144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör við flestum spurningum sem ég hafði hér uppi. Það var eins og mig grunaði, hæstv. ráðherra gerði ekki ráð fyrir því að það væri ákvörðun ráðherra að flytja meginverkefni til nýrrar stofnunar, það hlyti að gerast með lögum. Ég held að það sé mikilvægt að nefndin skerpi þau skil ef þetta orðaleg verður viðhaft, þ.e. hvað felist í heimild ráðherra til þess að ákvarða stofnuninni einhver verkefni og hvers konar minni háttar verkefni það séu sem þar er um að ræða, því að þetta nýmæli gæti orðið útbreiddara og átt við fleiri stofnanir. Þess vegna skiptir miklu máli að það sé vel útfært og feli ekki í sér óeðlilegt framsal valds frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins.

Ég vildi inna ráðherrann frekar eftir því sem ég spurði um varðandi innihaldið í starfseminni, um námsgagnagerðina sjálfa. Sér hann fyrir sér breytingar í því? Eru einhverjir þættir í starfsemi þessara stofnana sem hann telur að eigi að vera víkjandi í þróun hennar? Eru einhver verkefni þar inni sem hann telur að eigi betur heima hjá einkaaðilum en hjá opinberum aðilum og þar fram eftir götunum? Síðan vil ég spyrja um hinar lengri boðleiðir og þá sérstaklega í þeim málum sem fólk rekur í sveitarfélögunum vegna grunnskólans og leikskólans. Hvernig er áfrýjunarleiðum fyrirkomið eftir þessu skipulagi? Ef menn greinir á um einhverja þætti við sveitarstjórn sína og áfrýja málum sínum og hafa til þessa áfrýjað því til ráðuneytisins og ráðherrans, þyrftu þeir þá að áfrýja því til Menntamálastofnunar og síðan eftir umfjöllun þar að áfrýja málunum til ráðuneytisins og ráðherrans, eða mundu þeir eftir sem áður áfrýja málum sínum beint til ráðuneytisins og ráðherrans án aðkomu þessa millistigs?