðist í risastórt verkefni svipað þessu mæli ég með því að reynt sé að tryggja lagaumhverfið áður en haldið er af stað í hina löngu vegferð þannig að menn átti sig algerlega á því hvert skuli stefnt og hvernig menn eigi að skila af sér. Ég hef reyndar ekki talað um krumlur, ég hef meira talað um pólitísk fingraför, en það er kannski misjafnt hvernig menn orða hlutina.

Ég tel að við hljótum öll að vera sammála um það og vonandi erum við hv. þingmaður sammála um að það að hafa farið í þessa vegferð og sett þetta mál í faglegan farveg sé gott. Reynum þá að fylgja því allt til enda. Við erum kannski ósammála um hvort þetta sé á faglegum nótum eða ekki.