144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veit að ég er nokkuð veikur fyrir þeim rökum sem snúa að sjálfsprottnu skipulagi. En hér eru nokkur atriði sem menn verða að hafa í huga og ég kalla eftir afstöðu hv. þingmanns til þeirra, það er kannski fyrst og fremst þetta: Við kortagerð þar sem verið er að birta opinber kort sem geta skipt miklu máli, til dæmis út frá öryggissjónarmiði og öðru slíku, þarf að taka ákvörðun um hvað stendur á þeim kortum, hvaða örnefni eru þar og hvað viðkomandi náttúrufyrirbæri, fjöll, dalir og annað slíkt, heita. Vissulega er hægt að sjá fyrir sér einhver kort þar sem búinn er til langur listi yfir öll þau heiti sem orðið hafa til, en það er nokkuð umhendis. Það fyrirkomulag sem er núna er þannig að örnefnanefnd tekur ákvörðun um það.

Með þessu erum við að færa okkur yfir í það fyrirkomulag að þegar nýtt náttúrufyrirbæri verður til séu það íbúar viðkomandi sveitarfélags sem taki ákvörðun um hið nýja örnefni. Sú ákvörðun getur átt sér aðdraganda þar sem mismunandi nöfn velkjast um en að lokum kemur að því að taka þarf einhverja ákvörðun um heiti vegna kortagerðarinnar. Ég vildi gjarnan heyra það frá hv. þingmanni, þó að við getum verið svo innilega sammála um mikilvægi sjálfsprottinna kerfa, hvernig þeim þætti málsins hv. þingmaður telur að væri best fyrir komið eða hvernig menn leystu það að þurfa að taka endanlega ákvörðun. Ég vísa þá til núverandi laga um hvernig það er gert.