143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[15:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það tapa allir á svartri atvinnustarfsemi. Einstaklingar sem vinna svart, ef svo má segja, njóta ekki þeirra réttinda sem fylgja því að vera á kjarasamningi, á launasamningi, þannig að þeir tapa. Samkeppnisstaða fyrirtækja, sérstaklega þeirra sem stunda heiðarlegan atvinnurekstur, brenglast og verður lakari og samfélagið í heild verður af sköttum og gjöldum sem renna í sameiginlega sjóði.

Hér hefur verið minnst á samvinnu Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandsins og ríkisskattstjóra, sem hófst í kjölfar kjarasamninganna 2011, því að við gerð kjarasamninga virðist fólk fara að lofa því að gera eitthvað. Núna er sérstakt átak til að fyrirtæki séu ekki að hækka verð að óþörfu, þá var sem sagt í kjarasamningum ráðist í að skoða þessa svörtu atvinnustarfsemi og vonandi skilar það allt árangri.

Þegar þetta var skoðað þarna í kringum 2000 kom í ljós að 55% af þeim fyrirtækjum sem voru heimsótt fengu einhverjar ráðleggingar um úrbætur, hvað þau þyrftu að gera betur. Það voru sem sagt einungis 45% fyrirtækjanna sem stóðu alveg rétt að málum. Á þenslutímum er hætta á að svört atvinnustarfsemi færist í vöxt. Þó að við séum ekki á þenslutíma núna þá er sem betur fer allt á uppleið þannig að ekki veitir af að hafa augun opin og er ánægjulegt að þessi starfshópur skili af sér í vor.

Ég vil líka minnast á töluna 14 milljarða — ríkisskattstjóri hefur metið það svo að svört atvinnustarfsemi valdi því að sú upphæð skili sér ekki í ríkiskassann. Við erum nýbúin að vera hér í fjárlagavinnu og við vitum öll að það hefði verið miklu skemmtilegra að hafa 14 milljarða í viðbót til að nota til góðra málefna.